Páskahátíðin fer senn að hefjast. Það ruglar fólk oft í ríminu af hverju páskar eru ekki alltaf á sama tíma ársins eins og gerist með jólin. Séra Oddur Bjarni Þorkelsson er prestur í Dalvíkurprestakalli en situr á Möðruvöllum í Hörgárdal. Við ræddum við hann um páskana og þýðingu þeirra ásamt ýmsu öðru sem tengist kirkju, leiklist og mannlífi norður þar.
Orðið páskar, sem upphaflega kemur af hebreska orðinu pesa? sem þýðir „fara framhjá“, „ganga yfir“ kom inn í íslensku gegnum orðið pascha í latínu er sameiginlegt heiti á einni af aðalhátíðum gyðinga og mestu hátíð í kristnum sið. Þær eiga þó fátt annað sameiginlegt“ segir í frjálsa alfræðiritinu Wikipedia. Reglan um páska í kirkjum Vesturlanda er að páskadagur er fyrsti sunnudagur eftir fyrsta fullt tungl frá og með 21. mars. En hvað merkja páskar hjá okkur Íslendingum í raun?
„Fer það ekki eftir því hvaða trúar við erum?“ svarar séra Oddur Bjarni Þorkelsson að bragði. „Fyrir mér og þeim sem eru kristin eru páskar upprisuhátíðin, þegar Kristur reis upp frá dauðum. Þetta er okkar stærsta fagnaðarhátíð. Þessi stórkostlega gjöf að hljóta eilíft líf eftir þessa jarðvist er okkar trú, uppfylling fyrirheita Krists.“
Er mikið um dýrðir á páskahátíðinni hjá ykkur fyrir norðan?
„Páskarnir hjá mér þetta árið samanstanda af fimm messum, þremur skírnum og tveimur hjónavígslum. Það verður gaman í vinnunni hjá mér og nóg að gera. Ég messa á páskadag í Stærri-Árskógskirkju klukkan ellefu og eftir hádegi messa ég hér á Möðruvöllum. Annan í páskum verð ég með messu í Dalbæ, dvalarheimili aldraðra á Dalvík. Ég messa líka á skírdagskvöld og skrýðist þá fjólubláum hökli, sem er litur föstunnar. Á páskadag skrýðist ég aftur á móti hátíðarskrúðanum sem er hvítur hökull.“
Á Möðruvöllum er dásamlegt að búa
Er mikið starf að vera prestur úti á landsbyggðinni?„Já, það er heilmikið starf. Alla daga er að finna ýmist athafnir, sálgæslu, barnastarf, bænastundir eða fræðslu og ýmislegt fleira. Dalvíkurprestakall var áður þrjú prestaköll sem voru sett saman í eitt og við erum tveir prestar sem því þjónum. Hinn presturinn er séra Magnús G. Gunnarsson og hann situr á Dalvík. Við skipuleggjum helgihaldið og allt okkar starf með þeim hætti að við sinnum því báðir jöfnum höndum. Við erum hér tveir prestar starfandi og viljum vera báðir jafn sýnilegir.“
Þú situr á Möðruvöllum – er það góð vist?
„Hér er dásamlegt að búa. Við höldum upp á hundrað og fimmtíu ára afmæli Möðruvallakirkju einmitt í ár. Þorsteinn Daníelsson frá Skipalóni byggði þessa kirkju en hann var annálaður smiður. Hann byggði hér ýmsar kirkjur, svo sem Glæsibæjarkirkju og Bakkakirkju.
Möðruvallaklausturskirkja, eins og hún heitir fullu nafni, tekur yfir tvö hundruð og fimmtíu manns í sæti en á sönglofti var fyrrum sérstök amtmannsstúka. Þar er nú orgel kirkjunnar, nýtt pípuorgel smíðað af Björgvini Tómassyni og var það vígt fyrsta sunnudag í aðventu árið 2002. Möðruvallakirkja hefur verið talin ein vandaðasta timburkirkja hérlendis.“
Finnur þú „nið tímans“ á hinum forna stað Möðruvöllum?
„Ég er alveg meðvitaður um að þetta er mikill sögustaður. Hér hafa æði margir búið til skamms eða lengri tíma. Þetta er fornt höfðingjasetur, hér bjó til dæmis Bjarni Thorarensen, skáld og amtmaður, og Hannes Hafstein, skáld og ráðherra, er fæddur hér. Jón Sveinsson, rithöfundurinn Nonni, sleit hér barnsskónum og margir koma hingað til að minnast hans.
