Þingvellir Fjöldi ferðamanna fer um þjóðgarðinn á degi hverjum og margir þeirra koma í hópferðum á rútum.
Þingvellir Fjöldi ferðamanna fer um þjóðgarðinn á degi hverjum og margir þeirra koma í hópferðum á rútum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Hugmyndin var að taka klæðninguna af, sementsfesta veginn og setja malbik yfir. Við nánari hönnunarvinnu kom í ljós að það gengur ekki upp.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Hugmyndin var að taka klæðninguna af, sementsfesta veginn og setja malbik yfir. Við nánari hönnunarvinnu kom í ljós að það gengur ekki upp. Við þurfum að setjast niður með þjóðgarðsverði og Þingvallanefnd og ræða betur hvernig að þessu verður staðið. Þarna þarf að koma góður og öruggur vegur til framtíðar litið,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, en deildar meiningar eru um hvernig viðhalda beri veginum gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum, frá þjónustumiðstöðinni að Gjábakka.

Vegurinn er orðinn mjög illa farinn og erfitt fyrir stór ökutæki að mætast, einkum hópferðabíla. Um síðustu helgi mátti litlu muna að illa færi þegar vegkantur gaf sig undan rútu með breska skólakrakka og hallaðist hún verulega, án þess þó að velta á hliðina.

„Vegurinn er ónýtur“

Að sögn G. Péturs er Vegagerðin tilbúin með 200 milljónir króna af viðhaldsfé, til að endurbæta hluta vegarins gegnum þjóðgarðinn. Á fundi Þingvallanefndar á síðasta ári var fallist á að taka klæðninguna af núverandi vegi og setja malbik yfir, án þess að breikka hann, en vegurinn er 6,5 metra breiður. Framvæmdaleyfi var gefið út og samþykkt af hálfu Þingvallanefndar.

G. Pétur segir að við nánari hönnunarvinnu verkfræðinga hafi komið í ljós að þessi útfærsla væri ekki möguleg.

„Vegurinn er ónýtur og það þarf að byggja hann alveg upp á nýtt. Hugmyndin stóðst ekki forsendur um burðarþol og fláa í vegköntum. Eins og vegurinn er núna þá er hann of mjór og erfitt fyrir rútur að mætast. Ef yrði bara klætt yfir veginn óbreyttan þá væru vegkantarnir fljótir að gefa sig,“ segir G. Pétur, en í fyrra vildi Vegagerðin laga fláa á hluta vegarins og breikka hann.

G. Pétur segir Vegagerðina hafa skoðað það hjá sérfræðingum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri hvernig færa má gróður vegna vegaframkvæmda á viðkvæmum svæðum. Það sé víða gert erlendis en gróðurinn er þá fjarlægður og lagður til hliðar, vegurinn breikkaður og sami gróður settur aftur á sinn stað. Miðað við reynsluna erlendis sé ástand gróðursins orðið mjög gott ári eftir svona framkvæmdir.

Þingvallanefnd umboðslaus?

Þingvallanefnd hefur ekki fjallað um vegaframkvæmdirnar á undanförnum vikum og ekki fengið beiðni frá Vegagerðinni um nýja útfærslu á verkinu. Sigrún Magnúsdóttir, formaður Þingvallanefndar, segir ríkisstjórnina ekki hafa skipað nýja nefnd. Í henni sitji núna nokkrir fyrrverandi þingmenn og segist Sigrún líta svo á að nefndin hafi ekki umboð til að taka stórar ákvarðanir um framtíð þjóðgarðsins.

„Við höfum verið langeyg eftir því að Vegagerðin hæfi þessar framkvæmdir. Við þurfum jafnframt að gæta að því að þetta er vegur í gegnum þjóðgarð, þannig að þarna getur ekki komið hraðbrautarvegur. Ég vil að í þjóðgarði sé ákveðið yfirbragð en samt þannig að ef vegur liggur þar um þá sé hann vel úr garði gerður,“ segir Sigrún og telur að ökumenn geti vel dregið úr hraðanum þá 11 kílómetra sem vegurinn liggur um, og notið þjóðgarðsins í leiðinni.