Guðmundur Magnússon fæddist á Siglufirði 24. febrúar 1929. Hann lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 28. mars 2017.

Foreldrar Guðmundur voru hjónin Antonía Erlendsdóttir, f. 1901, d. 1987, og Magnús Baldvinsson, f. 1895, d. 1956. Systkini Guðmundar voru Baldvina, Erla Guðlaug, Haraldur, Erlendur og Hreinn. Þau eru öll látin nema Haraldur, sem búsettur er á Akureyri. Guðmundur kvæntist 24. september 1955 Sigríði Benediktu Jónsdóttur frá Akureyri en Sigríður lést 1. júlí 2005. Foreldrar Sigríðar voru Rannveig Sigurðardóttir, f. 1888, d. 1971, og Jón Sigurðsson, f. 1889, d. 1955. Börn Guðmundar og Sigríðar eru: 1) Jóna, f. 1956, búsett í Reykjavík, maki Þórólfur Geir Matthíasson og eiga þau tvær dætur og fimm barnabörn. 2) Magna, f. 1957, búsett á Akureyri, maki Úlfar Björnsson og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn. 3) Guðmundur Baldvin, f. 1962, búsettur á Akureyri, maki Soffía Gísladóttir og eiga þau samtals 7 börn og eitt barnabarn. 4) Rannveig Antonía, f. 1966, búsett í Kópavogi, maki Vilhjálmur Grímsson og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn.

Guðmundur lærði bifreiðasmíði við Iðnskólann á Akureyri og vann við iðn sína fyrri hluta starfsævinnar og rak m.a. í samstarfi við aðra verkstæðið Stáliðn á Akureyri. Hann rak um tíma Eyrarbúðina á Akureyri ásamt eiginkonu sinni en starfaði frá miðjum áttunda áratugnum hjá Kaupfélagi Eyfirðinga, fyrst sem verslunarstjóri, lengst af í Höfðahlíðinni, og síðar á skrifstofu félagsins allt þar til hann fór á eftirlaun. Guðmundur starfaði um árabil með Leikfélagi Akureyrar og sat m.a. í stjórn félagsins í 15 ár, fyrst sem gjaldkeri og síðar formaður. Hann var heiðursfélagi Leikfélagsins. Guðmundur var alla tíð virkur félagi í Góðtemplarareglunni á Akureyri og var gerður að heiðursfélaga Stórstúku Íslands IOGT.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Guðmundur Magnússon, tengdafaðir minn, er látinn. Hann var á báðum áttum þegar hann kvaddi, en þannig komst hann svo skemmtilega að orði þegar hann fagnaði 88 ára afmælinu hinn 24. febrúar síðastliðinn. Hann hélt upp á afmælið á Hlíð og bauð upp á alvöru gamaldags rjómatertu. Viðburðurinn var auglýstur á facebook, enda Mundi þátttakandi á þeim samfélagsmiðli. Hann var orðinn tæknivæddur á gamals aldri, átti góða tölvu, nýjan snjallsíma, snjallúr og rauða rafmagnsskutlu sem hann ók um á góðum dögum í nágrenni við Hlíð.

Við Mundi náðum ekki alveg einum áratug á okkar samleið, en mér finnst samt eins og við höfum alltaf þekkst, enda tekur það ekki nema stutta stund að kynnast ef kynnin eru góð frá fyrstu stundu. Þannig voru okkar kynni, þau voru góð, það var eitthvert blik sem tengdi okkur saman þegar Mundi minn kynnti okkur. Mundi eldri var heyrnarskertur og því var best að ná honum einum og sér í spjall. Ég var forvitin um hans fyrra líf og ég var forvitin um hana Siggu sem ég náði ekki að kynnast. Sigga lést þremur árum áður en ég kom inn í fjölskylduna svo ég varð að treysta á frásagnir til þess að átta mig á henni. Það voru notalegar stundir þegar hann rifjaði upp líf þeirra hjóna, hvernig þau kynntust og hvert þau ferðuðust. Hann hélt heiðri hennar á lofti. Sigga var stóra ástin hans.

