[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í keppni áskorendaflokks Skákþings Íslands sem fram fer í Stúkunni á Kópavogsvelli þar sem keppt er um tvö sæti í landsliðsflokki hefur Ísfirðingurinn Guðmundur Gíslason unnið allar skákir sínar og er 1 ½ vinningi á undan Jóhanni Ingvasyni og Lenku...

Í keppni áskorendaflokks Skákþings Íslands sem fram fer í Stúkunni á Kópavogsvelli þar sem keppt er um tvö sæti í landsliðsflokki hefur Ísfirðingurinn Guðmundur Gíslason unnið allar skákir sínar og er 1 ½ vinningi á undan Jóhanni Ingvasyni og Lenku Ptacnikovu sem eru með 3 ½ vinning. Með þrjá vinninga eru nokkrir, þ.ám. Jón Kristinsson, eini keppandinn sem orðið hefur Íslandsmeistari en það gerðist árin 1971 og aftur 1974.

Óvænt úrslit á bandaríska meistaramótinu

Spænski leikurinn er eins og margir vita nefndur eftir spænskum presti, Ruy Lopez. Hann var samfara miklum breytingum sem urðu á iðkun skákar þegar styrkur drottningarinnar var aukinn á skákborðinu en breytingin er rakin til hylli Ísabellu Spánardrottningar sem eins og sagan greinir frá greiddi götu Kristófers Kólumbus. Eftir níu algengustu leiki þess spænska á svartur marga valkosti og einn þeirra sem virkar svolítið skringilega er afbrigði Ungverjans Breyer og byggist á því að riddara er leikið upp í borð.

Vinur okkar Boris Spasskí, sem varð áttræður 30. janúar sl., tefldi Breyer-afbrigðið af slíkum þokka að unun var á að horfa. En þar kom að hann tapaði; í 10. einvígisskák gegn Fischer í Laugardalshöllinni um verslunarmannahelgina 1972 og aftur 20 árum síðar í fyrstu skák endurkomueinvígis þeirra í Júgóslavíu. Spasskí lagði meira til þróunar afbrigðisins með hvítu en flesta grunar; í áskorendaeinvígi sem hann háði við Lajos Portisch árið 1977 vann hann lykilskák með slíkum glæsibrag að mótspyrna Ungverjans hrundi. Á bandaríska meistaramótinu í St. Louis kom eiginlega „systurskák“ þessarar viðureignar. Wesley So heldur naumri forystu en stórskytturnar Hikaru Nakamura og Fabiano Caruana hafa átt í basli og sá síðarnefndi missti sennilega af lestinni í keppni um efsta sætið þegar hann tapaði í 7. umferð fyrir lítt þekktum Úkraínumanni sem náði við það efsta sæti ásamt So. Staðan á toppnum:

1. – 2. So og Zherebukh 4 ½ v. (af 7) 3. – 4. Akobian og Nakamura 4 v. 5. – 9. Robson, Caruana, Shankland, Naroditsky og Onischuk 3 ½ v. Keppendur eru 12 talsins.

Bandaríska meistaramótið 2017:

Zherebukh – Caruana

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. O-O Be7 6. He1 b5 7. Bb3 d6 8. c3 O-O 9. h3 Rb8 10. d4 Rbd7 11. Rbd2 Bb7 12. Bc2 He8 13. Rf1 Bf8 14. Rg3 g6 15. a4 c5 16. d5 c4 17. Bg5 h6 18. Be3 Rc5 19. Dd2 h5 20. Bg5 Bg7 21. Hf1 Dc7

Allt saman þekkt en drottningin gæti verið betur geymd á e7 til að eiga f8-reitinn.

22. Bh6 Bh8 23. Rg5 Rh7 24. Rxh7 Kxh7 25. Be3 De7 26. f4!

Þessi framrás reynir á burðarveggi kóngsstöðunnar en riddarinn fær e5-reitinn.

26. ... exf4 27. Bxf4 Kg8 28. Hf3 Bg7 29. Haf1 Rd7 30. Bh6 Bxh6 31. Dxh6 Df8 32. Dd2 Re5 33. Hf6 Had8 34. Dg5 Dg7 35. Bd1! Bc8 36. Dh4 Kf8 37. Df4 Dg8 38. Kh1 He7

39. Bxh5!

Þessi biskup sem stundum rekst á eigin peð í spænska leiknum tekur nú til óspilltra málanna. Það er ekki hollt að taka hann: 39. ... gxh5 40. Rxh5 og „Houdini“ segir mér að svarta staðan sé óverjandi.

39. ... bxa4 40. Bd1 Dg7 41. Bxa4 Dh7 42. Dg5 a5 43. Kg1 Dh8 44. H1f4 Dg7 45. Hh4 Rd3 46. Hh6 Re5 47. Hf4 Bd7 48. Dh4! Kg8 49. Dxe7 He8 50. Dg5 Bxa4 51. Hf6

- og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Höf.: Helgi Ólafsson helol@simnet.is