[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Galati Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Það voru sennilega aðeins 28 einstaklingar í borginni Galati í Rúmeníu sem trúðu því að Ísland gæti unnið heimamenn á HM í íshokkí fyrir leik þjóðanna í gærkvöld.

Í Galati

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Það voru sennilega aðeins 28 einstaklingar í borginni Galati í Rúmeníu sem trúðu því að Ísland gæti unnið heimamenn á HM í íshokkí fyrir leik þjóðanna í gærkvöld. Þessir 28 einstaklingar eru leikmenn, þjálfarar og fylgdarlið íslenska landsliðsins í Galati og einmitt þess vegna hefði sögulegur 2:0-sigur Íslands ekki getað verið sætari. En að gera það ofan á allt saman fyrir framan fleiri hundruð rúmenska stuðningsmenn getur ekki annað en margfaldað ánægjuna.

Þetta var fyrsti sigur Íslands á Rúmeníu frá upphafi og eftir því sem næst verður komist einnig í fyrsta sinn sem Ísland vinnur heimaþjóðina á HM, sem fram fer árlega. Fyrir mótið var mál margra að íslenska liðið ætti eftir að eiga í miklum vandræðum á þessu móti, að of margir nýliðar væru í hópnum í stað reyndra manna. En að spila nánast óaðfinnanlega gegn liðinu sem á að vera það langsterkasta í þessum riðli og að bæði mörkin voru skoruð af ungum nýliðum setur hlutina einfaldlega í nýtt samhengi.

Þeir Kristján Albert Kristinsson og Aron Knútsson skoruðu mörkin í öðrum og þriðja leikhluta eftir vel útfærðar skyndisóknir. Fyrstu mörk þeirra fyrir A-landsliðið á fyrsta stórmótinu, í fyrsta sigrinum á Rúmeníu í sögunni. Þetta er einfaldlega magnað handrit.

Menn fórnuðu sér – bókstaflega

Það var hrein unun að horfa á strákana í leiknum. Sama hvaða íþrótt er um að ræða er alltaf stutt í að talað sé um íslensku liðsheildina, og hún skein svo sannarlega í gegn. Menn bókstaflega fórnuðu sér fyrir land og þjóð, og gott dæmi um það er að Bergur Árni Einarsson meiddist að öllum líkindum illa á fæti þegar hann henti sér fyrir skot. Það var allt skilið eftir á ísnum.

Að sama skapi var hreint ekki leiðinlegt að sjá hvernig pirringurinn óx hjá leikmönnum Rúmeníu með hverri mínútunni sem leið. Sama hvort íslenska liðið var manni færri eða fleiri á ísnum þá komust Rúmenar lítt áleiðis.

Dennis fangaði athygli allra

Þrátt fyrir að fá færin þá komust Rúmenar hins vegar ekki framhjá sjarmatröllinu Dennis Hedström í markinu. Frammistaða hans vakti athygli allra sem á leiknum voru, enda átti hann það sannarlega skilið að vera valinn bestur í leikslok. Tölfræðin segir að hann hafi fengið 41 skot á sig, en þau hljóta einfaldlega að hafa verið fleiri. Hann varði þau öll, mörg hver með miklum tilþrifum, og mun örugglega horfa með bros á vör á marblettina sem óhjákvæmilega munu koma eftir frammistöðu eins og þessa.

Ísland er nú í öðru sætinu með 6 stig eins og Rúmenía þegar tveir leikir eru eftir. Ástralía er á toppnum með 8 stig, en ef Rúmenar vinna Ástrali og Ísland vinnur síðustu tvo leiki sína gegn Belgíu í dag og Serbíu á sunnudag er efsta sætið í höfn. Nokkuð sem ekki einu sinni þessir 28 Íslendingar í Galati leiddu hugann að á leiðinni á mótið.

HM í íshokkí
» Belgía steinlá fyrir Serbíu, 9:2, í fyrsta leik gærdagsins áður en Ástralía vann Spán, 5:3.
» Eftir þrjár umferðir er Ástralía með 8 stig, Ísland og Rúmenía eru með 6 stig, Serbía 4 og Belgía 3. Spánn er á botninum án stiga.
» Í dag leikur Ísland við Belgíu, Serbía við Spán og Rúmenía við Ástralíu.