Baksvið
Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@mbl.is
Útlán til ferðaþjónustu hafa aukist töluvert að undanförnu samfara aukinni fjárfestingu í greininni, upplýsti Már Guðmundsson seðlabankastjóri á fundi um fjármálastöðugleika í gær. Slík útlán nema rúmlega 14% af heildarútlánum viðskiptabankanna til fyrirtækja og mældist ársvöxtur þeirra 27% á síðasta ári.
„Þrátt fyrir að útlán viðskiptabankanna til ferðaþjónustunnar hafi vaxið mun hægar en komur erlendra ferðamanna, er mikil uppbygging í greininni. Sú uppbygging er að einhverju leyti fjármögnuð utan bankakerfisins, af einstaka fagfjárfestasjóðum eða með stofnun samlagshlutafélaga um einstaka fjárfestingar. Lífeyrissjóðirnir eru í mörgum tilfellum kjölfestufjárfestar þar,“ segir í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í gær.
Þriðji stærsti í útlánasafni
Fram kom í máli Hörpu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs, að ferðaþjónustan væri nú þriðji stærsti atvinnuvegaflokkurinn í útlánasafni bankanna á eftir fasteignafélögum og sjávarútvegi. Vikið er að því í Fjármálastöðugleika að ferðaþjónustan hafi vaxið mjög hratt á undanförnum árum og sé nú stærsta útflutningsatvinnugrein landsins.„Miklum útlánavexti fylgir alltaf áhætta og mikilvægt er að fylgst sé vel með henni,“ sagði Már, sem benti á að útlán til ferðaþjónustu hefðu aukist frá lágri stöðu áður en ferðamannabylgja síðustu ára reis. Hann nefndi að í Fjármálastöðugleika sem gefinn var út síðastliðið haust voru birtar niðurstöður álagsprófs sem sýndu að vegna góðrar eiginfjárstöðu bankanna gætu þeir staðið af sér verulegt áfall í ferðaþjónustu og útlánatöp sem af því hlytust.
Útlán til greinarinnar nema um 8,5% af heildarútlánum viðskiptabankanna til viðskiptavina, að því er fram kemur í nýju riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika.
Þar segir að útlán beintengd ferðaþjónustunni vegi enn sem komið er ekki mjög þungt í bókum viðskiptabankanna, útlánaáhætta þeim tengd gæti þó verið hlutfallslega nokkuð mikil. Komi til verulegs samdráttar í greininni gætu efnahagsaðstæður versnað og útlánatap aukist einnig í öðrum greinum, segir í skýrslunni.
13% útlána Íslandsbanka
Íslandsbankinn er eini bankinn sem upplýst hefur um umfang lána til ferðaþjónustunnar. Fram kom í áhættuskýrslu bankans fyrir síðasta ár að útlán til ferðaþjónustu hefðu numið 13% af heildarútlánum um áramótin, samanborið við 10% ári áður. Bankinn er umsvifameiri í útlánum til ferðaþjónustu en viðskiptabankarnir að meðaltali.Vakin skal athygli á að skilgreiningar um hvað séu útlán til ferðaþjónustu kunna í einhverjum tilvikum að vera mismunandi á milli stóru viðskiptabankanna þriggja.
Fram kom í áhættuskýrslu Íslandsbanka að bankinn væri vakandi fyrir áhættu sem fylgdi vexti í lánveitingum til ferðaþjónustu og vandaði því valið í útlánum.