Fótbolti
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
„Leikurinn okkar var jákvæður. Það var góður gangur í þessu hjá okkur þótt maður sé alltaf að leita að hinum fullkomna leik,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, eftir öruggan 2:0 sigur íslenska landsliðsins á landsliði Slóvaka í Senec í Slóvakíu í gær. Viðureignin var liður í undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir þátttöku á Evrópumótinu sem fram fer í Hollandi í sumar. Á þriðjudaginn mætir íslenska liðið hollenska landsliðinu í vináttuleik í Hollandi.
Elín Metta Jensen og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoruðu mörkin i gær, hvort í sínum hálfleik.
„Leikurinn var góður að mörgu leyti. Við settum okkur nokkur markmið áður en gengið var inn á leikvöllinn og við náðum einhverjum þeirra, sem er mjög gott,“ sagði Freyr í samtali við Morgunblaðið. Spurður hver þau markmið voru svaraði landsliðsþjálfarinn: „Eitt þeirra var að skora mark eftir fast leikatriði og það tókst þegar Berglind skallaði boltann í mark Slóvaka eftir hornspyrnu. Við reyndum að vinna eftir fyrirfram ákveðnum sóknarfærslum. Uppbyggingin á fyrra markinu var til dæmis alveg fullkomin, beint af æfingasvæðinu,“ sagði Freyr og bætti við:
„Okkur tókst að halda marki okkar hreinu og hafa stjórn og gott skipulag á varnarleik okkar í föstum leikatriðum Slóvaka en föst leikatriði eru helsti styrkur þeirra. Eins lánaðist okkur að halda Slóvökum í skefjum þannig að þeir fengu engin skyndisóknir,“ sagði Freyr.
„Ég hefði viljað sjá leikmenn gera betur þegar þeir voru með boltann en ég var ánægður með flest annað í leiknum,“ sagði Freyr sem taldi útlitið vera gott hjá íslenska liðinu. „Okkur vantar kannski einhvern takt í leik okkar en eftir tvær æfingar er svo sem ekki hægt að kvarta yfir neinu. Nú liggur leið okkar til Hollands þar sem við leikum á þriðjudaginn. Þá vonast ég eftir enn betri leik.
Það var margt gott í þessum leik. Við erum á góðri leið. Einnig var gott að Berglind Björg náði að brjóta ísinn og skora mark. Við lékum tvennskonar kerfi, 3-4-3 í fyrri hálfleik og okkar hefðbundna 4-3-3 í seinni. Breytingin í byrjun síðari hálfleiks riðlaði leik andstæðinganna,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu.