Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
„Þetta fólk hefur veitt mér mikilvægan andlegan styrk og það er í raun erfitt fyrir mig að lýsa þeim mikla stuðningi sem ég hef fengið og um leið hversu þakklátur ég er fyrir hann,“ segir Héðinn Máni Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið, en hann greindist nýverið með illkynja krabbameinsæxli á þriðja stigi í höfði og deilir reynslu sinni af meðferðinni með stórum hópi fólks á snjallsímaforritinu Snapchat.
Héðinn Máni er 17 ára gamall, fæddur árið 1999, og býr í Vogum á Vatnsleysuströnd. Hann stundaði áður nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en einbeitir sér nú að því að ná aftur fyrri heilsu. Héðinn Máni gaf sér tíma til að ræða stuttlega við blaðamann um þá ákvörðun að deila reynslu sinni með fólki, sem að stórum hluta er honum ókunnugt.
Með kímnigáfuna að vopni
Héðinn Máni segir veikindi sín fyrst hafa komið fram sem eyrnabólgueinkenni í hægra eyra. Í kjölfarið fór m.a. heyrnin versnandi og ákvað hann þá að leita til háls-, nef- og eyrnalæknis. „Hann sendi mig í frekari rannsóknir vegna þess að á þessum tíma fannst mér líka erfitt að anda í gegnum hægri nösina. Læknirinn stakk ákveðnu tæki upp í nösina og rakst það bókstaflega í æxlið,“ segir hann, en í kjölfarið var Héðinn Máni sendur til krabbameinslæknis.Þótt greiningin hafi verið áfall segist Héðinn Máni snemma hafa ákveðið að taka tíðindunum af yfirvegun með kímnigáfuna að vopni. „Ég þurfti fyrst að melta þessar fréttir, en ég er hins vegar þannig maður að ég kýs að njóta lífsins án þess að vera hræddur og yfirstíg þetta með húmornum,“ segir hann.
Héðinn Máni segist hafa verið eins og hver annar „snappari“ áður en veikindin komu upp og var hann þá nær eingöngu með vini og fjölskyldu á Snapchat. Í dag eru fylgjendur hans þar hins vegar nokkur þúsund talsins og fer þeim fjölgandi með degi hverjum.
Boltinn fór hratt að rúlla
„Þetta byrjaði þannig að mér fannst fínt fyrir fólk að vita hvernig mér liði og svaraði líka spurningum þess á móti. En svo byrjaði þetta að rúlla mjög hratt og það hrúguðust inn vinabeiðnir, m.a. frá frægum snöppurum,“ segir Héðinn Máni og bætir við að í fyrradag hafi á bilinu tvö til þrjú þúsund manns horft á myndbrotin hans á Snapchat.Fjölmargir af fylgjendum Héðins Mána hafa sent honum skilaboð og myndbrot til baka þar sem þeir annaðhvort sýna honum samstöðu eða forvitnast um krabbameinsmeðferðina. „Margir senda mér alveg ótrúlegar kveðjur – fólk sem ég þekki ekki neitt. Það kom mér mjög á óvart að fólk úti í bæ skyldi senda mér batakveðjur og skilaboð þar sem það segir m.a. að ég sé orðinn uppáhaldssnappari þess,“ segir Héðinn Máni og hlær við.
Þeir sem fylgjast með Héðni Mána á Snapchat eru fljótir að sjá húmorinn í svörum hans, en aðspurður segist hann taka nýjum vinum þar fagnandi. „Það getur tekið smátíma að svara spurningunum en ég reyni að vera fljótur.“