Háskakvendi Úr Faster Pussycat, Kill Kill!
Háskakvendi Úr Faster Pussycat, Kill Kill!
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Ótrúlega skrítinn apríl nefnist dagskrá kvikmyndaklúbbsins Svartra sunnudaga í Bíó Paradís þennan mánuðinn.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Ótrúlega skrítinn apríl nefnist dagskrá kvikmyndaklúbbsins Svartra sunnudaga í Bíó Paradís þennan mánuðinn. Oft hafa skrítnar kvikmyndir verið sýndar á sunnudögum á vegum Svartra sunnudaga, valdar af þeim Sigurjóni Kjartanssyni, Hugleiki Dagssyni og Sjón, en nú verður gengið enn lengra í furðulegheitunum.

Næstu þrír sunnudagar verða tileinkaðir bók sem kom út um þetta efni, ótrúlega skrítnar kvikmyndir, árið 1985 og nefnist Incredibly Strange Films. Bókin sú mun vera biblía áhugamanna um undarlegar kvikmyndir en í henni er rýnt í nokkrar furðurlegustu kvikmyndir kvikmyndasögunnar og leikstjórar nokkurra slíkra teknir tali, m.a. Russ Meyer og Herchell Gordon Lewis.

Fyrsta skrítna kvikmyndin á dagskrá Svartra sunnudaga er Spider Baby, or The Maddest Story Ever Told ,eftir Jack Hill, frá árinu 1967 en hún verður sýnd á morgun , 9. apríl. Annan í páskum (sem er að vísu mánudagur), 17. apríl, verður á dagskrá hin víðfræga furðumynd Faster Pussycat, Kill Kill! eftir Russ Meyer frá árinu 1965 en í henni segir af þremur lævísum glæpakvendum sem vefja feðgum nokkrum um fingur sér í leit að skjótfengnum auði. Þriðja myndin og ekki síður skrítin en þær fyrrnefndu, The Mask , verður svo sýnd 23. apríl. Hún er frá árinu 1961 og leikstjóri hennar Julian Hoffman. Myndin segir af fornleifafræðingi sem fær endurteknar martraðir tengdar grímu sem finnst í uppgreftri og áður en hann sviptir sig lífi sendir hann grímuna til sálfræðingsins síns sem dregst í kjölfarið inn í martraðarheim grímunnar, eins og því er lýst í tilkynningu frá Svörtum sunnudögum.

Komnir aftur á byrjunarreit

„Það var eiginlega Sjón sem átti hugmyndina að því að vera með þemamánuð upp úr þessari bók, hann er mesti aðdáandi hennar af okkur þremur og okkur fannst það bara vera tilvalið,“ segir Hugleikur um Incredibly Strange Films . Hugmyndin að Svörtum sunnudögum hafi í raun fæðst í Facebook-hópi sem nefndist „költ & gríðarlega undarlegar kvikmyndir“. „Það er væntanlega tekið frá Incredibly Strange Films þannig að við erum svolítið komnir heim aftur með Svarta sunnudaga, á byrjunarreit,“ segir Hugleikur.

Hann segir að þeir félagar í Svörtum sunnudögum hafi ákveðið að fara svarthvíta leið í kvikmyndavalinu að þessu sinni og valið þrjár gamlar og stórfurðulegar til sýninga. „Ég hef persónulega ekki séð neina þeirra nema Faster Pussycat, Kill Kill! sem er besta myndin hans Russ Meyer, þannig að ég hlakka mikið til að tékka á Spider Baby , hún hefur alltaf verið á listanum hjá mér,“ segir Hugleikur.

Líkt og ef Buñuel hefði gert gamanþætti

–Í tilkynningu frá ykkur segið þið að Spider Baby sé lýst þannig í bókinni að ef Luis Buñuel hefði einhvern tíma gert gamanþætti í sjónvarpi þá hefðu þeir verið eitthvað í líkingu við Spider Baby ...

„Já, það er einmitt það sem ég las og ég get ekki ímyndað mér hvað er átt við með því. Það er bara ein leið til að komast að því, að fara að sjá myndina,“ segir Hugleikur.

Bókarkápu Incredibly Strange Films prýðir stilla úr kvikmyndinni The Mask sem Hugleikur ítrekar að sé ekki sama mynd og Jim Carrey fór með aðalhlutverkið í en hún er frá árinu 1994. Kvikmyndin með Carrey er lauslega byggð á þeirri gömlu, að sögn Hugleiks, en þó fyrst og fremst myndasögu frá Dark Horse Comics sem byggð var á svipaðri hugmynd og gamla kvikmyndin, þ.e. grímu sem tekur völdin af hverjum þeim sem setur hana á andlitið.

–Hvar myndir þú segja að mörkin væru milli undarlegra kvikmynda og ótrúlega undarlegra kvikmynda?

„Það er óljós lína og fer í fyrsta lagi eftir persónulegum smekk. Ég er búinn að horfa á svo margar undarlegar myndir núna og sérstaklega í gegnum Svarta sunnudaga að ég er orðinn eins og eiturlyfjafíkill, alltaf að leita að einhverju harðara. Ég vil helst láta koma mér á óvart og það sem er spennandi við þessar eldri myndir er að þær voru skrítnar fyrir meira en hálfri öld og þykja ennþá skrítnar. Og ef þær þykja ennþá skrítnar í dag, hversu skrítnar voru þær þá? Þannig að ég myndi segja að þessar myndir væru ótrúlega skrítnar,“ segir Hugleikur og hlær.

Connery á rauðri brók og kúkur sem orkulind

–Hver heldurðu að sé skrítnasta kvikmynd sem þú hefur séð?

„Þær eru margar skrítnar. Ég var að horfa á Zardos nýlega, í henni er Sean Connery í mjög fjarlægri framtíð að hlaupa um á rauðri brók og ferðast um með fljúgandi haus. En sú skrítnasta sem ég hef séð nýlega og er frekar nýleg er kóresk teiknimynd sem heitir Aachi og Ssipak og er frá árinu 2006. Hún gerist í framtíðinni, allar orkulindir eru tómar en einhvern veginn hefur mannkyninu tekist að gera kúk að nýrri orkulind. Allir sem kúka fá verðlaun í formi e.k. íspinna sem eru í rauninni eiturlyf og ef þú verður háður þeim færðu krónískt harðlífi og getur ekki kúkað! Aachi og Ssipak starfa á svörtum markaði og eru að díla með þessa íspinna. Þeir finna svo gullnámu í klámstjörnu sem verður vinur þeirra en hún getur einmitt kúkað meira en nokkur annar,“ segir Hugleikur.

–Þú horfir ekki mikið á Hollywood-myndir, heyrist mér?!

„Jú, ég elska allan skalann. Ég hlakka alltaf til og er alltaf spenntur fyrir næstu Marvel-mynd en ég er DVD-safnari og þær allra furðulegustu rata helst í mínar hillur.“