Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra var í kastljósi erlendra fjölmiðla nýverið vegna yfirlýsinga hans um að hugsanlega yrði gengi íslenzku krónunnar fest við gengi annars gjaldmiðils. Þá helzt evruna.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra var í kastljósi erlendra fjölmiðla nýverið vegna yfirlýsinga hans um að hugsanlega yrði gengi íslenzku krónunnar fest við gengi annars gjaldmiðils. Þá helzt evruna. Þetta sagði hann meðal annars við viðskiptablaðið Financial Times og fréttaveituna Reuters og fleiri erlendir miðlar tóku það síðan upp. Þetta varð til þess að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fann sig knúinn til þess að vekja máls á því í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að engin áform væru uppi um að innleiða slíka fastgengisstefnu hér á landi.

Benedikt dró í kjölfarið í land og sagði blaðamann Financial Times hafa oftúlkað orð sín. Þá hefur fréttamanni Reuters væntanlega tekizt að gera slíkt hið sama. Kannski vandamálið sé hvernig Benedikt kaus að orða hlutina fremur en oftúlkun erlendu fjölmiðlamannanna? Tvennt er annars í stöðunni. Annaðhvort kom þetta Benedikt í opna skjöldu, sem hlýtur að vekja ákveðnar spurningar um það hvort hann sé starfi sínu vaxinn að þessu leyti, eða hann var fyllilega meðvitaður um það hvaða skilningur yrði lagður í orð hans. Ég veit eiginlega ekki hvort er betra.

Hvað ummæli Benedikts annars varðar er vitanlega algerlega ótímabært að tjá sig efnislega um mögulega niðurstöðu peningastefnunefndar þeirrar sem skipuð hefur verið og skila mun niðurstöðum fyrir lok ársins. Hitt er svo annað mál að hugmyndir Benedikts og Viðreisnar um gengistengingu krónunnar við evruna í gegnum svonefnt myntráð hafa í raun ekki mikið að gera með hagfræði frekar en evrusvæðið sjálft heldur fyrst og síðast pólitík. Pólitíkin á bak við evrusvæðið er að stuðla að frekari samruna innan Evrópusambandsins í átt að lokatakmarkinu, einu ríki. Pólitík Benedikts er að á Íslandi verði tekin upp evra með inngöngu í sambandið. Forsenda þess að ríki geti tekið upp evruna eftir að inn í Evrópusambandið er komið er að gengi gjaldmiðla þeirra sé fest við gengi evrunnar í gegnum kerfi sem nefnist ERM II. Kunnuglegt, ekki satt?

Fyrst ekki er hægt að koma Íslandi inn í Evrópusambandið í gegnum framdyrnar, fyrst og fremst vegna þess að langur vegur er frá því að fyrir því sé nægjanlegur stuðningur á meðal almennings og á vettvangi stjórnmálanna, er þannig reynt að fara inn um bakdyrnar. Skoðanabræður Benedikts í Noregi eru í hliðstæðri stöðu. Þar er ekki vilji til þess að verða hluti sambandsins frekar en hér á landi. Fyrir vikið er þar á bæ reynt að flækja Norðmenn sem mest í alls kyns verkefni á vegum Evrópusambandsins í gegnum aðild landsins að EES-samningnum. Sem er ekki óþekkt hér á landi.

Rauði þráðurinn í gegnum alla stefnu Viðreisnar er einu sinni aðlögun að Evrópusambandinu, sem þó er ekki viðurkennt nema gengið sé á fulltrúa flokksins. Tilgangurinn með því að fara um bakdyrnar er jú eini sinni sá að það sé ekki fyrir allra augum. hjortur@mbl.is

Hjörtur J. Guðmundsson

Höf.: Hjörtur J. Guðmundsson