Eyjólfur Árni Rafnsson
Eyjólfur Árni Rafnsson
Í viðtali við nýjan formann Samtaka atvinnulífsins í Viðskiptamogganum á fimmtudag má lesa athyglisverða lýsingu á afleiðingum óhóflegrar hækkunar tryggingagjaldsins í tíð vinstri stjórnarinnar.

Í viðtali við nýjan formann Samtaka atvinnulífsins í Viðskiptamogganum á fimmtudag má lesa athyglisverða lýsingu á afleiðingum óhóflegrar hækkunar tryggingagjaldsins í tíð vinstri stjórnarinnar.

Þar segir Eyjólfur Árni Rafnsson um hækkun tryggingagjaldsins: „Ég þekki það vel frá því ég starfaði fyrir Mannvit. Þegar tryggingagjaldið var hækkað verulega eftir hrun urðum við að segja upp 20 manns vegna þess að skattheimtan jókst líklega nálægt hundrað milljónum króna við hækkunina. Það var því ekkert annað hægt að gera í stöðunni. Þessi skattur kom sér því afar illa fyrir fyrirtækið og þá sem misstu vinnuna.“

Þetta er aðeins eitt dæmi af fjölmörgum um afleiðingar skattahækkana vinstri stjórnarinnar sem stuðluðu að meira atvinnuleysi og meira langvarandi atvinnuleysi en þurft hefði að dynja á þjóðinni í kjölfar falls bankanna.

En það er einnig alvarlegt að síðan hefur hækkunin ekki gengið til baka nema að hluta til.

Eins og Eyjólfur Árni bendir á er tryggingagjaldið enn 6,85%, eftir að hafa verið hækkað í 8,65%, en fyrir bankafallið var það 5,34%.

Tryggingagjaldið er því enn dragbítur á atvinnulífið, rýrir afkomu fyrirtækja og kjör almennings.

Og enn er óljóst hvort og hversu mikið gjaldið verður lækkað. Hvernig má það vera?!