— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Allir helstu páskaeggjaframleiðendur landsins bjóða upp á fleiri tegundir af páskaeggjum í ár en áður. „Við erum með í rauninni tuttugu tegundir í mismunandi stærðum og útfærslum.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Allir helstu páskaeggjaframleiðendur landsins bjóða upp á fleiri tegundir af páskaeggjum í ár en áður. „Við erum með í rauninni tuttugu tegundir í mismunandi stærðum og útfærslum. Þegar kemur að því hvað er í skelinni þá eru þetta 9 tegundir,“ segir Pétur Thor Gunnarsson, sölu- og markaðsstjóri Freyju. „Þetta inniheldur rísegg, draumegg, sterk egg og djúpuegg, svo dæmi séu tekin.“ Hann segir Freyju vera að bæta við sig tveimur nýjum eggjum í ár. „Í fyrra bættum við ekki við nýjum tegundum og erum í raun með sama úrval og var árið áður. Í ár var ákveðið að það væri kominn tími á nýjungar hjá okkur og bættum við tveimur nýjum tegundum við. Rís-risaegg með saltkaramellubragði og sterkt djúpuegg.“ Pétur vill meina að Freyja eigi stóran þátt í að auka fjölbreytni í páskaeggjum hérlendis. „Það sem gerist er að árið 2003 byrjar Freyja að framleiða páskaegg aftur eftir rúmlega 20 ára hlé. Þar hefst þessi þróun að mörgu leyti. Þar byrjar Freyja að framleiða það sem er kallað rís-páskaegg. Það var nýjung þá og gjörsamlega mokaðist út það árið. Það var síðan einu eða tveimur árum seinna sem ákveðið var að færa lakkrís inn í skelina með draumaeggjunum.“ Hann bætir við að núna sé markaðurinn þannig að fyrirtækin séu að bregðast við því sem páskaeggjaunnendur vilja. „Íslenskir framleiðendur eru að bregðast við því sem páskaeggjaunnendur eru að falast eftir.“

Yfir milljón páskaegg hjá Nóa

Nói Síríus hefur einnig verið að auka úrvalið hjá sér á síðustu árum en Nói býður upp á 12 tegundir af páskaeggjum í ár. Silja Mist Sigurkarlsdóttir, vörumerkjastjóri Nóa Síríuss, tekur í sama streng og Pétur og segir að mörg af nýju eggjunum hjá Nóa verði til eftir óskum neytenda. „Með tilkomu samfélagsmiðla tjáir fólk sig helmingi meira og við heyrum miklu meira hvað markaðurinn vill. Það er mjög skemmtilegt að fá hugmyndir frá þeim. Markaðurinn kallaði til dæmis eftir karmellu-perlueggi sem er nýjasta viðbótin í lakkríslínunni okkar, hann kallaði líka eftir vegan-eggi og karmellu-saltegginu okkar sem er langvinsælast í öllum prófunum.“ Aðspurð hvernig gangi að selja svona mikið úrval af páskaeggjum segir Silja eggin rjúka út úr búðum. „Páskarnir eru seint í ár en við byrjum alltaf að framleiða á sama tíma og vanalega og fóru eggin því fyrr í búðir. Það var ákveðið að setja allar stærðirnar í búðir og stóru eggin, sjöurnar og sexurnar, tæmdust úr verslunum í febrúar. Sjöan kláraðist í febrúar. Við þurftum að athuga allar tölur og héldum að eitthvað væri að fara framhjá okkur. Það er eins og fólk hafi verið að prófa eggin áður en páskarnir koma,“ segir Silja. Hún segir að Nói Síríus sé að framleiða yfir milljón egg þessa páska og þrátt fyrir margar nýjungar urðu sumar hugmyndir eftir á teikniborðinu. „Það er nóg af skemmtilegum tegundum sem er hægt að gera en við gerðum ekki, eins og piparinn. Piparkroppið er t.d. mjög vinsælt en við ákváðum að fara ekki út í það.“ Hún segir að Nói framleiði einnig mikið af páskaeggjum sem fara ekki í búðir og má þar nefna geimskipspáskaegg fyrir CCP úr formi sem fyrirtækið hannaði ásamt öðrum séreggjum fyrir t.d. WOW air og Icelandair.

Ferðamenn borða eggin líka

Helgi Vilhjálmsson í Góu segir fyrirtækið einnig vera að auka við sig tegundum á hverju ári. „Þetta eru 6 gerðir en maður er næstum hættur að telja þetta. Þetta er alltaf að aukast hérna. Fyrir nokkrum árum var þetta bara hreint súkkulaði. Nú er þetta komið með lakkrís og hrauni, fylltum lakkrís og pipar, nefndu það bara. Ég veit ekki hvar þetta endar,“ segir Helgi í Góu. Hann segir að salan sé afar góð í ár en telur að það sé ekki endilega vegna þess að Íslendingar séu að borða fleiri egg. „Ég er ekki frá því við séum að sjá meiri sölu núna en á árum áður, en svo villir þetta mann þegar það er jafn mikið af útlendingum og Íslendingum á landinu. Ég held að það hafi eitthvað að segja. Það er auðvitað engin spurning að einhverjir þeirra grípi einhver egg þó að þetta sé íslenskt,“ segir Helgi.

Hann segist ekki geta sagt hvaða tegund af páskaeggi selst best hjá Góu fyrr en eftir páska. „Vinsælasta eggið á nú eftir að koma í ljós, maður veit það ekki fyrr en eftir páska. Pipareggið fer mjög skemmtilega af stað. Við vorum í fyrsta sæti hjá Vísi með Lindor-eggið; ég segi nú pass við öllum þessu gull- og silfurpeningum.“