Sesselja Hauksdóttir fæddist í Reykjavík 12. júní 1948. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 22. mars 2017. Foreldrar Sesselju eru Júlía Guðmundsdóttir, f. 3. júlí 1921, og Haukur Þorsteinsson, f. 14. desember 1921, d. 11. september 2007. Systkini Sesselju eru: 1) Þorsteinn, f. 3. apríl 1951, kvæntur Lilju Vikar Finnbogadóttur. 2) Guðmundur, f. 17. september 1953, í sambúð með Jette Skov. 3) Sigurður, f. 23. janúar 1957, kvæntur Vigdísi Helgu Jónsdóttur. 4) Margrét, f. 8. maí 1963, d. 2. febrúar 2010.
Sesselja giftist 12. ágúst 1972 Ómari Hlíðkvist Jóhannssyni, f. 10. janúar 1946, d. 11. desember 2005. Börn þeirra eru: 1) Haukur Hlíðkvist, f. 19. september 1971, kvæntur Helgu P. Finnsdóttur, f. 20. september 1971. Börn þeirra eru Hrafn Hlíðkvist, f. 5. nóvember 1996, Hekla Hlíðkvist, f. 22. janúar 2001, og Hugrún Hlíðkvist, f. 20. júlí 2006. 2) Freyja Hlíðkvist, f. 5. febrúar 1973. Dóttir hennar er Salka Hlíðkvist, f. 9. ágúst 1999.
Seinni maður Sesselju er Þorsteinn G. Benjamínsson, f. 7. janúar 1949. Hans börn eru 1) Guðmundur Valgeir, f. 20. janúar 1975. 2) Inga Dögg, f. 4. ágúst 1979, gift Kjartani Ásþórssyni, f. 16. september 1977. Þeirra börn eru Aron Smári, f. 7. október 2006, Karen Dís, f. 30. september 2009, og Thelma Sól, f. 9. febrúar 2012. 3) Arnar Þór, f. 20. maí 1986.
Sesselja ólst upp hjá foreldrum sínum, fyrst í Reykjavík, síðar á Háhóli í Álftaneshreppi á Mýrum og loks að Miðdal í Laugardal. Hún og Ómar bjuggu fyrst við Vesturberg í Reykjavík, síðan í tíu ár á Álftanesi í Bessastaðahreppi og loks í Garðabæ. Frá árinu 2007 bjó Sesselja í Kópavogi, síðast að Kópavogstúni 12.
Langstærstan hluta starfsævi sinnar vann Sesselja að leikskólamálum í landinu, sem kennari, leikskólastjóri og frá árinu 1991, til starfsloka 2015, var hún leikskólafulltrúi hjá Kópavogsbæ. Samtímis gegndi hún fjölda trúnaðarstarfa fyrir Félag leikskólakennara á Íslandi.
Útför Sesselju fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 7. apríl 2017, og hefst athöfnin klukkan 15.
Mamma var nagli.
Svo skilningsrík, hvetjandi, réttsýn, hlý, femínísk, gáfuð, húmorísk hugsjóna- og baráttukona. Svo óendanlega mikið stærri en krílið sem hún var.
Það er gulls ígildi að fá að kynnast slíku fólki á lífsleiðinni og hrein forréttindi að eiga það sama fólk að mömmu og vera alin upp samkvæmt þessum lífsgildum.
Í uppvexti mínum var aumingjaskapur ekki í boði. Ég skyldi standa með minni sannfæringu, elta drauma mína og allt hugsanlegt flipp og fíflaskap. Án þess að það kæmi niður á lífsgæðum annarra, náttúrunni eða öllu mínu umhverfi. Annað væri aumingjaskapur. Ég skyldi sýna öllum og öllu lífi virðingu og áhuga. Annað væri aumingjaskapur. Ég skyldi njóta hverrar stundar lífsins. Bæði góðu stundanna og líka þeirra skelfilegu. Þeim bæri að fagna, því þá gæfist tækifæri til að upplifa fegurðina við að uppgötva að hægt væri að takast á við vandamálin. Og aldrei skyldi ég vanmeta dýrmæti þess að láta mér leiðast.
