[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Við rannsókn á þeim rútuslysum sem orðið hafa hér á landi undanfarin ár, bæði banaslysum og alvarlegum slysum, hefur rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) oft orðið vör við misbrest á beltanotkun farþega.

Fréttaskýring

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Við rannsókn á þeim rútuslysum sem orðið hafa hér á landi undanfarin ár, bæði banaslysum og alvarlegum slysum, hefur rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) oft orðið vör við misbrest á beltanotkun farþega. Þegar slys hafa orðið á farþegum eða bílstjórum hafa viðkomandi yfirleitt ekki verið í beltum.

Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri hjá RNSA, segir mikilvægt að vekja athygli farþega á nauðsyn þess að nota beltin. Öll óhöpp veki umræðu um öryggismálin, líkt og hið hörmulega slys í Svíþjóð á dögunum þegar rúta valt utan vegar með þeim afleiðingum að þrír skólakrakkar á leið í skíðaferðalag létust og tugir slösuðust. Ekki voru allir farþegar í beltum en nú er bílstjórinn grunaður um manndráp af gáleysi eftir 600 km akstur að næturlagi. Um tveggja hæða rútu var að ræða og eðli málsins samkvæmt er hætt við alvarlegri slysum um borð í slíkum bifreiðum ef eitthvað fer úrskeiðis.

Hætta á alvarlegum slysum

Ágúst segir RNSA vera í góðu sambandi við aðrar rannsóknarnefndir á Norðurlöndum sem rannsakað hafa mörg alvarleg rútuslys. Sameiginlegir fundir eru haldnir árlega. „Við höfum getað dregið lærdóm af þeim og nefndirnar skipst á upplýsingum. Þegar rútur fara út af eða lenda í árekstri er hætta á mjög alvarlegum meiðslum og viðbúnaður þarf að vera mikill á vettvangi. Þetta eru engar venjulegar aðstæður. Hlúa þarf að fjölda manns og öflugan tækjabúnað þarf til að koma ökutækjunum upp á veg eða rétta þau af,“ segir Ágúst, sem reiknar með að fá kynningu á rannsókn slyssins í norðurhluta Svíþjóðar á næsta fundi.

Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu hafa fleiri slasast um borð í hópferðarbílum á seinni árum. Ekkert banaslys hefur orðið frá árinu 2006, þegar einn lést um borð í rútu. Á síðasta ári slösuðust 42, þar af 10 alvarlega, 32 slösuðust árið 2015, 20 árið 2014 og 11 árið 2013. Aukningin síðan þá nemur um 280%. Frá árinu 2005 hafa 286 manns slasast um borð í rútum. Flestir slösuðust árið 2007, eða 61. Þetta sést nánar á meðfylgjandi korti.

Ágúst Mogensen segir þær rútur sem lent hafa í óhöppum hafa verið í margs konar ástandi. Sumar hafi verið nýlegar og í góðu standi en aðrar verið gamlar með bilaðan hemla- og hjólabúnað.

„Hin seinni ár hafa rúturnar oftast verið nýlegar eða nýjar. Áður fyrr vildi loða við flotann að hann væri í eldri kantinum, meðalaldurinn hár og ástandið eftir því. Það er erfitt að alhæfa um rútuflotann í dag, hann hefur stækkað samfara aukinni ferðamennsku,“ segir Ágúst.

Meðalaldurinn líkt og 2008

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er meðalaldur rútuflotans í dag 13,1 ár. Fyrir fimm árum var meðalaldurinn 14,3 ár, þannig að flotinn hefur yngst á síðustu árum. Sé farið aftur til ársins 2008 var meðalaldurinn þó lægri en í dag, eða 12,7 ár. Enn sjást gamlar rútur í umferðinni, t.d. í akstri með skólakrakka í ferðalög eða innanbæjar á milli skóla og sundlauga. Ágúst segist hafa orðið var við þessar eldri rútur. Auðvitað eigi að gera kröfur um það besta þegar börn eigi í hlut.

Alls eru um 2.900 hópferðarbílar skráðir í dag. Með fjölgun ferðamanna hafa fyrirtækin orðið að bæta við sig rútum, bæði notuðum og nýjum. Árið 2014 voru 102 nýjar rútur fluttar inn til landsins, 98 árið 2015 og 221 rúta á síðasta ári, beint úr kassanum. Það sem af er þessu ári hafa 22 nýjar rútur verið fluttar inn.

Óhöpp og slys hafa verið tíðust yfir vetrarmánuðina, þegar hált er á vegum og sviptivindasamt. Ágúst segir ástand vegakerfisins sums staðar ekki gott og oft á tíðum engar vegaxlir sem rútur geti nýtt sér við að mæta umferð á móti. Varðandi bílbeltin segir Ágúst að RNSA hafi stöðugt hvatt til þess að farþegar noti beltin.

„Það er mismunandi eftir menningu og þjóðerni farþega hvernig það gengur. Í sumum löndum er fólk ekki vant því að spenna beltin í hópferðabílum. Reyndar hefur það líka viljað loða við hér á landi. Ef hópbifreið veltur höfum við bent á að fallið úr efstu stöðu getur jafngilt breidd bifreiðarinnar. Fallið getur verið um og yfir tvo metra. Við höfum fjölmörg dæmi um meiðsl bara vegna þessarar fallhæðar. Við brýnum því fyrir fólki að spenna beltin,“ segir Ágúst.

