Eignaborgarmenn F.v. talið; Jóhann Hálfdánarson Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Óskar Bergsson og Vilhjálmur Einarsson. Sá síðastnefndi hefur starfað við fyrirtækið frá árinu 1977.
Eignaborgarmenn F.v. talið; Jóhann Hálfdánarson Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Óskar Bergsson og Vilhjálmur Einarsson. Sá síðastnefndi hefur starfað við fyrirtækið frá árinu 1977. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýir eigendur eru um þessar mundir að taka við rekstri fasteignasölunnar Eignaborgar í Kópavogi. Þeir Vilhjálmur Einarsson og Jóhann Hálfdánarson, báðir lögg. fasteignasalar, hafa selt fyrirtækið til þeirra Sveinbjörns Sveinbjörnssonar hdl.

Nýir eigendur eru um þessar mundir að taka við rekstri fasteignasölunnar Eignaborgar í Kópavogi. Þeir Vilhjálmur Einarsson og Jóhann Hálfdánarson, báðir lögg. fasteignasalar, hafa selt fyrirtækið til þeirra Sveinbjörns Sveinbjörnssonar hdl. og Óskars Bergssonar, sem taka formlega við rekstrinum hinn 1. maí næstkomandi. „Okkur fannst kominn tími til að hætta, enda vinnur kennitalan gegn okkur og árunum fjölgar,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið.

Kópavogur er heimavöllur

Óhætt er að segja að rekstur Eignaborgar hafi verið farsæll. Vilhjálmur stofnaði fyrirtækið við annan mann árið 1977. Sá hvarf til annara starfa fáum árum síðar og þá kom Jóhann inn í söluna sem meðeigandi. „Við höfum einbeitt okkur að sölu notaðra eigna og Kópavogur hefur alltaf verið okkar heimavöllur. Árin í kringum 1980 voru tími mikillar uppbyggingar og fólksfjölgunar í bænum og því fylgir að sjálfsögðu að markaður með fasteignir er líflegur. Annars ganga viðskiptin svolítið í bylgjum, stundum er salan góð en dalar svo. Stundum er sagt að í viðskiptalífinu séu sjö ár milli toppanna og raunin er svipuð varðandi fasteignamarkaðinn,“ segir Vilhjálmur sem verður, rétt eins og Jóhann, viðloðandi starfsemi Eignaborgar fram eftir árinu.

„Eignaborg er fasteignasala sem nýtur trausts og það segir sitt að kennitalan hefur alltaf verið hin sama. Það er gott bú sem við tökum við,“ segir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem um árabil hefur rekið lögmannsstofu í Kópavogi og er einnig með réttindi lögg. fasteignasala. Óskar Bergsson er um þessar mundir að afla sér þeirrar gráðu eftir að hafa starfað við sölu fasteigna mörg undanfarin ár. Um hríð var hann borgarfulltrúi í Reykjavík, en hefur sinnt fjölmörgum öðrum störfum í tímans rás.

Litlar íbúðir vantar

Staðan á fasteignamarkaði í dag er um margt óvenjuleg, að mati Óskars. Fjöldi íbúða hafi verið tekinn undir gistiþjónustu auk þess sem alltof lítið hafi verið byggt af íbúðarhúsnæði mörg undanfarin ár. Það séu meginskýringarnar á húsnæðiseklu sem nær langt út fyrir höfuðborgarsvæðið.

„Eftirspurnin er til staðar en eignirnar vantar, þá sérstaklega litlar íbúðir í fjölbýli sem kosta 33-35 milljónir króna og henta ungu fólki sem er að kaupa sína fyrstu eign. Ef við fáum meira af slíkum fasteignum inn þá rúllar annað á markaðnum af sjálfu sér,“ segir Óskar sem telur mikilvægt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu leggi meiri áherslu á úthverfin og uppbyggingu þeirra. Í starfsemi Eignaborgar segist hann þó vilja horfa til allra átta og meðal annars út á land. Þangað hafa þeir Sveinbjörn báðir tengsl og hafa áhuga á sölu lóða, landa og búreksturs í sveitum landsins.

sbs@mbl.is