Hjálmar Magnússon
Hjálmar Magnússon
Eftir Hjálmar Magnússon: "Fiskur sá sem er veiddur í Faxaflóa á hinum góðu fiskmiðum Akurnesinga verður nú fluttur sjóleiðina eins langt frá miðunum sem hægt er að komast."

Á Akranesi mun byggð hafa myndast mjög snemma og jafnvel fyrir viðurkennt landnám norrænna manna vegna hinna góðu landfræðilegu kosta sem staðinn prýða. Þ.e. skagi þarna langt út í sjóinn og hin góðu fiskimið rétt utan landsteinanna og sæmileg lending fyrir hina smáu báta þeirra tíma svo og góðar klappir til fiskþurrkunar sem gerðu fiskinn að góðri söluvöru fyrir þeirra tíma markaði, sennilega Írland og Skotland.

Líklega höfum við ekki spáð mikið í flutninga með fiskinn okkar milli landshluta.

Staðreyndin er hins vegar sú að fiskur sá sem er veiddur í Faxaflóa á hinum góðu fiskmiðum Akurnesinga verður nú fluttur sjóleiðina eins langt frá miðunum sem hægt er að komast eða alla leið austur á Seyðisfjörð, þar sem hann er svo fullunninn og settur í kæligáma sem síðan eru fluttir með stórum og þungum flutningabílum til útskipunar, sem oftast mun vera flugvöllurinn í Keflavík. Ekki má gleyma því að með svona vinnubrögðum verður einnig mikil kolefnalosun. Öll vitum við að í þeim efnum þurfum við að gæta að framferði okkar. Eðlilega þarf að koma þessari góðu vöru sem fyrst á markaði erlendis.

Miklar deilur hafa verið vegna niðurskurðar á fé til vegagerðar vítt og breitt um landið, eðlilega, því þörfin er víða mikil. Er annars nokkur vitglóra í svona hringavitleysu? Vitað er að stærsti hluti vegakerfis okkar er ekki byggður fyrir þungaflutninga, svo er fjölgun ferðamanna kennt um hvað fer mikill hluti vegafjármagns í allt of mikið viðhald veganna, eins og þessir litlu fólksbílar sem þeir oftast eru á slíti vegunum svona óhóflega.

Hvað eru menn að hugsa með þessum hringferðum með fiskinn um landið? Okkur sem erum úti í þjóðfélaginu finnst hins vegar ákaflega lítil hugsun vera á bak við svona hringferðir eða að þarna sé gróðahyggjan í sínum versta ham og ekkert hugsað um afleiðingarnar og kostnað fyrir samfélagið okkar. Væri kannski rétt að hækka þungaskatt verulega á þessa flutninga? Nei, ekki einu sinni það heldur skulum við vinna að því að skapa þannig umhverfi að vinnslan verði sem næst veiðislóð. Þeir sem til þekkja vita vel hvernig þessir miklu þungaflutningar fara með okkar viðkvæmu vegi. Það að slétthefla moldarflagið og strá svo sandlagi yfir gerir veginn, þótt hann sé sléttur og fallegur fyrir augað og kannski léttustu einkabíla, ekki hæfan til að bera þunga flutninga.

Hvaða öfl eru það sem stjórna þvílíkri sóun á verðmætum landsins, að veiða og verka fisk langt frá heimahögum sínum? Svo reyna kvótakóngar og auðvaldið að ræna vinnandi fólk sjálfsögðum réttindum sínum. Hvað veldur því að slíkt skuli vera hægt? Arfavitlausar lagasetningar settar fyrir áratugum, hugsanlega með það sjónarmið að ófyrirleitnir menn gætu notað sér vitleysuna.

Undirritaður hallast þó að því að þarna hafi verið klaufaskapur á ferðinni en endilega, þingmenn góðir sem hugsanlega skoðið þessar hugleiðingar mínar, athugið að þið eruð kosnir til að gæta þess að réttlæti ríki í þjóðfélagi okkar. Skoðið þessi mál í botn og athugið hvort hægt verði að gera réttláta bót á þessum málum, því það er stórt mein í þjóðfélaginu að peningafurstar geti rænt lífsbjörginni frá hinum dreifðu byggðum landsins.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri.