Vífilsstaðir Sveitarfélagið kaupir landið en ríkið heldur eftir fasteignum, svo sem spítalabyggingunni.
Vífilsstaðir Sveitarfélagið kaupir landið en ríkið heldur eftir fasteignum, svo sem spítalabyggingunni. — Morgunblaðið/Sverrir
Fulltrúar Garðabæjar og fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa náð samkomulagi um kaup bæjarfélagsins á jörðinni Vífilsstöðum.

Fulltrúar Garðabæjar og fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa náð samkomulagi um kaup bæjarfélagsins á jörðinni Vífilsstöðum. Undir er rösklega 200 hektrara svæði í kringum Vífilsstaðaspítala og austan þess, núverandi golfvallarsvæði GKG, friðland í Vífilsstaðahrauni og á Rjúpnahæð á móts við hesthúsabyggðina á Kjóavöllum.

Kaupverðið er 558,6 milljónir króna og greiðir Garðabær tæplega 100 millj. króna við undirritun en aðrar greiðslur koma á næstu átta árum í takti við hvernig uppbyggingu í hverfinu miðar. Til viðbótar grunnverði á seljandi rétt á hlutdeild í ábata af sölu byggingarréttar á svæðinu. Í sjúkrahúsbyggingunni á Vífilsstöðum er í dag starfrækt öldrunardeild á vegum Landspítala. Undanskildar í samningunum eru allar húseignir ríkisins á Vífilsstöðum, en gerðir verða lóðasamningar um eignirnar.

Með kaupum á landinu tryggir Garðabær sér forræði yfir eignarhaldi landsins sem mun auðvelda bæjarfélaginu að vinna að gerð skipulagsáætlana fyrir svæðið. Í tillögu að nýju aðalskipulagi Garðabæjar er gert ráð fyrir að svæði Vetrarmýrar, Hnoðraholts og Vífilsstaða verði eitt skólasvæði með 1.200-1.500 íbúðum þar sem fléttast saman ólíkir hagsmunir með uppbyggingu íbúðabyggðar, skóla- og íþróttasvæðis og atvinnu- og þjónustusvæðis. sbs@mbl.is