Í huga mömmu var ekkert fallegra og klárara til í heiminum en börn. Þau voru tærasta og fullkomnasta lífsformið. Undantekningalaust. Hún naut einskis meira en að njóta samvista við barnabörnin, bað um að fá þau lánuð, til að auðga líf sitt. Grundvöllur þroska var að halda í barnið í sjálfri sér. Fastur liður í tilverunni voru vatnsslagir allra í fjölskyldunni, í Skorradalnum og í Casa Setta á Spáni. Öll ílát voru nýtt, allt endaði á floti, bæði innan- og utandyra, og allir holdvotir. Fyrr var slagnum ekki lokið. Bleytan skipti engu máli, einungis gleðin sem fylgdi leiknum. Mamma var alltaf skæðust. Það er sérstök upplifun að hlaupa eins hart og maður getur undan snarvitlausri miðaldra konu með beinkrabba, á bikiníi, með garðslöngu í hönd.
Hvað við mamma gátum rifist. En rifrildin ristu aldrei djúpt, þau ristu í raun ekki baun. Við vorum nefnilega nánast alltaf sammála. Það þurfti bara að skerpa á smáatriðum. Ég hef lúmskan grun um að þetta hafi verið útspekúlerað uppeldisráð hjá henni mömmu. Að fá mig til að æsa mig svolítið og koma skoðunum mínum í orð. Hún kenndi mér að skoðanaskipti væru nauðsynleg.
Mamma átti í sérstöku sambandi við náttúruna. Hún gat kastað tætingslegri rótarlufsu í áttina að mold og þar með óx upp stæðileg planta. Hún þekkti allar plöntur í náttúru landsins og talaði um þær eins og persónulega vini sína. Reyndar gekk henni alltaf skrambi illa að halda lífi í inniplöntum, enda sá hún jurtir sem órjúfanlegan þátt náttúrunnar þarna úti.
Aldrei lét hún þennan ömurlega sjúkdóm yfirtaka líf sitt. Eftir að krabbinn kom aftur upp gaf hún bara enn frekar í í að nýta hverja stund og njóta. Krabbinn var þarna, en hún skyldi aldeilis ekki láta hann ráða för, ekki meðan hún fengi einhverju ráðið. Og það gekk eftir. Því mamma var líka frek. Hún átti mörg dásamleg ár eftir, óskiljanlega mörg ár að mati ýmissa lækna, ár sem hún tók á lífsviljanum, lífsgleðinni, lífsaðdáuninni.
Mamma fékk mér dásamlega fallegt veganesti út í lífið. Ég mun áfram gera mitt allra besta í að neyta þess veganestis.
Því mamma var nagli.
Freyja Hlíðkvist Ómars- og Sesseljudóttir.
Samband okkar var einstakt og við skemmtum okkur alltaf, hvort sem það var í sólbaði á Spáni, notalegri sumarbústaðaferð, gönguferð um Indíánaskóg eða við að skreyta piparkökuhús.
Seinustu dagar ömmu voru yndislegir, þrátt fyrir aðstæður. Öll fjölskyldan var hjá henni og við rifjuðum upp allar frábæru minningarnar, sem voru aldeilis ekki fáar. Og ég veit að ömmu þótti vænt um að hafa okkur hjá sér.
Elsku amma mín, ég sakna þín endalaust mikið og get ekki hugsað mér hvernig það verður að geta ekki talað við þig eða hitt þig. Þú hefur gert líf allra í kringum þig betra og líflegra. Þú munt alltaf vera uppáhalds ferðafélagi minn, því þær ferðir sem við fórum í saman voru allar mjög skemmtilegar og eitt stórt hláturskast.
Ég elska þig og vona að þér líði vel.
Þín uppáhaldseinkadóttir einkadóttur þinnar,
Salka.
Amma lék alltaf með mér og Sölku, hún hafði mikið ímyndunarafl, sem gerði tíma okkar saman ótrúlega skemmtilegan. Amma var alltaf dugleg að búa til sögur og við fórum oft í gönguferðir í Drekaskóg og Indíánaskóg. Þar bjó amma alltaf til nýjar sögur um dreka og indíána sem bjuggu í skóginum.
