Anna Þorbjörg Víglundsdóttir fæddist 13. júní 1928 í Reykjavík. Hún lést 16. mars 2017 í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru Guðrún Lára Gísladóttir frá Keflavík á Hellissandi og Víglundur Guðmundsson. Anna átti eina hálfsystur sammæðra, Jónasínu Þóreyju Guðnadóttur, f. 1935. Anna giftist árið 1947 Hjálmari A. Stefánssyni, trésmiði úr Skagafirði. Hann fæddist árið 1926 og lést 5. desember 2016. Börn þeirra eru: 1) Stefán Gunnar, fæddur 1948; 2) Ásbjörn, fæddur 1949, eiginkona Guðrún Sigurðardóttir; 3) Dagný Mjöll, fædd 1951; 4) Oddný Sigurrós, fædd 1956, eiginmaður Jónas Óli Egilsson; 5) Gunnar Lárus, fæddur 1965, eiginkona Bjarnveig Magnúsdóttir; og 6) Hjálmar Þorbjörn, fæddur 1968, dó sama ár. Anna ólst upp hjá frændum sínum á Ísafirði til 17 ára aldurs þegar hún flutti til Reykjavíkur og varð frammistöðustúlka á Hótel Vík. Hún greindist með berkla en náði bata á Vífilsstöðum. Þaðan lá leiðin til Reykjalundar í endurhæfingu. Þar kynntist hún eiginmanni sínum. Þau stofnuðu heimili í Mosfellssveit, en fluttu í Kópavog árið 1961. Síðustu árin bjuggu þau á Snorrabraut 56 B. Anna sinnti börnum og búi lengi vel en fór svo út á vinnumarkaðinn. Hún gerðist ræstitæknir og síðar gangavörður í Digranesskóla. Þar vann hún til sjötugs. Á efri árum eignuðust þau Hjálmar sumarhús í Miðfellslandi við Þingvallavatn og dvöldu þar löngum stundum yfir sumarið. Einnig ferðuðust þau talsvert til sólarlanda.

Útför Önnu var gerð frá Fossvogskapellu 28. mars 2017.

Þá er elsku amma okkar farin og þó að sár söknuðurinn brjótist um í brjósti þá getum við líka verið þakklát að henni hefur orðið að ósk sinni um að sameinast elsku afa okkar sem lést í desember á síðasta ári. Þar missti amma ástina sína og klett sinn til 70 ára. Eins og gerist oft þegar makamissir verður á efri árum þá dvínar lífsviljinn og heilsunni hrakar og verður þráin til að sameinast ástinni sinni á ný oft sterkari. Hlýjan og velviljinn sem amma sýndi mér og öðrum var þó alltaf til staðar eins og þegar hún hlýjaði köldum höndum mínum þegar ég heimsótti hana á Landakot eða þegar hún hafði áhyggjur að mér yrði kalt af því að ég var ekki með trefil. Þær eru óteljandi stundir sem þessar þar sem manngæska og glaðlyndi ömmu hlýjaði mér og öðrum ástvinum um hjartaræturnar. Það er fyrst og fremst þakklæti í hjarta mínu fyrir þá gjöf að hafa átt jafnelskulegt fólk fyrir ömmu og afa. Ég hef lært mikið af því að fylgjast með þeirra sambandi þar sem óeigingirni, virðing og traust ríkti ævinlega. Hjörtu þeirra hafa svo lengi slegið í takt að það er skiljanlegt og fullkomlega náttúrulegt að heilsu ömmu hafi hrakað eftir að missa helming af sjálfri sér sem afi var óneitanlega. Samband þeirra og hlýjan sem þau gáfu alltaf frá sér fyllir brjóstið af von um að heimurinn sé fallegur. Og amma þú varst svo falleg.

Hjálmar Sigurður.

Elsku fallega amma mín hefur nú kvatt. Eins sárt og það er að hún sé ekki lengur hér með sitt fallega bros og hlýjan faðminn, reyni ég að gleðjast í hjarta mínu fyrir hennar hönd. Hún þráði ekkert heitar en að fara til afa. Hann beið hennar á hvítum hesti, það var hún alveg viss um og nú hafa þau sameinast á ný. Þvílík gleðistund sem það hefur verið. Mikið sem þau afi voru heppin að eiga hvort annað og geta notið lífsins saman öll þessi ár. Það eru svo sannarlega forréttindi.

