Draga þarf hina seku til ábyrgðar í Sýrlandi

Síðustu daga hefur heimsbyggðin horft gáttuð upp á eftirköst skelfilegrar efnavopnaárásar í Sýrlandi, sem lagt hefur í valinn marga tugi manna, og að minnsta kosti 27 börn. Allar líkur eru á að sarín-gasi hafi verið beitt og ekki er á hvers manns færi að framleiða eða geyma slíkt vopn.

Böndin berast því helst að stjórnarher Sýrlands, en vitað er að hann stóð fyrir loftárásum á þorpið Khan Sheikhun, þar sem árásin átti sér stað, og er á svæði sem lengi hefur verið á valdi uppreisnarmanna. Vitað er að stjórnarherinn hefur áður beitt efnavopnum í borgarastríðinu skelfilega og árið 2013 var Assad Sýrlandsforseti harðlega gagnrýndur fyrir notkun þeirra. Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, hafði hótað „alvarlegum afleiðingum“ ef efnavopnum væri sannanlega beitt.

Assad hefur verið leyft að fara ítrekað yfir rauðu strikin og hann kom sér undan loftárásum Bandaríkjanna í þetta skiptið með því að samþykkja að láta af hendi allar birgðir sínar af slíkum gjöreyðingarvopnum. Engu að síður hafa komið fram sterkar vísbendingar um beitingu efnavopna í borgarastríðinu síðar, sem benda til að Assad hafi svikið loforð sín.

Sjálfur segist Assad alsaklaus og nýtur þar stuðnings sinna hefðbundnu bandamanna í Rússlandi. Sakleysi hans er þó ekki líklegt og í ljósi þess hve efnavopnaárás á óbreytta borgara er grimmilegur glæpur er nauðsynlegt að komist verði til botns í því hið fyrsta hverjir bera ábyrgð. Reynist það vera Assad sjálfur verður ekki komist hjá því að hann taki afleiðingunum.