Meindýr Rottur lifa í lagnakerfi borgarinnar og koma helst upp á yfirborð og inn í hús fólks þegar lagnirnar bila.
Meindýr Rottur lifa í lagnakerfi borgarinnar og koma helst upp á yfirborð og inn í hús fólks þegar lagnirnar bila. — Morgunblaðið/Sverrir
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is „Mér finnst ekki rétt að verið sé að æsa fólk upp með fréttum um rottufaraldur í einstökum hverfum borgarinnar,“ segir Ólafur Sigurðsson, formaður Landssamtaka meindýraeyða.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

„Mér finnst ekki rétt að verið sé að æsa fólk upp með fréttum um rottufaraldur í einstökum hverfum borgarinnar,“ segir Ólafur Sigurðsson, formaður Landssamtaka meindýraeyða.

„Reykjavíkurborg annast flest útköll varðandi rottur en það er rétt að benda á að borgin gengur í þessi mál íbúum að kostnaðarlausu. Við sinnum ekki slíkum útköllum nema þegar sérstaklega liggur við og borgin getur ekki sinnt útkalli.“

Spurður um meintan rottufaraldur segist Ólafur ekki vita til þess að meira sé um rottur nú en oft áður.

„Ég væri búinn að heyra af því ef rottufaraldur væri í gangi og þá líka ef mikið meira væri um rottur í einu hverfi en öðru. Reykjavíkurborg stendur sig ótrúlega vel í þessum málum.“

Rottur eru um allan bæ

Ómar F. Dabney, rekstrarfulltrúi Meindýravarna Reykjavíkurborgar, segir alls engan rottufaraldur í Vesturbæ Reykjavíkur.

„Mér finnst frétt sem birtist í Ríkisútvarpinu um rottur í Vesturbænum í gær vera í æsifréttastíl. Það eru rottur um allan bæ en fólk verður frekar vart við þær í eldri hverfum borgarinnar þar sem allur gangur er á því hvernig ástand lagna getur verið,“ segir Ómar og bætir því við að litlar sem engar sveiflur hafi verið á fjölda rotta á undanförnum árum.

„Við sjáum marktækan mun á músum milli ára en fjöldinn á rottum er svipaður. Það er alls ekki meira um þær núna en áður.“

Lagnir og flokkun á rusli

Þar sem lögnum er ekki sinnt reglulega eru meiri líkur á því að rottur komist upp á yfirborðið en þær finnst helst í lagnakerfi borgarinnar segir Ómar og bendir á að margs konar kemísk efni geti haft áhrif á ástand lagna.

„Ýmis efni sem við notum í uppþvottavélum og þvottavélum geta tært upp lagnir með tímanum.“

Ómar bendir fólki á að flokka heimilissorp og alls ekki nota sorpkvarnir.

„Við erum að fæða rotturnar með sorpkvörnunum og auka álagið á fráveitukerfið. Ég bið fólk því vinsamlega að flokka heldur sitt rusl,“ segir Ómar en aukið álag eykur skemmdir og þannig aðgang rottunnar upp á yfirborðið.

Spurður um sníkjudýr sem fylgja rottunum, t.d. rottumítla, segir Ómar fátt um slíkt.

„Rottumítillinn komst nýlega í hámæli vegna frétta um hann á heimili ungs pars. Hann er hins vegar mjög sjaldgæfur og síðasta tilvik sem ég man eftir var árið 2001. Það fylgja íslensku rottunni fá sníkjudýr, m.a. vegna þess öfluga starfs okkar að fækka þeim og það staðfesta skordýrafræðingar og aðrir vísindamenn sem við vinnum með.“