Sorgardagur Árásin átti sér stað kl. 14.53 að staðartíma, á horni Åhléns-verslunarmiðstöðvarinnar við Drottningargötu sem er stærsta göngugata borgarinnar, og rétt fyrir ofan aðalneðanjarðarlestarstöðina. Flutningabíl var stolið og hann notaður sem vopn. Fjórir eru látnir og 12 hið minnsta slasaðir.
Sorgardagur Árásin átti sér stað kl. 14.53 að staðartíma, á horni Åhléns-verslunarmiðstöðvarinnar við Drottningargötu sem er stærsta göngugata borgarinnar, og rétt fyrir ofan aðalneðanjarðarlestarstöðina. Flutningabíl var stolið og hann notaður sem vopn. Fjórir eru látnir og 12 hið minnsta slasaðir. — AFP
Ingveldur Geirsdóttir Auður Albertsdóttir Drungalega rólegt var yfir miðborg Stokkhólms í gærkvöldi, að sögn Estridar Brekkan, sendiherra Íslands í Svíþjóð.

Ingveldur Geirsdóttir

Auður Albertsdóttir

Drungalega rólegt var yfir miðborg Stokkhólms í gærkvöldi, að sögn Estridar Brekkan, sendiherra Íslands í Svíþjóð. Greinilegt væri að fólk væri slegið yfir árásinni sem átti sér stað í miðborginni um miðjan dag í gær. Estrid býr í miðbænum og sagði í samtali við Morgunblaðið seint í gærkvöldi að mun færra fólk væri á ferli í bænum en á venjulegu föstudagskvöldi. „Ég fór aðeins út í kvöld og mér fannst vera drungalega rólegt yfir borginni og á sumum götum var ekki einn einasti maður á ferli.“ Estrid sagði að enn væru í gildi tilmæli frá lögreglunni um að fólk ætti að halda sig í burtu frá árásarsvæðinu, það væri enn lögregluvettvangur.

Þrátt fyrir ringulreið í borginni í gær reyndi lítið á aðstoð sendiráðsins. „Það voru örfáir sem hringdu og það var ekkert alvarlegt. Það var ein ung kona með dóttur sína sem beið hjá okkur fram á kvöld eftir að vera sótt,“ sagði Estrid. Annars hefði helsta vinnan verið að miðla upplýsingum á netið.

Almenningssamgöngur fóru úr skorðum í Stokkhólmi í kjölfar árásarinnar þegar aðallestarstöðin var rýmd. Estrid sagði það hafa verið það helsta sem fólk lenti í vandræðum með en allt hefði verið að komast aftur í samt lag í gærkvöldi.

Grátur og öskur

Fjöldi Íslendinga var í miðborginni þegar árásin átti sér stað. Birna Hrönn Gunnlaugsdóttir og Helena Reynisdóttir urðu vitni að árásinni, en þær voru á leið í Åhléns City-verslunarmiðstöðina þegar flutningabíl var ekið inn í húsið. Þær voru að ganga út úr búð þegar þær heyrðu mikil læti og flutningabíllinn brunaði framhjá þeim. Birna sagði í samtali við mbl.is í gær að þær hefðu þá tekist í hendur og hlaupið aftur inn í búðina. „Það hlaupa allir í endann á búðinni og þá kemur annar hvellur. Allir tryllast og við hlaupum ennþá lengra, á bak við í búðinni. Þar er hurð og það fyrsta sem við gerðum var að hlaupa út og eins langt og við gátum,“ útskýrði Birna. Allir hefðu verið grátandi í búðinni og sumir öskrandi.

Sama sagði Helga Margrét Marzellíusardóttir, sem var með 10 ára dóttur sína í kjallara verslunar á Drottningargötu þegar árásin átti sér stað. Þeim hefði verið fylgt út bakdyramegin og þar hefði algjör ringulreið blasað við þeim og lögreglubílar og sjúkrabílar verið úti um allt.

„Þá varð svolítið panik“

Fjórtán ára sonur Jónu Bríetar Guðjónsdóttur var staddur í miðbæ Stokkhólms þegar árásin átti sér stað. Hann var á leiðinni með lest á handboltamót ásamt fleirum. „Hann hringir í mig um 20 mínútum eftir að þetta gerist og sendir mér svo nokkur skilaboð en svo er ekkert hægt að ná í hann því allt símasamband dettur út, þá varð svolítið panik,“ sagði Jóna Bríet, sem hefur búið ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum í úthverfi Stokkhólms í sex ár. Sonur hennar var rétt hjá árásarstaðnum, en móðir eins vinar hans var líka þar rétt hjá og kom þeim í öruggt skjól.

Maður Jónu Bríetar vinnur hjá orkufyrirtækinu Vattenfall og þar læstist húsið í nokkurn tíma af öryggisástæðum eftir árásina, auk stórrar verslunarmiðstöðvar sem er þar við hliðina. Þá tók hann um þrjá klukkutíma að komast heim úr vinnunni, lestarferð sem tekur vanalega um klukkustund. Jóna Bríet segir að allir leikskólar og skólar hafi verið með opið lengur ef fólk lenti í vandræðum með að ná í börnin sín.