Ómar Friðriksson omfr@mbl.is ,,Ríkið skuldbatt sig til þess að halda sig innan rammasamkomulagsins sem gert var í kjölfar Salek, og allar okkar viðræður ganga út frá því,“ segir Guðmundur H. Guðmundsson, varaformaður samninganefndar ríkisins.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

,,Ríkið skuldbatt sig til þess að halda sig innan rammasamkomulagsins sem gert var í kjölfar Salek, og allar okkar viðræður ganga út frá því,“ segir Guðmundur H. Guðmundsson, varaformaður samninganefndar ríkisins. Kjaraviðræður eru í gangi við Læknafélag Íslands og framundan eru viðræður við bæði félög háskólamanna og kennara á árinu.

Ríki og sveitarfélög telja sig skuldbundin til þess að fylgja sameiginlegum kostnaðarramma sem lagður var með Salek-samkomulaginu, sem er rammasamkomulag aðila á vinnumarkaði frá í október 2015. Ekki verði samið umfram Salek-línuna í þeim viðræðum sem framundan eru á árinu. Þetta kemur fram í gögnum fundar Þjóðhagsráðs í vikunni, þar sem fjallað var m.a. um stöðu efnahagsmála, nýtt vinnumarkaðslíkan og kjarasamninga sem blasa við á árinu.

ASÍ og BSRB mættu ekki

Fulltrúar launþegahreyfingarinnar mættu ekki á fundinn frekar en á fyrri fundi ráðsins en ASÍ og BSRB sögðu sig frá þátttöku í Þjóðhagsráði í fyrravor vegna ágreinings um hlutverk þess. Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, segir að engin breyting hafi orðið á þessu en samtöl hafi þó átt sér stað.

Fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram gögn þar sem segir að takmarkað svigrúm sé til launahækkana og að í nýsamþykktri fjármálaáætlun til ársins 2022 sé gengið út frá viðmiði um kaupmáttaraukningu launa um 1,5% á ári.

Um þriðjungur ríkisstarfsmanna er með lausa kjarasamninga á þessu ári og voru samanlögð laun þeirra 67,5 milljarðar í fyrra. Samningar Læknafélags Íslands renna út í lok apríl. Þar er um 900 ársverk að ræða. Launakostnaður sem undir er í þeim viðræðum var 19,5 milljarðar á seinasta ári. Semja þarf við 18 stéttarfélög í BHM í lok sumars. Þau telja um 3.300 ársverk hjá ríkinu og nam launakostnaður vegna þeirra 34 milljörðum 2016. Þá losna samningar framhaldsskólakennara í haust. Hjá ríkinu er þar um 1.300 ársverk að ræða og 14 milljarða kr. launakostnað.

Samninganefnd ríkisins fundaði seinast með læknum sl. fimmtudag. „Það er samkomulag um ganginn í viðræðunum og fundir ákveðnir í sátt,“ segir Guðmundur og bætir við að enginn brestur hafi orðið á þeim.

Spurður segir hann að ekki sé farið að reyna á launakröfur lækna í viðræðunum, „en það er ágætis tónn í viðræðunum,“ segir hann.

,,Mikið undir á þessu ári“

Samningar kennara losna í haust en skv. viðræðuáætlun hefjast þó kjaraviðræður í næstu viku um málefni sem snúa að breytingunum á vinnumati í kjarasamningunum.

Samningar 18 aðildarfélaga BHM eru lausir í lok ágúst þegar gerðardómur um launakjör þeirra frá 2015 rennur út. Guðmundur segir að leitað hafi verið eftir afstöðu BHM en þær viðræður séu í höndum hvers og eins félag. ,,Þau hafa ekki framselt neitt umboð til heildarsamtakanna og viðræður við þessi félög eru ekki komnar í gang,“ segir hann.

,,Það er töluvert mikið undir á þessu ári ef menn vonast eftir því að rammasamkomulagið haldi,“ segir Guðmundur en bendir á að aðeins ASÍ og BSRB eru aðilar að rammasamkomulaginu en BHM og KÍ sem eru með lausa samninga á þessu ári eins og fyrr segir, eru það ekki. ,,Það mun væntanlega gera þá samninga eitthvað erfiðari en ella,“ segir hann.