Jakob Frímann Magnússon
Jakob Frímann Magnússon
„Þetta eru vísbendingar um alveg gerbreytta stöðu íslenskrar tónlistar í samfélagi þjóðanna,“ segir Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar, í samtali við Morgunblaðið og vísar til þess að umboðsskrifstofan bandaríska...

„Þetta eru vísbendingar um alveg gerbreytta stöðu íslenskrar tónlistar í samfélagi þjóðanna,“ segir Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar, í samtali við Morgunblaðið og vísar til þess að umboðsskrifstofan bandaríska William Morris Agency í Kaliforníuríki hefur sýnt áhuga á að setja upp Airwaves-hátíð þar vestanhafs. Er um að ræða eina virtustu og elstu umboðsskrifstofu í heiminum.

Jakob Frímann segir fund verða haldinn í næstu viku um þessa hugmynd með forsvarsmönnum William Morris . „Við ætlum að taka fundinn, hlusta og leyfa þeim að lýsa hugmyndinni og út á hvað hún gengur nákvæmlega,“ segir Jakob Frímann og bætir við að framhald málsins muni væntanlega skýrast í kjölfarið.

Ekki lengur púkalegir

Þá segir Jakob Frímann þennan áhuga erlendis frá til marks um breytt viðhorf til íslenskra tónlistarmanna. „Við erum að feta bjartari braut en þegar það eitt að vera íslenskur tónlistarmaður stóð í vegi fyrir því að hægt væri að fullnusta samninga – því það þótti svo púkalegt,“ segir hann.

Iceland Airwaves-tónlistarhátíðin verður haldin í 19. skipti dagana 1. til 5. nóvember næstkomandi. Verður hátíðin haldin í Reykjavík og á Akureyri, þar sem boðið verður upp á dagskrá í tvo daga. Er stefnt að því að nota tvo til þrjá tónleikastaði á Akureyri og að fram komi 20 til 26 tónlistaratriði. khj@mbl.is