Takk, elsku amma, fyrir allar yndislegu stundirnar. Takk fyrir Spánarferðirnar og sumarbústaðarferðirnar. Takk fyrir allar sögurnar og að vera alltaf til staðar. Ég mun sakna þín óendanlega mikið.
Þín
Hekla.
Leiðir okkar Settu lágu saman sumarið 1991 þegar við hófum báðar störf hjá Kópavogsbæ við leikskóladeildina. Ég blaut á bak við eyrun, nýkomin úr framhaldsnámi í sérkennslufræðum, réðst til starfa sem ráðgjafarfóstra en hún reynslubolti, leikskólakennari og kennari að hefja störf sem leikskólafulltrúi.
Setta var glæsileg kona í litríkum fötum og alltaf með langar óaðfinnanlegar lakkaðar neglur. Hún kom líka fyrir sjónir sem faglega sterkur og metnaðarfullur leikskólakennari sem ég bar strax mikla virðingu fyrir. Á þessum tíma voru tilfærslur hjá bænum þar sem við, sem höfðum með dagheimilin og leikskólana að gera, vorum að færast frá því að heyra undir félagsmál yfir á fræðsluskrifstofu. Þessi breyting var Settu mikið hjartans mál og lagði hún ríka áherslu á að leikskólinn væri fyrsta skólastigið í menntun barna og ætti því málaflokkurinn að tilheyra menntasviði. Þegar svo fóstrunafnið vék fyrir starfsheitinu leikskólakennari þá var hún ötull talsmaður þessa og minnti alla á þessa breytingu og gerði harðorða athugasemd ef einhverjum varð á að nota fóstruheitið.
Setta helgaði starfskrafta sína alla tíð þess að vera málsvari barna. Hún var góður fagmaður, vel lesin og fylgdist gaumgæfilega með öllum nýjungum á sviði leikskólamála. Hún lagði ríka áherslu á það að börn fengju frelsi til að þroskast á lýðræðislegan hátt, þar sem virðing væri borin fyrir sjálfræði þeirra og skoðunum.
Setta var góður félagi og gleðigjafi í leik og starfi. Margt var brallað í „fikt- og föndurdeildinni“ og oft heyrðist dillandi hlátur á skrifstofunni.
Góður vinur og samstarfsmaður er fallinn frá eftir langvarandi veikindi – veikindi sem hún vildi ekki sértaklega ræða um né láta hafa áhrif á athafnir sínar. Hún hélt sínu striki og með húmorinn á lofti þrátt fyrir dvínandi krafta fram á síðustu stundu.
Hafðu þökk, elsku Setta mín, fyrir samfylgdina og einlæga vináttu sem mun lýsa minningu þína um ókomna tíð.
Við sjáumst síðar.
Sú nótt sem leggst nú yfir okkur
með ógnarmyrkur á skjá, á skjá
er undarlega undur svört
mun tjaldið færast frá
og blámi á ströndum
Fuglar himins leysa festar
og lyfta okkur hátt á flug, á flug
svo undarlega undur hratt
ber okkur heim til þín
og blámi yfir vængjum
(Eygló Eyjólfsdóttir)
Þín vinkona
Anna Karen Ásgeirsdóttir
Mæður okkar Settu eru vinkonur til margra áratuga en vegna tíu ára aldursmunar okkar Settu tengdumst við ekki mikið fyrr en á síðari árum þegar allt rennur saman og aldur er verulega afstæður. Setta kom með hugmyndina að Mömmukaffinu sem varð til þess að við hittumst í kaffi; þrjár gamlar og góðar vinkonur og við miðaldra dæturnar. Eftir fyrsta hittinginn stakk Setta upp á að næst myndum við dæturnar tala minna svo þær gömlu kæmust að. Svona var gaman hjá okkur.