Íbúðarhúsið hér á Möðruvöllum er stórt steinhús, það er að verða 80 ára; á næsta ári og það hefur staðið sig vel. Þess má geta að á Mörðuvöllum var munkaklaustur og Davíð Stefánsson gerði einmitt leikrit um það, Munkarnir á Möðruvöllum.“
Mikið fjör í leiklistarstarfinu í Eyjafirði
Hefur það leikrit Davíðs verið leikið á þessum slóðum?„Ekki í seinni tíð en ég hef ekki verið búsettur hér mjög lengi eða aðeins í rösk tvö ár. Hins vegar tek ég þátt í leiklistarstarfsemi hér í sveitinni. Ég hef starfað með Freyvangsleikhúsinu og við Margrét Sverrisdóttir kona mín frumsýndum nýlega verkið Góðverkin kalla eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Það er sýnt í Freyvangi og enn í fullum gangi. Í fyrravetur leikstýrðum við svo hjá Leikfélagi Hörgdæla, leikritinu Með vífið í lúkunum eftir Ray Cooney. Þess má geta að árið þar áður settum við upp með Freyvangi Fiðlarann á þakinu eftir Jerry Bock, Sheldon Harnick og Joseph Stein. Allar þessar sýningar hafa notið feiknavinsælda.“
Er mikið líf í leiklistarstarfsemi þarna fyrir norðan?
„Já, það er mikið fjör í leiklistinni hér í Eyjafirðinum. Við hjónin erum bæði leiklistarmenntuð, ég sem leikstjóri og Margrét leikkona. Við leikstýrum hins vegar en að lokinni frumsýningu hverfum við á braut. Það er heimafólkið sem leikur hin ýmsu hlutverk. Þess má geta að Freyvangssýningin hefur fengið mikla aðsókn og það hefur verið leikið fyrir fullu húsi að undanförnu.“
Hvar lærðir þú leikstjórn?
„Ég lærði í Bristol. Ég er búinn að starfa við leikstjórn í tuttugu ár. Þetta byrjaði með því að ég fór á námskeið hér heima og í framhaldi af því í leikstjórnarskóla í Bristol og lauk þar námi. Árið 2007 hóf ég hins vegar nám í guðfræði og lauk því 2013 og tók í framhaldi af því vígslu til Dalvíkurprestakalls.“
Ýmislegt sameiginlegt með prestsstarfi og leikstjórn
Er margt sameiginlegt með leikstjórn og prestskap?„Í hinum mörgu þáttum prestskapar er maður í nánum samskiptum við fólk að vinna með tilfinningar. Þetta er sameiginlegt með leikhússtarfi og prestsstarfinu. Þegar maður leikstýrir þarf maður að átta sig á styrkleikum fólks og hafa samkennd með manneskjunni. Að vissu leyti á það líka við um starf prestsins.“
Prestar hafa þó aðra aðkomu að lífi fólks – eða hvað?
„Já, við erum þar að tala um raunverulegt líf og raunveruleg áföll. Þar skilur á milli. Það erfiðasta við starf prestsins er aðkoma að alvarlegum áföllum, svo sem að ræða við ástvini eftir dauðsföll eða hvers konar missi. Skilnaðir eru erfiðir og einnig veikindi. Allt felur þetta í sér missi og allt þetta krefst mikils.“
Sálgæslan fer ekki síður fram við garðabandið
Kom þér á óvart þessi hlið prestsstarfsins?„Maður getur reynt að búa sig undir svona atburði en smám saman safnast í reynslubankann. Þegar öllu er á botninn hvolft er það reynslan sem er drýgst. Maður reynir fyrst og fremst að vera til staðar en auðvitað að vera minnugur þess að þarna ekki um að ræða eigin sorg eða erfiðleika heldur annars fólks. Það er mikilvægt að minna sig á að sjónarhornið er ekki á mann sjálfan heldur þá aðila sem verið er að hlúa að.“
Ertu Norðlendingur?
„Já, ég er úr Aðaldal í Þingeyjarsveit, frá bænum Hvoli, yngstur fimm systkina, af bændafólki kominn og alinn upp á þessum sveitabæ. Ég er stúdent frá Verkmenntaskóla Akureyrar og vann þar nyrðra í nokkur ár. Síðan lá leiðin til Húsavíkur þar sem ég lék og leikstýrði í nokkur ár. Margrét kona mín er frá Húsavík, þess vegna flutti ég þangað. Ég kynntist henni þegar ég var ráðinn til að skrifa handrit og leikstýra fyrir framhaldsskólann á Húsavík. Hún var þar þá nemandi. Við eigum eina dóttur sem verður þriggja ára í maí og von er á öðru barni í sumar.“
Kemur þér reynslan af sveitalífinu til góða í starfi þínu sem prestur?
„Já,maður þekkir hjartsláttinn í sveitinni – áttar sig á hvaðan fólkið er. Sálgæslan fer ekkert síður fram við garðabandið en á skrifstofunni.“
Voru páskar mikil hátíð þegar þú varst að alast upp?
„Ég las mikið sem barn og fannst föstudagurinn langi bara fínn þótt ekki væri mikið fjör. Það var ekki beinlínis stuð á þeim degi en mér var þó ekki bannað að leika mér. Í minningunni er föstudagurinn langi nánast eins og aðrir dagar. Það var ekki fyrr en unglingsárin tóku við að maður áttaði sig á alvöru málsins. Fjölskylda mín var svo sem ekkert að plaga prestinn – við fórum í kirkju á jóladag en ég minnist fárra messudaga annarra.“
gudrunsg@gmail.com