Mark Aron Knútsson fagnar hér marki gegn Ástralíu í öðrum leiknum á þriðjudag en í gærkvöldi skoraði hann fyrsta landsliðsmark sitt fyrir Ísland.
Mark Aron Knútsson fagnar hér marki gegn Ástralíu í öðrum leiknum á þriðjudag en í gærkvöldi skoraði hann fyrsta landsliðsmark sitt fyrir Ísland. — Ljósmynd/Sorin Pana
Í Galati Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.

Í Galati

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Þetta var bara geggjað og að fá mark líka er alveg toppurinn,“ sagði Aron Knútsson, landsliðsmaður í íshokkí, þegar Morgunblaðið tók hann tali í klefa íslenska liðsins í skautahöllinni í Galati í gærkvöldi. Íslenska liðið hafði þá unnið sögulegan 2:0-sigur á gestgjöfum Rúmeníu á HM, þann fyrsta í sögunni, og valdi Aron heldur betur tímann til þess að skora sitt fyrsta landsliðsmark.

Það höfðu fáir fyrir utan íslenska liðið sjálft trú á því að nokkuð þessu líkt myndi eiga sér stað í gærkvöldi og Aron segir að hann hafi fundið það hjá rúmensku leikmönnunum.

„Þeir höfðu enga trú á okkur og héldu að þeir væru að fara að valta yfir okkur. En það gerðist alls ekki, við börðumst hart og þeir áttu bara ekki séns,“ sagði Aron, en stuðningsmenn Rúmeníu voru háværir lengst af í leiknum þar til kom í ljós í hvað stefndi.

„Þeir voru bara byrjaðir að fagna með okkur í lokin, það var alveg rosalegt. Það voru allir svo hissa á okkur og þetta var alveg ótrúlega gaman,“ sagði Aron ennfremur.

Reynum að vinna allt hér eftir

Aron segir að það hafi komið íslenska liðinu vel að enginn bjóst við neinu. „Það er miklu betra í rauninni. Það er engin pressa á manni; ef maður tapar þá tapar maður en ef maður vinnur þá er það magnað. Mér finnst oft bara betra að vera talinn veikari aðilinn,“ sagði Aron.

Það er þó skammt stórra högga á milli hjá íslenska liðinu og í dag mætir liðið Belgíu. „Það getur allt gerst og við munum reyna að vinna allt hér eftir. Það er bara þannig,“ sagði Aron Knútsson við mbl.is.

„Þetta er alveg ótrúlegt“

Þetta var sannkallaður nýliðasigur ef svo má segja, því hinn markaskorarinn var einnig að skora sitt fyrsta landsliðsmark í sinni fyrstu landsliðsferð. Kristján Albert Kristinsson kom íslenska liðinu yfir í öðrum leikhluta en bæði mörkin komu eftir laglegar skyndisóknir.

„Þetta er alveg ótrúlegt og hefði eiginlega ekki getað verið betra. Ég fór á annað hnéð held ég, og svo komu strákarnir og fögnuðu með mér,“ sagði Kristján, aðspurður hvort hann mundi yfirhöfuð eftir augnablikinu eða hvort allt hefði gerst of hratt.

„Þetta breytir miklu og núna eigum við góðan séns á að ná í verðlaunasæti. Og við hefðum aldrei getað gert þetta án Dennis í markinu,“ sagði Kristján um leið og markvörðurinn geðþekki gekk framhjá og þakkaði kærlega fyrir hrósið í sinn garð.