Klár Sindri Freyr Steinsson, Sindri 7000, leggur á dýpið.
Klár Sindri Freyr Steinsson, Sindri 7000, leggur á dýpið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlist fyrir kafara er plata eftir Sindra 7000. Á bakvið listamannsnafnið er Sindri Freyr Steinsson sem hefur meðal annars leikið með hljómsveitunum Bárujárn og Boogie Trouble.

TÓNLIST

Arnar Eggert Thoroddsen

arnareggert@arnareggert.is

Það er hið mjög svo ágæta útgáfufyrirtæki Möller Records, eitt af okkar helstu og virkustu raftónlistarmerkjum, sem gefur plötu Sindra 7000 út og fellur hann eins og flís við rass hvað útgáfuskrá þeirra varðar (Futuregrapher, Bistro Boy, Prince Valium, Skurken, Gunnar Jónsson Collider o.fl.). Um er að ræða ósungna raftónlist og er platan óður til ævintýramannsins Jaques Cousteau sem var mikill brautryðjandi í djúpsjávarfræðum og fór óhikað þangað sem enginn hafði áður farið – bókstaflega.

Ég hef verið að skrifa um óvenju margar íslenskar plötur að undanförnu sem eru með hafið sem umfjöllunarefni; Innsæi eftir Úlf Eldjárn (óbein tenging), Himinglæva eftir Kristínu Lárusdóttur, Brimslóð eftir Báru Gísladóttur. Kannski er þetta tilviljun en ætla mætti að eyjabúar eins og hér séu nú eitthvað uppteknir af blessuðum sjónum. Og það er sannarlega tilfellið hér.

Ég dásamaði í pistli um daginn vinnu Jóhanns Jóhannssonar, Ólafs Arnalds, Arnars Guðjónssonar og Úlfs Eldjárn á hinu „ósungna“ sviði. Allir hafa þessir aðilar verið að leika sér með kvikmyndatónlistarleg minni, stundum eðlilega (Jóhann hefur verið semja fyrir þann miðil) en stundum á annars konar hátt (frábær plata Arnars, Grey Mist of Wuhan , er tónlist við borg). Sindri er nær Arnari, tónlistin er innblásin af nefndum Cousteau en er ekki samin fyrir eitthvað sérstakt, ef svo má segja. Það sem er þó mikilvægara er að gæðalega séð er vel hægt að slengja Sindra í þennan góða hóp. Sindri hefur verið að gera flotta hluti með Boogie Trouble og Bárujárn og held ég sérstaklega upp á hina síðarnefndu. Ég vissi þó hreinlega ekki að hann hefði svona nokkuð í sér og þessi plata kemur mér því þægilega á óvart.

Tökum dæmi um upphafs- og svo endalagið, „Förin á hjara veraldar“ og „Fjársjóður Rögnvaldar rauða“. Í þeim er evrópskur bragur, eins og þau komi úr franskri heimildarmynd frá 1982 eða séu skrifuð fyrir ítalska, listræna sjónvarpsmynd frá sama tíma. „Kubbslegir“, grófir hljóðgervilshljómar og yfir þeim nokkurs konar tölvuleikjabragur. Síðarnefnda lagið fer skyndilega á hlemmiskeið, maður bíður eftir því að Mariobræður gægist fyrir hornið eða þá að tékkneska teiknimyndin fari af stað. „Tónlist fyrir ála“ er með þessum brag líka og stundum heyri ég meira að segja í hljómsveitum Sindra. „Ó, þú miskunnarlausi heimur kóralrifsins“ minnir t.a.m. á Bárujárn; melódían bæði og heildarandinn. Í „Hákarlarnir“ brestur svo á með draugalegri, hryllilegri stemningu í takt við aðalleikendur lagsins. En um leið er í því kímileitin stemning, þar sem það skoppar kæruleysislega áfram. Merkilegt hvernig Sindri nær að samþætta þetta tvennt.

Afskaplega skemmtilegt og heillandi verk, svalt og nýmóðins og kvikmyndaleg framvindan gengur vel upp. En um leið er einhver laufléttur grallaraskapur í gangi sem setur skemmtilegan snúning á þetta allt saman. Svona eins og ef Músíkvatur myndi endurhljóðblanda Jóhann Jóhannsson. Vel gert. Skál í „botn“.