Laxfoss Friðrik Jónsson eignaðist alla veiði í Norðurá, frá Glanna og niður að Hábrekknavaði. Hann tapaði hluta réttindanna með laxveiðilögunum.
Laxfoss Friðrik Jónsson eignaðist alla veiði í Norðurá, frá Glanna og niður að Hábrekknavaði. Hann tapaði hluta réttindanna með laxveiðilögunum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Jarðir við laxveiðiár eru eftirsótt gæði sem innlendir og erlendir auðmenn hafa lengi haft áhuga á.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Jarðir við laxveiðiár eru eftirsótt gæði sem innlendir og erlendir auðmenn hafa lengi haft áhuga á. Það eru einkum ástríðufullir laxveiðimenn og náttúruverndarmenn sem hafa farið út í slík jarðakaup, til þess að byggja upp laxastofna til stangveiða en einnig eru dæmi um að einstaklingar eða hópar einstaklinga hafi séð viðskiptatækifæri í laxveiðijörðunum.

Nýjasta dæmið er kaup breska auðjöfursins Jim Ratcliffe á þremur laxveiðijörðum í Vopnafirði fyrr í vetur auk kaupa hans á meirihluta Grímsstaða á Fjöllum og jörðum við Hafralónsá í Þistilfirði.

Ratcliffe er hluthafi í Veiðiklúbbnum Streng, sem einnig á átta jarðir í Vopnafirði. Enn stórtækari er Jóhannes Kristinsson, sem hefur verið að safna jörðum við laxveiðiárnar í Vopnafirði um árabil. Eru þeir Jóhannes og Ratcliffe sagðir eiga 23 af 70 jörðum í héraðinu að hluta eða öllu leyti.

Samstarfsmaður Ratcliffe sagði í fjölmiðlum í vetur, þegar málið kom upp, að hann hefði áhuga á að byggja upp veiðina í ánum.

Svíi kaupir í Langadalsá

Fyrir fimm árum keypti sænskur auðmaður þrjár og hálfa jörð við Ísafjarðardjúp í gegnum íslenskt félag. Þeim fylgir tæpur helmingshlutur í Langadalsá og Hvannadalsá. Lífsval hafði á sínum tíma keypt þessar jarðir, eins og fleiri jarðir um allt land, en Landsbankinn tók yfir félagið eftir hrun og gekk í að selja jarðirnar.

Jarðasöfnun við laxveiðiár er ekki ný af nálinni. Snemma á 20. öldinni keypti Thor Jensen athafnamaður allar jarðir við Haffjarðará á Snæfellsnesi. Leigði hann sumar þeirra til bænda og seldi aðrar en hélt veiðiréttinum eftir. Flestar jarðirnar fóru í eyði þegar fram liðu stundir. Staðan er óbreytt þótt nýir eigendur haldi nú um eignarrétt árinnar.

Friðrik Jónsson, annar svonefndra „Sturlubræðra“ í Reykjavík, eignaðist á svipuðum tíma margar verðmætar laxveiðijarðir við Norðurá í Borgarfirði. Hann fékk Laxfoss að erfðum og keypti fjórar jarðir til viðbótar og veiðirétt einnar til, og átti þá allan veiðirétt frá Glanna að Hábrekknavaði. Það er langverðmætasta laxveiðisvæði árinnar og eitt það fallegasta og besta á landinu.

Bæði Thor og Friðrik friðuðu veiðisvæði sín fyrir netaveiðum og ádrætti sem gengið hafði nærri laxastofnunum og nýttu þær eingöngu til stangveiða fyrir sig, fjölskyldur sínar og vini nema hvað Friðrik leigði Norðurá einnig til enskra veiðimanna.

Veiðin tekin eignarnámi

Friðrik seldi aftur jarðirnar sem hann hafði keypt en hélt eftir veiðinni. Fram kemur í æviminningum sonar hans, Sturlu Friðrikssonar, að hann hafi ekki séð fyrir lagasetningu sem síðar varð, þegar bændum var veittur réttur til að innleysa aftur til sín hlunnindi jarða sem tekin höfðu verið af þeim. Var veiðin tekin af honum með eignarnámi. Friðrik hélt tveimur jörðum, Laxfossi og Einifelli, sem eru tvær af þremur arðhæstu jörðum Norðurár, og eru þær í eigu sonardóttur hans.