Sem endranær er gátan eftir Guðmund Arnfinnsson: Kannski er þetta kötturinn. Kannski fiskur smávaxinn. Kannski íþrótt ævaforn. Ellegar þá telpukorn.

Sem endranær er gátan eftir Guðmund Arnfinnsson:

Kannski er þetta kötturinn.

Kannski fiskur smávaxinn.

Kannski íþrótt ævaforn.

Ellegar þá telpukorn.

Árni Blöndal svarar:

Svarið ekki veldur vanda

víst er lausnin tær

að mér sækir bara„ branda“

sem birtist hér í gær.

Helgi R. Einarsson á þessa lausn:

Lausnarorð, sem leynist hér,

lét fyrst á sér standa.

Svo birtist allt í einu mér

ofurlítil branda.

Guðrún Bjarnadóttir leysir gátuna þannig:

Kemur kötturinn Branda,

kannski bröndunni landar.

Í einni bröndóttri andar

einbeitt branda, hún Vanda.

Þessi er skýring Guðmundar:

Bröndu kisu kalla má.

Kallast branda lonta smá.

Branda er íþrótt býsna forn.

Branda er líka telpukorn.

Þá er limra:

Er Komákur kom af heiðinni

og Kolfinnu mætti á leiðinni,

hann færði´ enni bröndu,

sem fékk hann úr Blöndu,

þau fengu ekki leiða á reyðinni.

Og ný gáta eftir Guðmund:

Fram úr bóli fer ég snart,

fyrir löngu er orðið bjart,

hafa má nú hraðan á,

hér er gátan, ráddu þá!

Á höfði menn bera til hlífðar sér.

Hangir í loftinu hjá mér.

Blettur í hestsins auga er.

Alþekktur klerkur nafnið ber.

Hjörleifur Hjartarson á Tjörn í Svarfaðardal átti afmæli og skrifaði á Facebook á fimmtudag:

Mér fallast hreinlega hendur

og hjarta mitt glaðar slær

því fésbókarvinir- og féndur

fögnuðu mér í gær.

Gunnar J. Straumland yrkir á Boðnarmiði:

Er þið hlustið heiminn á

hræðist tungu þjála,

því alhæfingar aldrei ná

innsta kjarna mála.

Ef þú villist auðnu frá

utan tímans línu,

áttavita áttu þá

innst í hjarta þínu.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is