Gísli Hjálmar Brynjólfsson fæddist 1. ágúst 1929 á Eskifirði. Hann lést 23. mars 2017 á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Hann bjó í Vestmannaeyjum fram til ársins 1966 að hann flutti til Hveragerðis, fluttist aftur til Eyja 1993, síðan til Akureyrar 2005. Foreldrar hans voru Hrefna Hálfdánardóttir, f. 17. ágúst 1904 á Oddeyri við Eyjafjörð, d. 8. júlí 1982, og Brynjólfur Einarsson bátasmiður, f. 7. júní 1903 að Brekku í Lóni, d. 11. apríl 1996. Bræður Gísla voru: a) Hálfdan Brynjar Brynjólfsson, f. 1926, d. 1950 við Faxasker í Vestmannaeyjum. Hann lét eftir sig eiginkonu og var barnlaus. b) Vilberg Lárusson, f. 1923, d. 1988, til heimilis að Laufskógum, Egilsstöðum, kvæntur Soffíu Erlendsdóttur, f. 1927, d. 2008. Þau áttu börnin: 1) Þóru, f. 1950, hennar börn eru Kári Valur, f. 1970, Vilberg, f. 1978, d. 1983, og Soffía Tinna, f. 1984. 2) Atla, f. 1954, d. 1978. 3) Hörpu, f. 1956, gift Hafsteini Ólasyni. Þeirra börn eru: Kormákur Máni, f. 1977, og Bergrún, f. 1982. 4) Hrafn, f. 1958. 5) Láru, f. 1963, gift Valgeiri Skúlasyni. Þeirra börn eru: Aldís, f. 1985, og Andrea, f. 1992. 6) Tvíburar andvana fæddir 1964. 7) Gauti, f. 1967, d. 1986. Gísli kvæntist Önnu Sigríði Þorsteinsdóttur ekkju Hálfdáns Brynjars. Hún var fædd 4. júlí 1927 á Akureyri, d. 29. desember 2007. Börn þeirra eru: 1) Hrefna Brynja, f. 1952, gift Snorra Óskarssyni, f. 1952. Börn þeirra eru: a) Íris, f.1968, gift Sindra Guðmundssyni matreiðslumeistara. Börn hennar eru Aron Brynjólfsson, f. 1987, börn hans eru Bæringur Elís og Unnur Signý. Sambýliskona hans er Rakel Pálsdóttir. Gísli Hjálmar Brynjólfsson, f. 1989, sambýliskona hans er Melkolka Bjartmarz. b) Stefnir, f. 1974. Eiginkona hans er Soffía Sigurðardóttir, f. 1977, börn þeirra eru: Snorri, Óskar, og Tinna María. c) Hrund, f. 1975, gift Gísla Sigmarssyni. Börn þeirra eru: Hrefna Brynja, Bryndís og Matthías. d) Brynjólfur, f. 1979, kvæntur Steinunni Steinþórsdóttur. Börn hans eru: Elísabet og Kristleifur. Synir Steinunnar eru: Geir Jón og Víkingur Ómar. e) Anna Sigríður, f. 1982, gift Friðjóni Snorrasyni. Börn þeirra eru: Snorri Karel og Hrafnhildur Hanna. 2) Rannveig, f. 1953, gift Marc Jonathan Haney, f. 1955. Þeirra synir eru: a) Gísli Brynjar Kristinsson, f. 1973, kvæntur Jóönnu Kristinsson. Þeirra synir eru: Gísli Benjamín og Leó Þór. b) Jonathan Yngvi, f. 1982, kvæntur Adrian Haney og þeirra börn eru Jackson Sævar og Ainsly Jona. c) Michel Hreinn, f. 1986. 3) Jón Hreinn Gíslason, f. 1964, póststarfsmaður í Svíþjóð.

Gísli var þekktur fyrir málarastörf og harmónikkuleik.

Útförin var gerð í kyrrþey að ósk Gísla frá Höfðakapellu á Akureyri 29. mars 2017.

Ég ólst upp hjá afa og ömmu fyrstu fimm árin og átti alltaf skjól hjá þeim. Afi hafði alltaf tíma fyrir mig og leyfði mér að fljóta með sér í leik og starfi. Hann bjargaði oft deginum. Þegar ég var sirka fimm ára, hótuðu stelpurnar í nágrenninu að skilja mig út undan. Ég brást við með því að segja að mér væri sko alveg sama því ég ætti sko afmæli næsta dag og þeim væri sko ekki boðið! Daginn eftir, mér til mikillar skelfingar og skammar, bönkuðu þær upp á með fimmtíu kall til að gefa mér í afmælisgjöf. Afi bjargaði málunum með því að fara með okkur allar í ísbíltúr.

Ég vék ekki frá afa þessa tólf daga núna í byrjun mars, þegar hann lá fárveikur á spítalanum. Við spjölluðum mikið og rauluðum saman djassstandardana sem hann hafði kennt mér. Afi tjáði tilfinningar sínar þessa daga, talaði um allt líf sitt. Ég fékk líka tækifæri til að lýsa tilfinningum mínum, þakkaði honum fyrir að hafa verið alltaf til staðar fyrir mig og drengina, fyrir alla hjálpina í gegnum lífið, fyrir að hafa verið kletturinn okkar, minn og drengjanna minna. Ég þakkaði honum fyrir að vera mér fyrirmynd, núna þegar ég sjálf er orðin amma og sagði honum að ég vonast til að geta verið sami kletturinn í lífi barnabarna minna. Hann beygði af. Þegar afi var sem veikastur þá sagði hann veikri röddu við mig: „Ég held að ég komist ekki í gegnum þetta, Íris mín, það væri kraftaverk ef það gerðist.“ Ég svaraði: „Já, afi minn, en trúum við ekki á kraftaverk?“ Hann brosti og fór að raula „I believe in miracle“ lag sem var á einni uppáhalds kórplötunni hans, Kathryn Kuhlman Choir. Ég greip símann minn, fann plötuna í heild sinni á youtube og spilaði fyrir hann. Hann lá þarna með lokuð augun en af og til fór hönd á loft til að stjórna taktinum, eitthvað sem afi gerði alltaf þegar hann hlustaði á tónlist. Ég grét hljóðlega, bæði af sorg út af yfirvofandi missi en ég grét líka af gleði yfir að hafa átt afa Gísla í lífinu mínu. Hann reis upp á ellefta degi, okkur öllum til mikillar furðu! Já, hann trúði á kraftaverk.

