Trúverðug Ann Cleeves dregur upp trúverðuga mynd af lífinu í fámenninu á Hjaltlandseyjum.
Trúverðug Ann Cleeves dregur upp trúverðuga mynd af lífinu í fámenninu á Hjaltlandseyjum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ann Cleeves. Snjólaug Bragadóttir þýddi. Ugla 2017. Kilja. 334 bls.

Fólk er hvergi óhult fyrir glæpum og Hjaltland er ekki öruggari staður en Lundúnir ef því er að skipta. Í glæpasögunni Hrafnamyrkri dregur Ann Cleeves upp trúverðuga mynd af lífinu í fámenninu á Hjaltlandseyjum, þar sem allir þekkja alla, en ógnvænlegir atburðir gerast þar sem annars staðar.

Litlar eyjar eru ævintýraheimur út af fyrir sig, rétt eins og aðrir staðir fjarri ys stórborga. Í fámenninu virðast hefðir oft ríkari en annars staðar, allir treysta öllum og ekkert slæmt gerist. Að minnsta kosti ekki á yfirborðinu. En þar sem er fólk er viðbúið að vandamál eigi sér stað, jafnvel og ekki síður þótt allir séu skyldir eða tengdir. Einelti þekkist í skólum, einfarar búa á meðal annarra og þótt ekki beri á miklum vandræðum eiga margir við erfiðleika að stríða.

Ann Cleeves fangar þetta andrúmsloft í bókinni, vefur það í kaldan búning janúarmánaðar og lyftir hulunni af gömlu máli samfara því að beina augum að líkfundi.

Þetta er ein af þessum þægilegu glæpasögum, þar sem nokkurs konar kyrrð ríkir þrátt fyrir glæpi. Tengingar fólksins gera það að verkum að ótti sem slíkur grípur ekki um sig, lífið gengur áfram sinn vanagang að mestu en engu að síður eru eyjarskeggjar á varðbergi.

Í aðra röndina er Hrafnamyrkur víðtæk fjölskyldusaga með áherslu á atburði líðandi stundar. Um leið er sögupunktum kastað inn, eins og til dæmis fróðleiksmola um Friðareyjarprjón, hvaðan það er upprunnið og hvernig það tengist einni helstu persónu sögunnar, Jimmy Perez lögregluforingja.

Sagan rennur ágætlega og persónusköpun höfundar er ágæt. Ann Cleeves lýsir eyjarskeggjum eins og þeir eru, en víndrykkja 16 ára stúlkna í boði fullorðinna passar ekki inn í aðrar lýsingar. Þetta er ekki bara glæpasaga heldur saga fámennis með kostum þess og ekki síður göllum.

Steinþór Guðbjartsson

Höf.: Steinþór Guðbjartsson