Þegar Setta veiktist af krabbameini í annað sinn og heilsu hennar hrakaði fórum við að hafa meira samband, en ég hafði í millitíðinni reynslu af slíkum veikindum. Nú er ég ákaflega þakklát fyrir þennan tíma sem við áttum saman. Við deildum með okkur þessari sameiginlegu reynslu en aðallega fór tíminn í að segja skemmtisögur og hlæja. Setta var vinsæl og því auðvelt að hóa saman mannskap í hópinn sem við vinir hennar kölluðum Setturnar, til að skipuleggja heimsóknir og aðstoða hana eftir að heilsan fór versnandi. Rúmlega fjörutíu manns voru í hópnum; vinir, vinnu- og kórfélagar og leshringurinn sem Setta stofnaði á sínum tíma. Ekki datt mér í hug að við hefðum ekki lengri tíma saman, en mikið er ég ánægð með hversu vel og skipulega við nýttum hann því hver kannast ekki við að ætla að hittast einhvern daginn en allt í einu er það orðið of seint, tíminn floginn og tækifærin með.
Setta var svolítið suðræn í útliti með þetta svarta hár og brúnu augu, geislandi bros og alltaf vel til höfð og falleg. Hún var sterkur karakter, leiðtogi, sem nýttist henni vel í starfi, og svo mikill töffari að það gat verið erfitt að fá hana til að þiggja aðstoð þótt veik væri. En það þurfti ekki að þekkja Settu vel til að sjá hvað hún var skemmtileg og heillandi kona. Setta var svo miklu stærri manneskja en sentímetrarnir sögðu til um.
Hólmfríður Ben
Benediktsdóttir.
Setta vann að málefnum leikskólabarna óslitið í yfir 40 ár, oft stóð hún í ströngu gagnvart hinum ýmsu hagsmunaaðilum en alltaf var hún með velferð og nám barna í fyrirrúmi. Þar gaf hún lítið eftir, stóð á sínu og ruddi brautina. Hún var einn öflugasti talsmaður leikskólans og leikskólabarna og naut þess að vera leikskólakennari, leikskólastjóri og leikskólafulltrúi. Setta og sú sem þetta ritar voru skólasystur í fyrsta hópnum er hóf framhaldsnám í stjórnun við Fósturskóla Íslands árið 1983 ásamt fleiri frábærum leikskólakennurum.
Þegar Fóstrufélag Íslands og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna voru að huga að og undirbúa stofnun fagstéttarfélaga lét Setta ekki sitt eftir liggja. Hún tók þátt í nefnd um eignatilfærslu úr sjóðum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar til fagstéttarfélaganna ásamt Guðmundi Vigni en Óskar Magnússon hrl. fór fyrir gagnstæðum sjónarmiðum fyrir hönd starfsmannafélagsins. Í þeirri nefnd var oft hart tekist á og sátu sá er þetta ritar og Setta löngum stundum við borðstofuborðið á Laugateignum og undirbjuggu tillögur fyrir hönd fagstéttarfélaganna. Tillögur Settu og Guðmundar Vignis urðu undir á fjölmennasta aðalfundi í sögu Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar árið 1988.
Þetta fannst leikskólakennurum afar ósanngjarnt en tóku samt pjönkur sínar og yfirgáfu starfsmannafélögin. Þar var Setta ötull baráttu- og talsmaður og lagði stofnun stéttarfélags leikskólakennara lið. Við tók síðan ógleymanleg ferð nýstofnaðs fagstéttarfélags til Parísar. Í ferðinni var stofnað svokallað „Fóstruvinafélag“ maka þeirra leikskólakennara sem voru með í ferðinni og starfaði það um stund á fremur léttum nótum.
Við hjónin áttum einnig ógleymanlegar stundir, fyrst með Settu og Ómari en síðar með henni og Þorsteini, í sönghópnum okkar góða sem hittist með jöfnu millibili þó svo dregið hafi úr samverustundum hans síðustu árin. Þar spilaði Setta undir á gítarinn og sungin voru jafnt ættjarðar- og dægurlög langt fram á nótt. Þar hafa orðið miklar breytingar frá því hópurinn varð til. Selma Dóra, Ómar, Siggi hennar Sólveigar og nú Setta eru horfin yfir móðuna miklu. Við sem eftir erum syrgjum þessa kæru vini okkar og félaga sárt. Þakklæti fyrir allar góðu stundirnar í gegnum tíðina eru okkur efst í huga nú.
