Kvíðvænlegt „...þótt við köllum þetta gamanverk þá eru sumar senurnar sárar og erfiðar. En okkur langaði líka að skoða hvernig við gætum notað húmor í umfjöllun um kvíða,“ segir Sara Marti Guðmundsdóttir.
Kvíðvænlegt „...þótt við köllum þetta gamanverk þá eru sumar senurnar sárar og erfiðar. En okkur langaði líka að skoða hvernig við gætum notað húmor í umfjöllun um kvíða,“ segir Sara Marti Guðmundsdóttir. — Ljósmynd/Geiri X
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Kvíði er umfjöllunarefni gamanleikritsins Fyrirlestur um eitthvað fallegt eftir leikhópinn SmartíLab sem frumsýnt verður í Tjarnarbíói annað kvöld, sunnudag, klukkan 20.30.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Kvíði er umfjöllunarefni gamanleikritsins Fyrirlestur um eitthvað fallegt eftir leikhópinn SmartíLab sem frumsýnt verður í Tjarnarbíói annað kvöld, sunnudag, klukkan 20.30. Í verkinu túlka fimm leikarar ýmsar birtingarmyndir kvíða – þær geta verið æði margar og eru um 12 prósent Íslendinga sögð þjást að „óeðlilegum“ kvíða – og segja leikararnir allt í lagi að hlæja að honum.

Sara Marti Guðmundsdóttir er leikstjóri verksins en með hlutverkin fara Kjartan Darri Kristjánsson, Sigrún Huld Skúladóttir, Guðmundur Felixson, Agnes Wild og Hannes Óli Ágústsson. Brynja Björnsdóttir hannar leikmynd og búninga, Stefán Örn Gunnlaugsson semur tónlist og Arnar Ingvarsson hannar lýsingu.

Risastórt hugtak, kvíði

Þegar Sara Marti er spurð að því hvort ekki felist ákveðin þversögn í því að semja gamanleikrit um kvíða, þá segir hún svo vera en einnig sé mikilvægt að geta horft til þess góða sem út úr því kemur.

„Að takast á við kvíðann þýðir að fólk sé farið að hlúa að sér og það er jákvætt,“ segir hún.

Leikhópurinn semur leikritið saman en kveikjan að verkinu liggur í kvíðakasti sem Sara Marti fékk sjálf. „Í ágúst 2015 fékk ég mitt fyrsta kvíðakast. Sat uppi í sófa og var að horfa á sjónvarpið og þá dembdist þetta yfir mig, eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður. Þessi rosalega tilfinning, eins og ég þyrfti að taka á sprett því ég væri í lífshættu en þó var engin hætta – ég var bara heima uppi í sófa að horfa á sjónvarp!

Innst inni vissi ég að ég væri að upplifa kvíðakast en samt er þetta svo yfirþyrmandi tilfinning að hluti af manni efast og verður hræddur. Þetta er lamandi tilfinning.“

Á sama tíma og Sara Marti fékk kvíðakastið var hún að fylla út umsókn til leiklistarráðs og sækja um styrki til að búa til önnur leikrit.

„Ég ákvað að sækja um leið um styrk til að gera leikrit um kvíða, eftir að hafa upplifað þetta sjálf. Ég vissi ekkert um hvað það verk ætti að vera – og fannst kvíðavaldandi að skrifa umsókn um eitthvað sem ég hefði ekkert mótað. En umsóknin byrjaði í þessa veru: Baldur er að halda fyrirlestur um nýjasta verkið sitt en þar sem það er ekki fullmótað þá veldur það honum miklum kvíða og erfiðleikum, hann fær kvíðakast! Svo fékk ég styrk til að gera þetta verk. Ég fékk til liðs við mig leikara sem bæði þekktu kvíða af eigin raun og aðra sem þekktu það ekki neitt. Helmingur hópsins hefur kynnst kvíða. Við hittum svo sálfræðinga og geðlækna, töluðum við fólk hjá Hugarafli og hjá öðrum frábærum samtökum þar sem fólki er hjálpað að glíma við kvíða, til að fræðast sem best um fyrirbærið. Þetta er risastórt hugtak, kvíði, og hægt að fara með það í ýmsar áttir. Við bjuggum til rúmlega tvö hundruð senur og atriði og höfum valið þær 35 sem okkur langaði mest til að sýna og bjuggum til úr þeim þennan gjörning sem við köllum Fyrirlestur um eitthvað falleg ,“ segir hún.

Fræðast um fyrirbærið

Þegar spurt er hvort um stakar senur sé að ræða eða heildstætt verk, þá segir Sara Marti það byrja á Baldri sem er að halda fyrirlestur og það endar líka á honum.

„Allir fimm leikararnir heita Baldur í sýningunni en þetta eru líka allt mismunandi persónur. Sumar eru með sögur sem birtast í nokkrum senum en aðrar eru með sjálfstæðar frásagnir. Sumar fjalla um það hvernig tekist er á við kvíða – og þótt við köllum þetta gamanverk þá eru sumar senurnar sárar og erfiðar. En okkur langaði líka að skoða hvernig við gætum notað húmor í umfjöllun um kvíða og það er mjög fyndið fólk í þessum leikhópi. Við höfum til dæmis búið til ofurhetjukvíðamanninn en það skiptir ekki máli hversu hræðilegar aðstæðurnar eru sem hann lendir í, hann hefur alltaf séð þær fyrir sér sem miklu verri.

Birtingarmyndir kvíða eru gríðarlega mismunandi og við reynum að sýna það,“ segir hún.

Sara Marti segir leikhús vera fullkominn vettvang til að tækla allt mögulegt og kvíðann þar með talinn.

„Eiga ekki listir að vera til þess fallnar að takast á við allt? Það er mjög jákvætt að kvíði sé mikið í umræðunni núna enda eigum við að geta talað frjálslega um slík vandamál. Ég vona að þeir sem þjást af kvíða geti í eina klukkustund í leikhúsinu samsamað sig með öðrum sem þekkja hann af eigin raun og að hinir, sem þekkja þetta ekki, fari heim aðeins fróðari um fyrirbærið,“ segir leikstjórinn Sara Marti.