Listahátíð Á fallegum degi þegar bærinn allur iðar af lífi.
Listahátíð Á fallegum degi þegar bærinn allur iðar af lífi. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nóg er komið af hótelbyggingum. Stórkarlalegar byggingar rísa nú um öll hverfin með miklu jarðraski, auknu skuggavarpi, ónæði, hávaða, truflun á umferð og skemmdum á nærliggjandi húsum og er íbúðabyggð í hættu vegna þeirra.

Nóg er komið af hótelbyggingum. Stórkarlalegar byggingar rísa nú um öll hverfin með miklu jarðraski, auknu skuggavarpi, ónæði, hávaða, truflun á umferð og skemmdum á nærliggjandi húsum og er íbúðabyggð í hættu vegna þeirra. Taumlaus bygging hótela og það að íbúðarhúsnæði er breytt í gistiheimili hefur orsakað mikið ójafnvægi í byggðinni. Þetta segir í ályktun fundar þrennra íbúasamtaka í Reykjavík sem starfa í byggðunum frá Kringlumýrarbraut að Seltjarnarnesi.

Eftirsóknarverð hverfi

„Þetta eru gróin hverfi sem er eftirsóknarvert að búa í vegna nálægðar við þjónustu, menningu, afþreyingu og sögu en stjórnir íbúasamtakanna þrennra voru sammála um bæta mætti umferðaröryggi, gera götur vistvænni, minnka mengun frá umferð, hætta hótelbyggingum og koma í veg fyrir að meira íbúðarhúsnæði og húsnæði fyrir þjónustu við íbúa verði lagt undir ferðaþjónustu,“ segir í ályktun.

Hjá fulltrúum íbúasamtakanna kemur fram að verð á húsnæði á þessu kjarasvæði borgarinnar hafi hækkað svo mikið á síðustu árum að ungt fólk með börn hafi ekki lengur efni á að kaupa eða leigja húsnæði þar. Þess sjái nú þegar stað með fækkun skólabarna og lokun leikskóladeilda. Áherslur borgaryfirvalda eigi því að miðast við bætta þjónustu við íbúa og styrkingu innviða hverfanna. Undanþáguákvæði um að hótel megi byggja við allar aðalgötur ætti tafarlaust að nema úr gildi í miðborginni og nágrenni hennar.

Vistgötur og minni ökuhraði

Mikil umferð er í gegnum hverfin í vesturhluta borgarinnar og fjölfarnar umferðargötur liggja um þau. Íbúasamtökin segja algengt að börn og unglingar þurfi að fara yfir þessar umferðaræðar til að komast í skóla, íþróttir eða frístundastarf. Bæta þurfi öryggi þeirra með göngubrúm, gönguljósum eða með því að leggja götur í stokk. Þó mikið átak hafi verið gert í lagningu hjólastíga í borginni hafi áherslan ekki verið á að börn geti hjólað í skólann. Úr því þurfi að bæta.

„Fundarmenn höfðu m.a. áhuga á að fjölga vistgötum í hverfunum þar sem ökuhraði yrði lækkaður verulega og gangandi umferð hefði forgang. Í hverfunum er þétt byggð og fátt um opin svæði og því mikilvægt að börn hverfisins geti leikið sér örugg á götunum,“ segir í ályktun samtakanna. sbs@mbl.is