Helgi Seljan
Helgi Seljan
Eftir Helga Seljan: "Meðal þeirra yngstu hefur líka verið unnið markvisst forvarnarstarf sem hefur virkilega skilað sér"

Í allri hinni oft ótrúlegu umræðu um áfengismál, sem nú á sér stað á Alþingi þar sem gæðingar gróðaaflanna eru enn á ferð með sinn áfengisuppvakning, heyrir maður eða sér þá fullyrðingu að engin aukning hafi orðið á neyzlu áfengis við tilkomu bjórsins. Þetta hefur svo sem verið marghrakið, en ég var einmitt áðan að lesa viðtal við þann mæta yfirlækni á Vogi, Valgerði Rúnarsdóttur, sem engum held ég detti í hug að fari með rangar tölur hvað þá staðlausa stafi um þessi mál og hennar tölur eru sláandi, aukningin er sem sagt úr 4% fyrir bjórinnleiðinguna upp í 7% í dag og ég hvet áfengisunnendurna á Alþingi til að kynna sér og jafnvel virða sem ótvíræða sönnun um áhrifin. En viðtalið við Valgerði er fyrir svo margra hluta sakir athyglisvert enda talar þar sú sem veit og skilur. Þar á meðal er vaxandi neyzla aldraðra með tilheyrandi vandamálum, m.a. umtalsverðri fjölgun innlagna á Vog. Þetta er skelfileg þróun, þar sem sagt er að fólk í einmanaleik sínum grípi bjór eða léttvín sér til svokallaðs lífsauka með þeim alvarlegu afleiðingum sem Valgerður bendir á. Menn horfa gjarnan helzt til hinna ungu og óreyndu og þar er vissulega þörfin brýnust og skilar beztum árangri ef vel tekst til. En svo bætist þetta við í hinn enda æviskeiðsins. Meðal þeirra yngstu hefur líka verið unnið markvisst forvarnarstarf sem hefur virkilega skilað sér, þó ekki lengra en í tíunda bekk því miður.

En framhaldsskólarnir þurfa ekki síður að taka sér tak með öllum þeim ágætu kröftum sem einmitt hafa verið að vinna svo vel á grunnskólastiginu. Það má hreinlega ekki verða það rof sem þar er nú. Það að áfengisneyzla snaraukist strax eftir grunnskólanám er ástand sem ekki er unnt að sætta sig við og þar þarf einnig markvissar aðgerðir og allra sízt að gera eitthvað sem aukið getur vandann svo sem nú er róið að öllum árum af ákveðnum þingmönnum sem auðvitað eru knúðir áfram af þeim sem þarna ætla að maka sinn ógeðuga krók.

Það er gjarnan fimbulfambað um að þetta sé eitthvert framfaraspor í átt til breytts tíðaranda, eitthvað spánnýtt. Menn ættu þá að lesa snjalla grein Ólafs Hauks Árnasonar, fyrrum áfengisvarnarráðunauts, þar sem hann rekur söguna og þetta frelsi kaupmanna til að selja áfengi á fyrri tíð, (staupasöluna margfrægu), er rakið og greint frá til hvers ófarnaðar það leiddi á allan veg. Þar kom að þjóðin sjálf reis upp til varnar og það myndarlega. Kannski það þurfi að gerast aftur. Frábær er vönduð og óhrekjandi grein Ásmundar Magnússonar í Morgunblaðinu á dögunum þar sem sláandi tölur eru tíundaðar, skyldulesning allra hugsandi alþingismanna eða eru þeir það annars ekki allir?

Þeir mættu líka lesa hina skörpu grein Stefáns Mána rithöfundar, sem dregur ekkert undan og hvatningin um synjun þessa frumvarps ótvíræð, þar talar sá sem veit og kann skil á þessu.

Vilja menn á Alþingi í „frelsis“-hópnum kannski alls ekki hlusta á eða lesa annað en það sem hæfir þeirra þrönga hugsanaranni ? Þá er illa komið.

Svo les ég líka vitnisburð þess mæta Þórarins Tyrfingssonar þar sem hann segir staðfest, að af þeim Íslendingum á aldrinum 15-64 ára sem dáið hafa fyrir aldur fram á síðustu 15 árum hafi tæplega 30 prósent leitað sér lækninga á Vogi. Og enn segir Þórarinn: Algengasta dánarorsök þeirra sem eru yngri en 25 ára er áfengisneyzla, beint eða óbeint. Finnst virkilega einhverjum að þessar tölur þurfi hækkunar við? Ágætu alþingismenn, segið nei og aftur nei við uppvakningnum.

Höfundur er form. fjölmiðlanefndar IOGT .