Mæðgin Gunnar Harðarson með son sinn Víking og Ingibjörg mamma hans í afgreiðslunni í Rósakaffi.
Mæðgin Gunnar Harðarson með son sinn Víking og Ingibjörg mamma hans í afgreiðslunni í Rósakaffi. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þau óðu blint í sjóinn þegar þau fóru út í að breyta gróðurhúsi í kaffihús, en það hentar þeim vel að standa saman í því að láta draum mömmu rætast, því þau eru ágætis félagar bæði í leik og starfi.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Alveg frá því Gunnar var lítill og við vorum að teikna saman teiknaði ég alltaf kaffihús drauma minna á meðan hann teiknaði einhverjar fígúrur. Og þegar við fjölskyldan vorum á ferðalögum þá sá ég fyrir mér hér og þar úti um allt land að heppilegt væri að setja upp kaffihús í hinum og þessum húsum,“ segir Ingibjörg Sverrisdóttir sem áratugum saman hefur alið með sér draum um að reka kaffihús, en hún lét drauminn loks rætast í síðasta mánuði þegar hún opnaði Rósakaffi í Hveragerði ásamt syni sínum Gunnari.

„Ég var búin að horfa lengi á þetta gróðurhús með kaffihús í huga. Hér var rósarækt alveg þar til í október á síðasta ári og þegar ég frétti að plássið væri til leigu var ég ekki lengi að taka við mér. Gróðrarstöðin Hverablóm á allt húsið og þau Jóna og Guðmundur eru með rósarækt og gjafavöruverslun í hinum enda hússins, en það er opið á milli og við njótum góðs hvert af öðru undir sama þaki. Við köllum húsið allt rósagarðinn.“

Gömlu hurðirnar úr Eden

Mæðginin Gunnar og Ingibjörg teiknuðu að mestu sjálf upp staðinn, en Sigurður Jakobsson tæknifræðingur sá um útfærsluna. Framkvæmdirnar urðu mun meira mál en þau gerðu ráð fyrir.

„Þetta hefur verið heilmikið átak, en hafðist að lokum. Og það kom sér vel að Gunnar er rafvirki og þekkir marga iðnaðarmenn sem komu að þessu hjá okkur. Ýmislegt á eftir að gera, til dæmis smíða sólarpall við suðurgaflinn svo gestir okkar geti sest út á góðviðrisdögum. Og fljótlega verða settar upp hér inni hurðirnar sem voru í Eden og margir muna eftir, með myndum úr aldingarðinum. Bananaplöntur verða við hlið þessara hurða svo þetta verður að einhverju leyti eins og lítið Eden hérna hjá okkur, enda var ég ráðskona hjá Braga í Eden til tveggja ára á sínum tíma og mér þótti vænt um þann stað. Mér finnst gaman að vísa með þessum hætti í minningar fólks frá Eden, þetta er jú veitingahús inni í gróðurhúsi rétt eins og var þar, og hingað getur fólk komið til að fá sér ís, kaffi, meðlæti eða mat,“ segir Ingibjörg og bætir við að þau fjölskyldan kunni vel við sig í gróðurhúsi, en hún og Óttar eiginmaður hennar voru á sínum tíma með garðyrkjustöð í Hveragerði þar sem þau ræktuðu gúrkur og paprikur. Þar á undan bjó Ingibjörg á Akri í Laugarási í Biskupstungum, þar sem hún var einnig með gróðrarstöð, en Ingibjörg er fædd og uppalin í Hrosshaga í Biskupstungum.

Hamarinn og áin okkar staðir

Gunnar er næstelstur af fjórum börnum Ingibjargar og hann segir að þau tvö, hann og mamma hans, hafi vaðið blint í sjóinn þegar þau fóru af stað með kaffihússframkvæmdirnar.

„Ég fór með mömmu út í þetta svo hún myndi ekki guggna, ég vildi standa með henni og styrkja hana í þessu. Áhugi minn á kaffihúsadraumi hennar hefur aukist við að taka þátt í að láta hann verða að veruleika. Við mæðginin erum ágætis félagar bæði í leik og starfi, svo það hentar okkur vel að standa í þessu saman.“ Ingibjörg bætir við að þau rífist aldrei og að þau tvö hugsi nokkuð líkt. „Við opnum þetta kaffihús með áhuga, bjartsýni og gleði að vopni. Þar liggur drifkrafturinn okkar.“

Gunnar ólst upp í Hveragerði og honum finnst hvergi betra að vera.

„Ég flutti ungur að heiman í bæinn en sneri aftur fyrir ári með konu og tvö börn og settist að í gamla húsinu okkar, þar sem mamma og pabbi bjuggu lengst af og var æskuheimili mitt. Hér er gott að vera með börn og gaman að geta leikið sér úti í náttúrunni. Þegar ég var strákur voru vinsælustu staðirnir til að leika sér á Hamarinn og áin.“

Stórfjölskyldan hjálpast að

Kristrún kona Gunnars er hluthafi í fyrirtækinu og kemur að daglegum rekstri, sér um pantanir og fleira. Systir Kristrúnar starfar einnig á Rósakaffi. Allar dætur Ingibjargar og tengdasynir hafa

hjálpað til og gera enn, og sama er að segja um eiginmanninn. „Við hjálpumst að stórfjölskyldan og mér finnst notalegt að hafa fólkið mitt með mér í vinnunni. Aldraðir foreldrar mínir sem búa hér á Ási rölta stundum til okkar og eru öll af vilja gerð að hjálpa til. Barnabörnin eru líka stundum með, en þau eru orðin sex. Svo skiptumst við Gunnar á að standa vaktina, ég passa litla Víking son hans á meðan hann og konan hans vinna á kaffihúsinu.“

Þau segja viðskiptavinina vera fjölbreyttan hóp, margir þeirra eru heimamenn, Hvergerðingar, en svo koma líka ferðamenn, bæði erlendir og íslenskir. Rútufyrirtækin hafa tekið Rósakaffi fagnandi því þau hefur vantað kaffihús í Hveragerði til að stoppa með ferðamenn.

„Hingað koma margir iðnaðarmenn og annað fólk frá vinnustöðum að borða í hádeginu, og það er líka traffík á kvöldin í matinn. Hér geta sextíu og fimm manns verið í sæti, svo litla kaffihúsið mitt varð heldur stærra en það átti að vera,“ segir Ingibjörg og hlær.

„Hvergerðingar hafa tekið okkur rosalega vel. Ég er sjálf orðin mikill Hvergerðingur eftir að hafa búið hér lengi og kann sérlega vel við mig. Hér búa um 2.400 manns og þetta er eins og þorp, maður þekkir og kannast við marga, mér finnst það notalegt.“