Við færum fjölskyldu Settu okkar innilegustu samúðarkveðjur og vitum að minning um sterka, glaða og staðfasta baráttukonu lifir áfram.
Arna og Guðmundur Vignir.
Það er með miklum söknuði og trega að ég skrifa hér nokkur minningarbrot af okkar löngu vináttu, Setta mín. Við vorum meira eins og systur. Þetta byrjaði allt í Dalnum okkar fallega, Laugardalnum. Þú áttir heima í Miðdal og ég í Prentarabústað nr. 4 þar sem ég dvaldi flest sumur.
Þú varst algjör orkubolti, skemmtileg, uppátækjasöm og til í allt. Mér fannst því mjög spennandi að kynnast þessari spræku stelpu í sveitinni. Það var alltaf nóg að gera hjá okkur í Dalnum, það var farið í Gilið og Tröllskessusætið. Það var labbað upp á Gullkistu og farið á hestbak. Þú varst algjört náttúrubarn og smitaðir mig algjörlega af því áhugamáli. Við söfnuðum laufblöðum af alls konar trjá- og blómategundum og þurrkuðum þau svo inn í bókum. Þetta var svo skoðað árið eftir og allt greint í bak og fyrir. Þetta var svo yndislegur tími með þér, elsku Setta mín, og ég var svo lánsöm að hafa kynnst þér. Þú hafðir svo sannarlega græna fingur!
Hér er saga af einu af þínum skemmtilegu uppátækjum:
Þetta var á fallegum sumardegi 1967, við kíktum til mömmu minnar og pabba í Ölfusá þar sem þau voru að veiða lax. Pabbi segir okkur þá frá mink sem þar var á flækingi. Það var eins og við manninn mælt, þú raukst á fætur og sagðir: „Ellý, nú förum við á minkaveiðar!“ Þú tókst ryðgaða skóflu og skipaðir mér að grípa prik og grjót.
Sagan endaði ekki vel fyrir vesalings minkinn en við enduðum í Mogganum, með smá aur í vasanum eftir að hafa selt þrjú skott til sýslumannsins. Þetta var alveg magnað! Það er af mörgu að taka og væri efni í heila bók.
Þú varst sannkallaður listamaður, algjörlega einstök í öllu, prjónaskap, saumaskap, trjárækt, málun og skrift, svo ekki sé minnst á öll fallegu jólakortin frá þér. Þú varst mikil hugsjónakona og komst mörgum góðum málum á framfæri í starfi þínu.
Elsku Setta mín, nú er þínu lífi hér á jörðu lokið, kæra vinkona. Þú barðist við þennan illvíga sjúkdóm af æðruleysi og lést hann ekki stoppa þig af í að lifa lífinu, þú varst algjör hetja.
Þar sem ég sit hér og skrifa þetta mín elskuleg – og tárin renna ofan í tölvuna hjá mér – horfi ég á mynd af okkur, við erum að syngja saman og allt lífið blasir við okkur. Við brosum út að eyrum.
Svona ætla ég að muna þig, mín yndislega æskuvinkona úr Dalnum fallega, ég mun sakna þín meira en orð fá lýst.
Elsku Júlía, Freyja, Haukur, Þorsteinn, bræðurnir og fjölskyldur ykkar allra, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar.
Elínborg (Ellý).
Ljóst var að hverju stefndi á þorrablóti „Fóstrugengisins“ í Skorradalnum hjá Eddu og Bárði nú á útmánuðum, en ekki lét hún sig vanta, enda vel studd af Þorsteini sínum, og tók þátt í borðhaldi og söng af gleði og ánægju.
Við vinkonurnar kynntumst í Fóstruskóla Sumargjafar þegar við hófum þar nám haustið 1966 og höfum haldið hópinn síðan.
