Dögurður Einhver gistihús munu bjóða lambabeikon með hefðbundnu.
Dögurður Einhver gistihús munu bjóða lambabeikon með hefðbundnu. — Morgunblaðið/ÞÖK
Kjarnafæði er að þróa beikon úr lambakjöti. Stefnt er að því að afurðin komi á almennan neytendamarkað í byrjun sumars, meðal annars morgunverðarhlaðborð gistihúsa. „Kjötiðnaðarmennirnir eru að leggja lokahönd á vöruna.

Kjarnafæði er að þróa beikon úr lambakjöti. Stefnt er að því að afurðin komi á almennan neytendamarkað í byrjun sumars, meðal annars morgunverðarhlaðborð gistihúsa.

„Kjötiðnaðarmennirnir eru að leggja lokahönd á vöruna. Við höfum verið að senda út smakk og það hefur líkað vel. Við munum byrja í mötuneytum eftir páska og förum síðan inn á almennan markað,“ segir Ólafur Már Þórisson, sölu- og markaðsstjóri Kjarnafæðis.

Lambabeikon er þekkt víða erlendis þótt beikon úr reyktum svínasíðum sé vitaskuld mun algengara. Lambabeikonið er unnið úr lambaslögum. Ólafur segir að nóg sé til af þeim hjá Kjarnafæði og í landinu. Hægt sé að vinna þau í kæfu en með beikonframleiðslu sé hægt að auka verðmætin, fá fleiri krónur út úr hverju kílói. „Það er gaman að koma með nýjungar og geta gert meira úr þessu hráefni,“ segir hann.

Lambaslögin eru söltuð og reykt með svipuðum hætti og þegar hefðbundið beikon er framleitt. Ólafur segir þó að lambabeikonið sé minna og fitan bregðist öðruvísi við steikingu. Lambabeikonið sé bragðsterkara. Verðið verður svipað og þó gæti lambabeikonið orðið heldur ódýrara en svínabeikon.

helgi@mbl.is