Páskarnir eru mikill gleðitími fyrir börnin og eflaust muna margir lesendur eftir því að hafa, á sínum yngri árum, fengið að háma í sig ógrynni af eggjum og sælgæti í páskafríinu. Börnin vilja ekki bara súkkulaðið heldur skiptir þau oft miklu máli að skemmtilegar fígúrur fylgi með og hefur Freyja búið til heilan ævintýraheim með reffilegum söguhetjum sem skreyta eggin. „Hetjurnar í Freyjuheimi, s.s. Bastían, Stormur staurfótur og Samíra, vakna til lífsins á páskunum,“ segir Pétur en reglulega bætast við nýjar fígúrustyttur ofan á eggjunum. „Á tveggja ára fresti koma nýjar styttur og reynum við þá að hafa í huga hvaða fígúrur hafa verið vinsælastar árin á undan.“
Litlu leikfangafígúrurnar bætast iðulega við dótasafnið og börnin hafa oft mjög sterkar skoðanir hvaða Freyjuheims-hetju þau vilja fá. „Á mínu heimili er t.d. litla dóttirin búin að panta tiltekið páskaegg hjá pabba sínum.“