Fimi Glæsilegar dansæfingar kvennaliðs Gerplu áttu ekki sístan þátt í sigri þeirra í heildarkeppninni. Fimi, lipurð og glæsileiki svo eftir var tekið.
Fimi Glæsilegar dansæfingar kvennaliðs Gerplu áttu ekki sístan þátt í sigri þeirra í heildarkeppninni. Fimi, lipurð og glæsileiki svo eftir var tekið. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hópfimleikar Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Gerpla kom, sá og sigraði á Íslandsmótinu í hópfimleikum sem haldið var í Laugardalshöll í gær.

Hópfimleikar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Gerpla kom, sá og sigraði á Íslandsmótinu í hópfimleikum sem haldið var í Laugardalshöll í gær. Gerpla varð Íslandsmeistari í öllum þrem flokkunum sem keppt var í, karlaflokki, kvennaflokki og blönduðum flokki. Í hópfimleikum er keppt í þrem áhöldum, dýnuæfingum, æfingum á gólfi og æfingum á trampólíni.

Í kvennaflokki hafði Gerpla betur gegn Stjörnunni, Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára. Munurinn á liðunum var aðeins 0,7 stig. Gerpla færði sér mistök Stjörnunnar í æfingum á dýnu í nyt. Guðrún Georgsdóttir, Stjörnunni, lenti illa og var ekki meira með á mótinu vegna meiðslanna, ásamt því að fleiri keppendur áttu erfitt með að lenda eftir sín stökk. Gerpla gekk á lagið og þrátt fyrir að Stjarnan hefði haft betur á bæði gólfi og trampólíni, voru það Gerplukonur sem stóðu uppi sem sigurvegarar með 54,75 stig. „Tilfinningin er ólýsanleg, þetta er sætari sigur því Stjarnan er með virkilega sterkt lið og við sýnum í dag að við erum enn sterkari,“ sagði Sólveig Ásta Bergsdóttir úr Gerplu í samtali við Morgunblaðið þegar úrslitin voru ljós. B-lið Stjörnunnar hreppti 3. sætið.

Það ber að sjálfsögðu að hrósa Gerplu fyrir að verða Íslandsmeistari í fyrsta skipti síðan árið 2014. Þær geta að sama skapi þakkað fyrir að Stjörnuliðið hitti alls ekki á sinn besta dag á dýnuæfingum og var munurinn í raun gífurlega lítill, miðað við hversu illa Stjörnukonum gekk á dýnunni. Gerpla fékk 2,4 stigum meira fyrir sínar æfingar á áhaldinu.

„Það er alltaf erfitt að halda áfram þegar liðsfélagi hefur meiðst. Umferðirnar á eftir voru erfiðar, en við gerðum okkar allra besta og kláruðum síðustu tvö áhöldin 150%. Það er mjög leiðinlegt að missa titilinn, við erum búnar að vinna síðustu tvö mót, en þetta gerir okkur bara sterkari og við komum enn brjálaðri í næsta mót,“ sagði Kolbrún Þöll Þorradóttir, úr Stjörnunni, eftir mótið, en hún er ein besta hópfimleikakona landsins.

Mikill munur í karlaflokki

Í karlaflokki höfðu Gerplumenn mikla yfirburði á Stjörnuna og munaði rúmlega tíu stigum á liðunum. Gerpla vann í öllum áhöldum og það frekar sannfærandi. Þetta er í þriðja skiptið í röð sem Gerpla verður Íslandsmeistari í hópfimleikum karla.

Í blönduðum flokki var spennan mun meiri. Stjarnan hafði betur bæði á gólfi og dýnu, en þrátt fyrir það var það Gerpla sem stóð enn og aftur uppi sem sigurvegari. Gerpla hafði yfirburði á trampólíni og nægði það til sigurs. Selfoss, Íslandsmeistari síðustu tveggja ára í flokknum, var ekki með að þessu sinni.

„Við æfum sex daga vikunnar, akkúrat til þess að ná þessum árangri. Þetta var mjög spennandi í blandaða flokkum, sérstaklega eftir síðasta mót, sem gekk ekki nógu vel. Við ætluðum að rífa okkur í gang eftir það og náðum okkar besta móti í dag,“ sagði Alexander Sigurðsson, sem keppti bæði í karlaflokki og blönduðum flokki og er hann því tvöfaldur Íslandsmeistari.

Þetta var í fyrsta skipti sem mótið er haldið í Laugardalshöll og fór það mjög vel fram. Hópfimleikum hér á landi vex sífellt fiskur um hrygg með auknum vinsældum og má búast við að sú þróun haldi áfram, enda afar skemmtileg grein.