Veistu hvað rekstur íslenska ríkisins mun kosta næstu fimm árin? Nei, að sjálfsögðu ekki, það pælir enginn í því.

Veistu hvað rekstur íslenska ríkisins mun kosta næstu fimm árin? Nei, að sjálfsögðu ekki, það pælir enginn í því. Staðreyndin er hins vegar sú, sé mið tekið af fjármálaáætlun þeirri sem Alþingi samþykkti í vikunni, að heildarútgjöld ríkissjóðs munu nema 6.189,4 milljörðum króna á árabilinu 2018-2022. Það eru um það bil 6,2 milljónir milljóna á tímabilinu, eða tæpir 1.238 milljarðar að jafnaði á ári hverju.

Þetta eru miklar fjárhæðir sem erfitt er að setja í samhengi við annað sem við þekkjum, en það skýrist ekki síst af því hversu umsvifamikill hinn opinberi rekstur er og hann fer sífellt vaxandi. Auk þess er ástæða til að gjalda varhug við þessum tölum, enda kennir reynslan að útgjöld ríkisins reynast einatt meiri en áætlanir gera ráð fyrir. Árið 2020 verður kosið til Alþingis í síðasta lagi og því má gera ráð fyrir því að í fjárlögum fyrir það ár, sem samþykkt verða undir árslok 2019, verði gefið í og tilraun gerð til að mæta flestum þeim óskum sem fram koma um aukið fjármagn til heilbrigðisþjónustu, menntakerfisins og annarra grunnstoða samfélagsins.

Hin gríðarmiklu útgjöld ættu hins vegar að slá á raddir sem halda því fram að á Íslandi sé rekin frjálshyggjustefna sem miði að því að skera ríkisbúskapinn sem mest niður eða að ekki sé mikið lagt til „samneyslunnar“, eins og það er gjarnan kallað af þeim sem telja fjármunum borgaranna best borgið í höndum ríkisvaldsins.

Og talandi um frjálshyggjugrýluna sem ýmsir virðast hafa á heilanum. Í fjárstreymisyfirliti sem gefið hefur verið út í tengslum við fjármálaáætlunina fyrrnefndu kemur í ljós að „félagslegar tilfærslur til heimila“ á tímabilinu sem áætlunin er í gildi muni nema 1.077 milljörðum króna! Hefur einhver talað gegn þessari „tilfærslu“ opinberlega? Staðreyndin er sú að enginn hefur gert það og það ætti að slá á umræðu um frjálshyggjuríkið Ísland, sem aldrei hefur verið til nema í verkfærakössum áróðursmeistara vinstriflokkanna.

En hvernig skyldi nú ríkissjóður standa straum af þeim mikla kostnaði sem hann hyggst leggja út í á komandi árum? Hvert hyggst ríkisvaldið sækja sex milljón milljónir á næstu fimm árum? Það er gert til fyrirtækja og einstaklinga í formi skattheimtu. Þannig hyggst fjármálaráðuneytið innheimta 5.200 milljarða í formi skatta á árabilinu 2018-2022 og tryggingagjöld eiga að skila 530 milljörðum yfir sama tímabil. Það sem upp á vantar verður að mestu leyst með „öðrum tekjum“ ríkissjóðs, en þar eru á ferðinni arðgreiðslur og tekjur af sölu ríkiseigna.

Flestir hljóta að taka undir að upphæðirnar sem hér hafa verið nefndar séu svimandi háar. Í því tilliti verður þó að taka með í reikninginn að inni í þeim eru ekki rekstrartölur sveitarfélaganna, sem með sama valdboði og ríkissjóður sækja tekjur sínar að mestu í gegnum tekjur af útsvari. Á fyrrgreindu tímabili er gert ráð fyrir að útsvarstekjur nemi ríflega 530 þúsund milljónum króna. ses@mbl.is

Stefán Einar Stefánsson