Elsku amma mín, hún var svo góð við mig. Þrátt fyrir alla mína galla og alla mína erfiðleika, þá stóð hún með mér og var stolt af mér. Hún hafði svo mikla trú á mér, sem kom mér lengra en ég þorði að vona og ég mun halda ótrauð áfram. Hún hafði sjálf upplifað ótrúlegustu hluti sem ég vissi ekki af fyrr en fyrir nokkrum árum. Þá sátum við í sumarbústað þeirra afa á Þingvöllum og hún sagði mér sína sögu. Svakalega er ég þakklát fyrir að hafa fengið að heyra hana. Takk, elsku amma mín, fyrir þína góðmennsku og þitt stóra fordómalausa hjarta.

Við Ingvar eigum heilan banka af yndislegum og fallegum minningum sem við getum yljað okkur við um ókomna tíð.

Erna Hanna.

Mikið er ég þakklátur fyrir þennan tíma sem ég hef fengið að njóta þín og hafa í mínu lífi, elsku Anna. Aldrei hef ég kynnst manneskju eins og þér með jafnmikla hlýju og ást til að gefa og deila.

Þú máttir aldrei neitt aumt sjá og allir voru jafnir fyrir þér. Þegar ég kom fyrst inn í þessa fjölskyldu þá tókst þú á móti mér eins og ég hafi í raun alltaf verið þarna, falinn í næsta herbergi. Ég hef aldrei upplifað mig jafnvelkominn neins staðar og þegar ég kom í kaffi til þín og áttum við margar yndislegar stundir saman á Snorrabrautinni.

Þú og Hjálmar gáfuð mér og minni fjölskyldu svo mikið af ykkur og sama hversu oft ég sagði ykkur frá því eða reyndi að gera því skil hversu mjög þið skiptið mig og mína máli þá slóguð þið bara á létta strengi og sneruð umræðunni í eitthvað annað. Þið voruð svo hógvær og nægjusöm.

Ég mun gera mitt besta til að heiðra minningu ykkar með því að gefa af mér það sem þið gáfuð af ykkur, þolinmæði, skilning og samkennd.

Ég mun einnig sjá til þess að börnin mín muni alltaf eftir löngu og langa á Snorrabrautinni.

Hvíl í friði, elsku Anna.

Funi Magnússon.

Lögmálið vinnur sitt verk og vinir berast burt með tímans straumi. Nú hefur góð vinkona okkar, Anna Þorbjörg Víglundsdóttir, kvatt hið jarðneska tilverusvið. Seint á liðnu ári andaðist elskulegur bróðir minn, Hjálmar Alexander Stefánsson, eiginmaður Önnu, og nú hefur hún sjálf verið kvödd til sinnar hinstu ferðar og heldur sömu leið og lífsförunauturinn yfir móðuna miklu. Leiðir þessara heiðurshjóna lágu saman á Reykjalundi um miðja síðustu öld, þegar bæði voru ung, og bundust þau þar þeim tryggðarböndum sem entust til æviloka. Anna og Hjálmar stofnuðu fyrst heimili í Mosfellssveit, en fluttust síðan í Kópavog, þar sem þau áttu heima meginhluta starfsævi sinnar. Þau tóku sér margt fyrir hendur og voru dugleg og útsjónarsöm og sívinnandi, enda veitti ekki af til að sjá búi og börnum farborða. Með dugnaði sínum og eljusemi komust þau með tímanum allvel af og einkum blómstraði hagur þeirra eftir að þau hófu að reka innrömmunarstofuna Tempó í Kópavogi sem þau starfræktu um langt árabil.

Eftir að börnin þeirra voru uppkomin og höfðu haslað sér völl á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins tók nokkuð að hægjast um í daglegri lífsbaráttu þeirra hjónanna, Önnu og Hjálmars. Meðal annars tókst þeim þá að eignast indælan sumarbústað á austurbakka Þingvallavatns, þar sem þau dvöldust gjarna marga sólríka daga og vikur á efri árum sínum. Síðustu æviárin færðist meiri kyrrð yfir líf þessara dugmiklu hjóna og heilsu þeirra hrakaði eins og gengur. En þá nutu þau stuðnings og hjálpsemi barna sinna og allt gekk vel um skeið. Svo féll Hjálmar frá eins og fyrr sagði og þá má vera að Önnu hafi boðið í grun sem hennar brottfarartími væri ekki langt undan. Við Guðrún og börn okkar höfðum löngum mikið og gott samband við Önnu og Hjálmar sem og börn þeirra, enda tengdumst við þeim nánum fjölskylduböndum. Áttum við marga ánægjustund með því góða fólki bæði fyrr og síðar. Fyrir þau góðu kynni og alla vináttu þökkum við nú á kveðjustund heiðurskonunnar Önnu Þ. Víglundsdóttur og sendum börnum þeirra, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Önnu Þ. Víglundsdóttur.

Jón R. Hjálmarsson.