Hann segir farþega meðvitaðri um þennan öryggisþátt en áður. Viðskiptavinir rútufyrirtækja geri einnig kröfur um að belti séu í öllum rútum, enda eigi það að vera þannig.

Sérstök aðgerðaáætlun er til staðar hjá viðbragðsaðilum þegar rútuslys eða önnur hópslys verða. Sameiginlegri aðgerðarstjórn var komið á á síðasta ári, og hefur hún gefist vel. Viðbrögð við hópslysum eru æfð reglulega en um allt land eru hópslysaáætlanir til staðar hjá viðbragðsaðilum.

Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir sameiginlega aðgerðastjórn hafa komið sér vel í slysinu á Mosfellsheiði í október síðastliðnum, þegar rúta með rúmlega 40 farþega valt og nokkrir slösuðust alvarlega. Samræming aðgerða lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita, Landspítalans og RKÍ sé gríðarlega mikilvæg.

„Aðgerðir á Mosfellsheiði gengu mjög vel, þarna vorum við í miklu návígi, boðleiðirnar stuttar og við nánast héldumst í hendur. Þetta gerði alla ákvarðanatöku auðveldari.“

Ágúst Svansson segir að með aukinni ferðaþjónustu sé nauðsynlegt að vera vakandi fyrir auknum forvörnum og fræðslu um öryggismál. Samfara fjölgun ferðamanna og aukinni umferð aukist einnig hættan á slysum, t.d. þegar ferðamenn nemi staðar á miðjum vegi til að horfa á norðurljósin eða taka myndir af umhverfinu. Ekki megi heldur gleyma hlutverki og ábyrgð rútufyrirtækja og annarra ferðaþjónustufyrirtækja við að upplýsa og fræða ferðamenn.

Orðsporið að veði

Þórir Garðarsson, varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar og stjórnarformaður ferðaþjónustufyrirtækisins Gray Line, sem er með um 78 rútur í flota sínum, segist telja að heilt yfir sé ástand rútuflotans í dag mjög gott og fyrirtækin hafi öryggismálin í öndvegi. Langflest fyrirtækin taki þau mál mjög alvarlega, enda sé orðspor þeirra að veði.

„Flotinn hefur batnað verulega á undanförnum árum. Meira hefur verið keypt af nýjum bifreiðum, sem eru öruggari og þær menga minna. Hins vegar takmarkar viðhaldsskortur á þjóðvegakerfinu öryggið verulega,“ segir Þórir og tekur veginn gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum sem dæmi. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur staðið til að endurbæta þann veg en ekki er enn ljóst hvaða leið verður farin í þeim efnum.

„Eins og vegurinn í gegnum þjóðgarðinn er í dag er eina lausnin að breyta honum í einstefnu á efri og neðri leiðinni, þannig að bílarnir þurfi ekki að mætast á þessum kafla. Vegkantarnir eru farnir að gefa sig og nauðsynlegt er að gera endurbætur,“ segir Þórir.

Rokrassgat á Mosfellsheiði

Rútur hafa einnig lent í óhöppum á Mosfellsheiði og hafnað utan vegar. Þórir segir rokið og hálkuna hafa haft mest með þau óhöpp að gera. „Þessi leið er rokrassgat. Um leið og komið er upp fyrir Skeljabrekku koma hættulegir kaflar. Þarna koma sviptivindar og menn þurfa að fara sérstaklega varlega. Vegagerðin hefur bætt hálkuvörnina á þessum slóðum en betur má ef duga skal.“

Þórir segir allar rútur í dag hafa bílbelti fyrir farþega. Flestir bílstjórar og leiðsögumenn séu duglegir að reka áróður fyrir því að farþegar spenni beltin. Bílstjórar séu einnig samviskusamir við að fara eftir reglum um akstur og hvíldartíma.

„Rútur eru að mínu mati öruggasti ferðamátinn en til þess þarf fólk að vera í beltum. Bílarnir eru þannig byggðir að þeir eiga að þola að fara á hliðina eða toppinn án þess að aflagast verulega,“ segir Þórir.

Mismunandi eftir þjóðerni

Hann telur að ekki sé hægt að setja ábyrgð í öryggismálum alfarið á bílstjórana og rútufyrirtækin. Ástand vegakerfisins skipti einnig miklu sem og veðurfarið, sem geti breyst fyrirvaralaust. Þá sé einnig mismunandi eftir þjóðerni ferðamanna hve vel sé tekið í beiðnir um að spenna beltin. Þannig sé greinilega ekki hefð fyrir bílbeltanotkun í löndum eins og Kína.

„Við þurfum bara að vera dugleg að hamra á nauðsyn þess að spenna beltin. Öðruvísi aukum við ekki öryggi farþega.“

Þórir bendir á að miðað við mikla umferð rútubíla um landið þurfi ekki oft að aðstoða rútur sem starfræktar eru af innlendum fyrirtækjum. Þau fari samviskusamlega eftir þeim viðmiðunum um vindstyrk sem Vegagerðin, Samgöngustofa og tryggingafélögin hafi gefið út, þ.e. við hvaða aðstæður sé ráðlagt að aka og fyrir hvaða ökutæki. „Hjá okkur í Gray Line eru veðurkort og sjónvarpsskjáir beintengd upp á vegg, bæði hjá vaktmönnum og þar sem bílstjórar eru. Þar er fylgst vel með því hvernig veðrið er á hverjum stað og ekki lagt í hann nema veður og færð leyfi.“