Undanfarin þrjátíu ár höfum við ásamt mökum meðal annars haft það takmark að fara í eina helgarferð um landið á hverju sumri. Aldrei var Flora Islands langt frá Settu enda fróð um íslenska náttúru og mat fegurð hennar.
Ómar eiginmaður Settu lést óvænt í desember 2005. Síðar kynntist hún Þorsteini sem strax féll mjög vel að hópnum og breytti það engu um ferðir okkar og aðrar skemmtilegar samverustundir.
Við minnumst Settu sem mjög góðrar vinkonu, sem var afar félagslynd, glettin, söngelsk, fróð og víðlesin. Aftur hefur skarð verið höggvið í hópinn. Hennar er sárt saknað.
Fjölskyldu Settu sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Anna og Páll,
Edda og Bárður,
Guðrún og Ari,
Magnea og Bjarni.
Við áðum um það bil miðja vegu og komum okkur fyrir í kjarri vaxinni laut sem var full af blágresi og sóley – nú var mál að fá sér nestisbita. Við gáfum hvor annarri nöfn, ég var Trippa og hún Viddú-Viddú. Við hlógum og sögðum hvor annarri fyndnar sögur þar til mál var að halda áfram.
Það var mannýgur tuddi í girðingu á leiðinni sem við vorum passlega smeykar við. Pössuðum að minnsta kosti að vera alls ekki í neinu rauðu því þá myndu leikar æsast og hann gæti hugsanlega stokkið yfir gaddavírinn og elt okkur. Sei sei nei, ekkert rautt.
Við vorum spenntar að komast á leiðarenda og berja Brúará augum – þessa merkilegu og sögulegu á. Þetta var orðið töluvert ferðalag þegar tekið var með í reikninginn að við áttum heimleiðina eftir.
Hvað er hægt að hugsa sér betra en einmitt slíka stund? Enda lifir hún í minningunni þar til við erum báðar horfnar á braut. Nú skilja leiðir og þú ríður honum Grána um blómlegar grundir með ljósið bjarta fram undan.
Elsku Júlla, Þorsteinn, börn, barnabörn, ættingjar og vinir – mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessari skilnaðarstund.
Edda Valborg Sigurðardóttir (Trippa).
Seinna vann ég með henni að stofnun Félags leikskólakennara, sem hét þá Fóstrufélag Íslands, ég var með henni í nefndum og ráðum. Þær voru þar margar skólasysturnar úr þessu fyrsta framhaldsnámi. Hún var fylgin sér og bar alltaf markmið og hag stéttarinnar fyrir brjósti, var ein þeirra sem oft komu í púlt, sagði sína skoðun og mótaði viðhorf okkar. Þegar ég lít yfir held ég samt að hennar áhrifamesta starf hafi verið í Kópavogi – ég er stundum að hugsa hvað það var mikil gæfa fyrir leikskólana þar að fá hana til starfa. Þegar sársaukafullar sameiningar voru í gangi í Reykjavík, þurfti þess ekki með í Kópavogi. Settu, þvert á það sem mörgum fannst heillavænlegt, datt ekki í hug að byggja minna en sex deilda leikskóla. Þörfin fyrir sameiningar á krepputímum varð því lítil.
Setta minnti mig á ljón, hún var eins og ljónynja fyrir hönd barna og réttinda þeirra. Birtingarmyndirnar voru ýmsar, svo sem að börn hefðu rétt til að hafa menntað fagfólk. Setta eins og fleiri vissi að menntun stéttar og gæði starfs fara gjarnan saman, þess vegna hafði hún forgöngu um að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri um menntun leikskólakennara í fjarnámi. Ákvörðun sem sýndi kjark og skipti máli og sem leiddi til hærra hlutfalls leikskólakennara í Kópvogi en víða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Það gladdi mig sérstaklega þegar henni var veitt Orðsporið, viðurkenning leikskólakennarastéttarinnar og ýmissa hagsmunaaðila leikskólans; mér finnst fáir hafa verið jafn vel að því komnir. Elsku Setta, hvíldu í friði.
Kristín Dýrfjörð.