Sigling Mykinesið í hafnarmynninu í Þorlákshöfn í gærdag. Siglingin yfir hafið og heim gekk eins og í sögu.
Sigling Mykinesið í hafnarmynninu í Þorlákshöfn í gærdag. Siglingin yfir hafið og heim gekk eins og í sögu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Í annarri atrennu náði skipstjórinn á færeysku flutningaferjunni Mykines í innsiglinguna í Þorlákshöfn, í fyrstu ferð skipsins þangað í eftirmiðdaginn í gær. Það var kvika í sjó þegar skipið kom en allt lukkaðist.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í annarri atrennu náði skipstjórinn á færeysku flutningaferjunni Mykines í innsiglinguna í Þorlákshöfn, í fyrstu ferð skipsins þangað í eftirmiðdaginn í gær. Það var kvika í sjó þegar skipið kom en allt lukkaðist. Með þessu hófust siglingar færeyska skipafélagsins Smyril Line Cargo, en Mykines verður í vikulegum ferðum milli Rotterdam í Hollandi og Þorlákshafnar.

Styrki atvinnulífið

Sigling ferjunnar yfir hafið gekk eins og í sögu, þrátt fyrir leiðindaveður á leiðinni. Það var svo klukkan 13.30 í gær sem skipið kom til Þorlákshafnar og var mannfjöldi þá niðri við bryggju að fylgjast með. Það er eftir vonum því í Þorlákshöfn eru bundnar miklar vonir við þetta verkefni og að það styrki atvinnulíf. Má raunar halda því til haga að þegar þéttbýli fór að myndast í Þorlákshöfn fyrir tæplega 70 árum var framtíðarsýn fólks alltaf sú að þar yrði útflutningshöfn. Nú er sá draumur að rætast.

Stór tæki, byggingavörur og almenn neytendavara var uppistaðan í farmi Mykiness í fyrstu Íslandsferðinni. Skipið lagði aftur af stað seint í gærkvöldi og kemur til Rotterdam á mánudagskvöld. Farmurinn sem fór utan er að stórum hluta ferskur fiskur sem kominn verður til kaupenda á meginlandi Evrópu strax á þriðjudagsmorgun.

„Við bjuggumst aldrei við fulllestuðu skipi í fyrstu ferð en þetta lofar góðu,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo, sem telur siglingar þessar þýða breytingar. Fyrirtækjum bjóðist nú að geta flutt vöru milli Íslands og Evrópu á aðeins á þremur sólarhringum.

Að geta ekið flutningabílum beint í og úr ekjuskipi sé til þæginda og almennt sé samkeppni á flutningamarkaði að aukast.

Skipið í tölum
» Mykines er 19 þúsund tonna skip. Það er 138 metrar á lengd og 23 metrar á breidd.
» Ferjan getur flutt 90 tengivagna og 500 bíla í hverri ferð. Hún var smíðuð árið 1996 í UMOE-skipasmíðastöðinni í Noregi og var m.a. áður í siglingum á Eystrasalti.
» Smyril Line Cargo gerir út skipið, sem er skráð í Færeyjum. 24 eru í áhöfn.