Mundi fylgdist vel með og tók virkan þátt í umræðunni um málefni líðandi stundar. Hann hafði lesið fréttirnar í tölvunni og svo voru málin rædd og krufin og ekki síst pólitíkin. Mundi lagði á það áherslu að mæta á kjörstað þegar kosið var, þá klæddum við okkur upp á og fórum að kjósa, það var mikilvægt.

Munda þóttu svið góð og á okkar heimili voru haldnar sviðaveislur honum til heiðurs. Annars þótti honum best að vera heima hjá sér á Hlíð. Þar leið honum vel. Þangað hafði hann flust í desember fyrir rúmum fjórum árum og leit strax á Hlíð sem heimili sitt. Þar var vel um hann hugsað og hann tengdist starfsfólkinu vinaböndum. Starfsstúlkurnar, eins og hann kallaði þær, sinntu honum sérstaklega vel og komu fram við hann eins og jafningja og vin. Þær kenndu honum á samfélagsmiðlana og grínuðust í honum, það kunni hann að meta, enda skein hann eins og sól í heiði þegar hann umgekkst þær. Ég vil þakka fyrir þá einstöku umönnum sem hann Mundi fékk á Hlíð.

Ég hitti Munda síðast tveimur dögum fyrir andlátið. Þá hvarflaði ekki að mér að það yrði okkar síðasti fundur. Oft barst lífið og tilveran í tal og þennan sunnudag sagði hann einu sinni sem oftar, „já nú fer þetta að styttast“. Ég brosti nú bara og sagði honum að hann ætti eftir að halda upp á mörg afmælin og koma oft með okkur á kjörstað því svo hress var hann. Við kvöddumst með kossi eins og vanalega, hann sat í stólnum sínum, nýklipptur og myndarlegur og ég sendi honum fingurkoss áður en ég hallaði hurðinni. Það er góð minning.

Hvíl í friði, elsku tengdapabbi.

Soffía Gísladóttir.

Það saxast á hópinn sem lauk gagnfræðaprófi við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar vorið 1945. Guðmundur Magnússon frá Siglunesi er látinn. Ungir störfuðum við Guðmundur í barnastúkunni Eyrarrós. Þóra Jónsdóttir stýrði starfinu af röggsemi og skörungsskap. Við lærðum að starfa í félagi, hlíta fundarreglum, annast skemmtiatriði, vinna saman að háleitum hugsjónum með virðingu fyrir því besta og fegursta sem lífið gefur hverjum manni. Við áttum að berjast gegn öllu því sem spillir og skemmir líkama og sál. Og gamlir menn vorum við enn góðtemplarar, tengdir hugsjóninni um fagurt mannlíf, bjuggum enn að veganestinu frá Þóru Jónsdóttur á Á.

Guðmundur Magnússon var hugsjónamaður. Hann var um langan aldur í forystusveit góðtemplara á Akureyri. Það var öflugt lið sem kom víða við, rak hótel og kvikmyndahús og fleiri fyrirtæki. Merkasta afrekið var þó að eignast hið sögufræga Friðbjarnarhús, koma í veg fyrir að það drabbaðist niður, gera það fallega upp og búa í hendur næstu kynslóða. Það sómir sér vel í Fjörunni þar sem sagan er lifandi veruleiki við hvert fótmál. Guðmundur lét til sín taka á fleiri sviðum. Hann var til að mynda ötull stuðningsmaður leiklistar og um tíma formaður Leikfélags Akureyrar.

Fyrir meira en aldarfjórðungi sátum við Guðmundur og eiginkonur okkar norrænt góðtemplaranámskeið í Vasa í Finnlandi. Á heimleiðinni nutum við fallegra daga í Helsingfors, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. Hjónin voru góðir og skemmtilegir ferðafélagar en Guðmundur var vel kvæntur Sigríði Jónsdóttur og bera börn þeirra foreldrum sínum fagurt vitni. Þeim sendi ég samúðarkveðjur.

Guðmundi Magnússyni þakka ég áratuga vináttu, tryggð við hugsjónina um fagurt mannlíf og heilindi í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. „Farðu vel, bróðir og vinur.“

Ólafur Haukur Árnason.