Systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir voru dæmdar í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun fyrir að hafa gert tilraun til að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, í maí árið 2015.

Systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir voru dæmdar í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun fyrir að hafa gert tilraun til að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, í maí árið 2015.

Níu mánuðir af tólf eru skilorðsbundnir en systurnar geta á grundvelli laga um fullnustu refsinga sótt um að sinna samfélagsþjónustu í stað fangelsisvistar. Er í dómnum m.a. vísað til þess að þær hafi þurft að þola óvægna fjömiðlaumfjöllun.

Þær voru einnig dæmdar fyrir fjárkúgun gegn fyrrverandi samstarfsmanni Hlínar. Kröfðu þær hann um 700 þúsund krónur með hótun um að kæra hann fyrir nauðgun. Systurnar neituðu báðar sök í þeim þætti málsins en dómurinn segir sannað að þær hafi beitt manninn nauðung sem ekki eigi rétt á sér.

Í þeim þætti málsins er varðaði fjárkúgun gegn Sigmundi Davíð játaði Hlín að hafa gert tilraun til að kúga fé út úr honum en Malín neitaði sök um samverknað en játaði hlutdeild í málinu. Í dómi héraðsdóms segir hins vegar, að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að Malín hafi reynt að fá Hlín ofan af áætlunum sínum en hún hafi heyrt fyrst af hugmyndinni 20 dögum áður en þær voru handteknar.

Lögreglan handtók systurnar á Krýsuvíkurvegi í Hafnarfirði í maí 2015. Höfðu þær þá sótt pakka í tösku sem skilin hafði verið þar eftir og þær töldu innihalda átta milljónir króna. Féð höfðu þær farið fram á að Sigmundur greiddi gegn því að þær héldu upplýsingum leyndum um meinta aðkomu hans að fjárhagsmálum útgáfufélagsins Vefpressunnar.

Þær Malín og Hlín voru einnig dæmdar til að greiða málsvarnarlaun, miskabætur, þóknun réttargæslumanns brotaþola og annan sakarkostnað alls tæpar 10,5 milljónir króna.