Síðasta kvöldið hans á spítalanum, sátum við saman og horfðum á „Nótuna“ í sjónvarpinu, drukkum kvöldkaffi og borðuðum niðurskorið epli. Ég kvaddi afa daginn eftir og fór aftur heim í borgina. Hann hélt mér óvenjulengi í faðmi sínum og hélt fast. Ég sagði honum að ég elskaði hann, hann hélt fastar og þakkaði mér fyrir þessa tólf daga sem ég var hjá honum. Afi dó viku seinna.

Það var okkur Sindra svo mikilvægt að afi skyldi koma í brúðkaupið okkar síðasta sumar, að fá að dansa við eiginmanninn í brúðkaupi okkar við undirleik afa á nikkuna, er svo dýrmæt minning. Elsku afi. Ég græt vegna þess sem var gleði mín. Afi var akkeri mitt og drengjanna minna, skjól, verndari og klettur. Það væri of langt mál að rifja upp allar minningar í einni minningargrein svo ég læt þetta duga, restina geymi ég í hjarta mínu og deili með fjölskyldu minni og barnabörnum þegar þau verða eldri. Ég græt vegna þess sem var gleði mín. Takk fyrir allt, elsku afi minn, ég elska þig.

Þín

Íris.

Hann fæddist á Eskifirði, fluttist til Vestmannaeyja á fimmta ári og hefur síðan kallað sig Vestmannaeying. Hann bjó í Hveragerði í ein 30 ár en hugurinn sótti einatt yfir álinn til Eyjanna fögru.

Mágur Gísla sagði að hann vissi meira um Vestmannaeyjar en flestir aðrir vegna þess hve honum var tamt að segja sögur þaðan.

Á táningsaldri réði hann sig sem sendil hjá Pósti og síma í Vestmannaeyjum og það varð til þess að öll húsanöfn og götunúmer voru honum eins og ógleymanlegir þættir.

Skólagangan gat verið honum þung. Hann átti við talgalla að stríða og gat ekki sagt r á sama hátt og aðrir. Skóladagurinn hófst með því að Gísli var kallaður upp. Þar stóð kennarinn með reglustiku í hönd og sagði honum að segja „r“! Þegar errið kom að hans hætti þá var barið framan á fingurna!! Skóladagurinn endaði með því að hann fór heim með blæðandi fingur og óbreytt r.

Seinna lá leiðin í iðnskólann að læra til málara hjá Engilbert Gíslasyni sem var listamaður í faginu. Hvert sinn sem nafn Engilberts og sona hans bar á góma þá minntist Gísli þessara feðga með aðdáun.

Gísli var mjög músíkalskur og féll vel í hóp tónlistarmannanna í Eyjum. Félagarnir hans voru Árni úr Eyjum, Ási í Bæ, Oddgeir Kristjáns og Kalli Guðjóns. Þeir sameinuðust bæði í tónlist og pólitík. Gísli var látinn frumflytja lagið „Síldarstúlkurnar“ sem enn á mikið pláss í huga Vestmannaeyinga.

Brynjólfur, faðir Gísla var farsæll bátasmiður og smíðaði stærstu trébáta sem smíðaðir hafa verið í Vestmannaeyjum, Helga og Helga Helgason. Helgi fórst á Faxaskeri 7. janúar 1950 og þar fórst bróðir Gísla, Hálfdan Brynjar, þá 24 ára og hafði aðeins verið kvæntur í eina viku.

Gísli kvæntist ekkju bróður síns, Önnu Sigríði Þorsteinsdóttur frá Akureyri og eignuðust þau dæturnar Hrefnu Brynju og Rannveigu. Seinna ættleiddu þau soninn Jón Hrein Gíslason.

Þrátt fyrir sárar minningar inni á milli þá misstu Eyjarnar aldrei aðdráttaraflið í huga Gísla og skörtuðu ljóma ævintýranna í sögum hans.

Jafnaldrar Gísla, árgangur '29, hélt hópinn og hittust oftar en flestir aðrir hópar. Þetta var fjölmennur árgangur og dugði vel enda gekk sá hópur undir nafninu „Sterki stofninn“! Á síðasta afmælisdegi Gísla fékk hann jafnöldru sína í heimsókn, Ástu frá Hlíðardal.

Þá var gleði og fögnuður og þau ræddu um skóladagana og æskuárin. Öllum var ljóst að vináttan milli þeirra var bergmál góðra samskipta við jafnaldra þeirra í gegnum ævina.

Gísli var mikill og góður harmónikkuleikari. Hann reyndi alltaf að mæta á harmónikkumótin á Breiðumýri í Reykjadal þar sem hann gerði mikla lukku. Fyrir 8 árum var gefinn út geisladiskur með harmónikkulögunum hans og þar má glöggt kenna að tónlistin og lagavalið var í höndum snillings.

Þennan mann kveðjum við nú í kyrrþey og þakklæti fyrir ljúfa og góða samfylgd.

Snorri í Betel.