Jónas Breki Magnússon
Jónas Breki Magnússon
Viðhorf Andri Yrkill Valsson Galati „Það verður sigur fyrir Ísland að forðast fall úr deildinni.“ Svona var hugarfar margra um möguleika Íslands á HM í íshokkí sem klárast í Galati í Rúmeníu á morgun.

Viðhorf

Andri Yrkill Valsson

Galati

„Það verður sigur fyrir Ísland að forðast fall úr deildinni.“ Svona var hugarfar margra um möguleika Íslands á HM í íshokkí sem klárast í Galati í Rúmeníu á morgun. Með sjö nýliða í hópnum og svokallaða stjörnuleikmenn fjarverandi var ekki búist við neinu af liðinu, en frammistaðan hefur komið mörgum á óvart sem ekki hafa fundið fyrir þeirri liðsheild sem skapast hefur í Galati.

Ísland mætir Serbíu í lokaleik sínum á morgun og það þarf mikið að fara úrskeiðis ef sigur tryggir ekki verðlaunasæti. Ísland hefur ekki unnið til verðlauna í þrjú ár og það væri því einstaklega sætt að hafa viðurkenningu um hálsinn miðað við þá umræðu sem átti sér stað fyrir mót. En átti þessi frammistaða eitthvað að koma á óvart?

Í sjálfu sér ekki, og í því samhengi verður að spyrja sig hvenær nýliðar eiga eiginlega að fá tækifærið á stóra sviðinu. Fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson og Jónas Breki Magnússon voru báðir 18 ára þegar Ísland fór fyrst á HM árið 1999, og svo er verið að efast um jafnaldra þeirra í dag. Hvernig eigum við að fá upp þá leikmenn sem eiga að verða þeir reyndustu næstu árin ef þeir fá aldrei tækifæri? Það er spurning sem þarf að spyrja sig í öllum hópíþróttum og sama hvernig fer gegn Serbíu á morgun var rétt ákvörðun að gefa yngri leikmönnum tækifærið hér í Rúmeníu.

Allt eða ekkert á morgun

Fyrir lokaumferðina á morgun er Rúmenía með 9 stig í efsta sætinu eftir sigur gegn Ástralíu í gær. Ástralar eru með 8 stig, Belgar og Íslendingar 6 og þar á eftir koma Serbar með 5 stig og Spánverjar 2 stig. Miðað við úrslitin til þessa á mótinu er erfitt að ráða í leikina á morgun en það er ljóst að ekkert nema sigur auk hagstæðra úrslita dugar Íslandi til verðlauna.

Tap fyrir Serbíu á morgun mun vissulega varpa skugga á þetta mót og væri það sérstaklega miður að magnaðrar frammistöðu gegn gestgjöfum Rúmeníu þyrfti að vera minnst á mótinu þar sem Ísland hafnaði enn einu sinni í næstneðsta sæti.

Rassskelling eins og gegn Belgíu í gær getur ekki annað en dugað strákunum til þess að berjast fram á síðustu sekúndu í lokaleiknum og halda í vonina um verðlaun. Sama hvernig fer verður þetta mót þó vonandi lengi í minnum haft sem markaði upphaf nýrrar kynslóðar leikmanna sem munu smátt og smátt taka við keflinu og verða reynsluboltar framtíðarinnar.