Breytingar Miklar framkvæmdir hafa verið við Sundlaug Akureyrar. Tvær nýjar rennibrautir verða tilbúnar í júní.
Breytingar Miklar framkvæmdir hafa verið við Sundlaug Akureyrar. Tvær nýjar rennibrautir verða tilbúnar í júní. — Morgunblaðið/Skapti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Miklar framkvæmdir hafa verið við Sundlaug Akureyrar síðustu mánuði. Nú hillir undir að breytingum ljúki en tvær nýjar rennibrautir verða teknar í notkun í lok júní.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Miklar framkvæmdir hafa verið við Sundlaug Akureyrar síðustu mánuði. Nú hillir undir að breytingum ljúki en tvær nýjar rennibrautir verða teknar í notkun í lok júní.

Önnur rennibrautin verður 86 m á lengd, hin nokkru styttri. Lokað, upphitað stigahús verður við rennibrautirnar þannig að ekkert ætti að koma í veg fyrir að þær verði opnar allt árið. Að auki verður nýrri barnarennibraut komið fyrir og laugin sem börnin enda í eftir ferð í henni verður mun stærri en sú gamla var.

Tvískiptur heitur pottur verður á svæðinu, annars vegar hefðbundinn, hins vegar vaðlaug. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við þetta verði lokið seinni partinn í júní.

Árleg AK Extreme hátíð hófst á Akureyri í gær en þar sýna snjóbrettamenn listir sínar utandyra og tónlistarmenn trylla lýðinn innanhúss á völdum stöðum. Hátíðinni lýkur á sunnudag en hápunktur AK Extreme verður Eimskips-gámastökkið í Gilinu, þar sem flestir bestu brettamenn landsins mæta til leiks og einnig nokkrir útlendir. Þar hafa síðustu ár safnast saman þúsundir áhorfenda.

Einhvern tíma hafði ég á orði á þessum vettvangi að ómögulegt væri að verða bensínlaus á Akureyri; ekki að það væri markmið í sjálfu sér, en til þess væru einfaldlega of margar bensínstöðvar í bænum. Nú er sennilega ómögulegt að verða svangur – þó það sé heldur ekki markmið í sjálfu sér. Veitingastöðum fjölgar bara svo hressilega og voru þó alls ekki fáir fyrir.

Á Akureyri hefur lengi verið fjöldi alls kyns veitingastaða en þeim fjölgaði um tvo í gær.

Annars vegar var opnaður Sushi corner á horni Kaupvangsstrætis og Drottningarbrautar, hins vegar Salatsjoppan á jarðhæð við Tryggvabraut 22 en á efri hæðum reka hjónin Davíð Kristjánsson og Eva Ósk Elíasardóttir líkamsræktarstöðina Heilsuþjálfun, en þau eiga líka veitingastaðinn.

Í vor verður opnað útibú frá Lemon í Reykjavík við Glerárgötu og á dögunum spurðist út að ein sýrlenska fjölskyldan, sem kom til Akureyrar sem flóttamenn fyrir nokkrum misserum, hygðist selja sýrlenskan og tyrkneskan skyndibita í göngugötunni í sumar, t.d. falafel, shawarma og baklava. Bragð verður sögu ríkari og víst að margir fengu vatn í munninn við tíðindin!

Teklúbbur Háskólans á Akureyri efndi til teboðs fyrir skemmstu, í tilefni 30 ára afmælis skólans á þessu ári. Í fagurlega skreyttu anddyri skólans var forvitnilegur ilmur af ýmiskonar tegundum og boðið var upp á smökkun, fræðslu og marsípantertu að auki. Lukas Blinka, aðjunkt við HA, hélt stutt erindi um teið Darjeeling sem þykir vera einstakt og er oft kallað kampavín tesins.

Teklúbbur HA hefur verið starfræktur frá árinu 2015 en í honum eru starfsmenn úr öllum deildum skólans. Hópurinn hittist einu sinni í mánuði, smakkar á ýmsum tetegundum og skiptist á fróðleik um þennan göfuga drykk.