Íslenzka Starfsmenn Íslenzku húðflúrstofunnar búast við að flúra þó nokkra gesti Fanfest í dag.
Íslenzka Starfsmenn Íslenzku húðflúrstofunnar búast við að flúra þó nokkra gesti Fanfest í dag. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is EVE Fanfest er nú í fullum gangi í Hörpu og hafa gestir alls staðar að úr heiminum lagt leið sína til landsins á hátíðina.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

EVE Fanfest er nú í fullum gangi í Hörpu og hafa gestir alls staðar að úr heiminum lagt leið sína til landsins á hátíðina. Á hátíðinni er að finna ýmsa viðburði fyrir spilendur leikja CCP og er gestum og gangandi einnig boðið upp á að fá sér húðflúr á efri hæð Hörpu. Húðflúr hafa verið hluti af hátíðinni áður, en þetta er í fyrsta skipti sem Íslenzka húðflúrstofan tekur þátt í Fanfest. Á borðinu mátti sjá sérstök húðflúr sem tengd eru leikjum CCP, en Fjölnir Bragason húðflúrlistamaður segir hins vegar mögulegt fyrir spilara að fá ýmislegt annað sem ekki sé endilega á borðinu.

Fjölnir segir að fólk þurfi að hafa samband fyrir fram og senda hugmyndir í gegnum Facebook svo hægt sé að vinna úr þeim. Stærri og flóknari hugmyndir krefjist meiri búnaðar en þess sem hafi komið meðferðis í Hörpu. „Við gætum þá unnið hugmyndirnar um kvöldið og fólk mætt morguninn eftir. Við erum ekki með allar græjurnar með okkur hérna,“ bætir hann við.

Hátíðin endar á veislu í kvöld

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið CCP stendur að hátíðinni, en þar mætast spilarar og starfsmenn fyrirtækisins til að ræða saman um EVE-tölvuleikjaheiminn og margt annað sem tengist CCP og leikjum þess. Hátíðin hefur verið vinsæl undanfarin ár og hafa fleiri spilarar sótt hana, m.a. þeir sem spila sýndarveruleikatölvuleikinn EVE Valkyrie. Þá eru notendur með sýndarveruleikagleraugu á sér á meðan þeir spila, en keppt var í EVE Valkyrie á hátíðinni í fyrra. CCP hefur á síðustu árum einblínt á sýndarveruleikann, ekki bara með Valkyrie og Gunjack-leikjunum, heldur er fyrirtækið að þróa íþróttaleik.

Margt var um manninn á hátíðinni í gær og var meðal annars LARP-leikur (e. Live Action Role Play) fyrir gesti. Fyrirlestrar voru í boði allan daginn, bæði á vegum starfsmanna og spilara.

Veislunni lýkur í kvöld

Þá var einnig boðið upp á að spila EVE Valkyrie og EVE Online á svæðinu. Hátíðinni lýkur í kvöld og getur almenningur keypt sér miða á lokaveisluhöldin. Þar mun DJ Kristian Nairn, sem lesendum gæti verið kunnugur sem Hodor úr Game of Thrones-þáttunum, þeyta skífum ásamt Permaband og Hermigervli.