Stór læri Dilkar voru vænir í haust vegna góðs árferðis. Það skapar vanda við sölu og útflutning því stóru lærin ganga síður út en þau smærri.
Stór læri Dilkar voru vænir í haust vegna góðs árferðis. Það skapar vanda við sölu og útflutning því stóru lærin ganga síður út en þau smærri. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Birgðir kindakjöts eru um 700 tonnum meiri nú en þær voru fyrir ári. Það er sá vandi sem Bændasamtök Íslands óttast að leiði til verðfalls á markaðnum í haust og í kjölfarið lækki verð til bænda annað árið í röð.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Birgðir kindakjöts eru um 700 tonnum meiri nú en þær voru fyrir ári. Það er sá vandi sem Bændasamtök Íslands óttast að leiði til verðfalls á markaðnum í haust og í kjölfarið lækki verð til bænda annað árið í röð.

Birgðir kindakjöts voru um 5.500 tonn í lok febrúar, samkvæmt upplýsingum búnaðarstofu Matvælastofnunar. Er það 670 tonnum meira en á sama tímapunkti ári fyrr.

Sala á lambakjöti á innanlandsmarkaði hefur heldur aukist frá fyrra ári en birgðavandinn skapast vegna erfiðleika í útflutningi. Vegna markaðsaðstæðna í Noregi lokaðist einn besti markaðurinn fyrir íslenskt kindakjöt. Þangað fóru árlega 600 tonn. Rússlandsmarkaður minnkaði verulega vegna deilna Rússa við Vesturlönd um málefni Úkraínu. Þá hefur dregist saman útflutningur til Spánar og Bretlands.

Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, segir að mesti vandinn sé vegna hækkunar á gengi íslensku krónunnar. Það komi niður á útflutningi kindakjöts eins og öðrum útflutningi. Minna fáist fyrir kjötið í íslenskum krónum.

Ekki hefur tekist að opna Kínamarkað fyrir landbúnaðarafurðir þrátt fyrir fríverslunarsamning ríkjanna. Fulltrúar stjórnvalda eystra hafa ekki komið til að taka út sláturhús og kjötvinnslur.

Of stór læri á lager

Síðustu daga hefur verið unnið að því að greina vandann. Birgðirnar virðast liggja meira hjá þeim sláturleyfishöfum sem mest hafa treyst á útflutning. Þá liggur vandinn í því að partarnir seljast misjafnlega. Vegna mikils fallþunga sl. haust er mikið til af lærum af stórum lömbum, meira en markaðurinn hér ræður við. Á móti væri ef til vill hægt að selja meira af hryggjum.

Ágúst segir að framleiðslan sé það mikil að flytja þurfi út þriðjung hennar. Hann segir raunhæft að selja hluta þess á markaði sem stendur undir sér en á meðan gengið sé svona sterkt þurfi lengri tíma til að komast inn á betur borgandi markaði.

Minnka þarf kjötfjallið

Ef ekki á illa að fara í haust þarf að tappa af frystigeymslunum, með einhverjum hætti, minnka kjötfjallið. Forystumenn Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda hafa átt viðræður við stjórnvöld, meðal annars Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra, því þeir þurfa liðsinni stjórnvalda ef beita á stjórntækjum búvörusamnings í þessu skyni. Tillögur eru ekki tilbúnar en bændaforystan vonast til að málin skýrist á fundi með ráðherra á næstunni.

Nokkrar leiðir eru til skoðunar og horfa þær bæði til skamms og langs tíma. Nefnt hefur verið að setja meiri kraft í markaðssetningu erlendis og grípa til aðgerða sem gætu opnað Kínamarkað fyrr en ella. Þá hefur komið til tals að stuðla að samdrætti í framleiðslu til lengri tíma. Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, nefnir einnig mögulega skuldbreytingu lána bænda í grein í Bændablaðinu í gær.

Í þessu sambandi má geta þess að fyrir áramót gáfu stjórnvöld vilyrði fyrir 100 milljóna króna framlagi til að kynna lambakjötið eftir nýjum leiðum og á nýjum mörkuðum.