Spítali Mikilvæg þjónusta.
Spítali Mikilvæg þjónusta. — Morgunblaðið/Ómar
Frekar ætti að færa rekstur heilbrigðiskerfisins í félagslegt horf en í einkarekstur enda skilar það betri og réttlátari þjónustu og minni kostnaði.

Frekar ætti að færa rekstur heilbrigðiskerfisins í félagslegt horf en í einkarekstur enda skilar það betri og réttlátari þjónustu og minni kostnaði. Þetta kemur fram í ályktun SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu en á aðalfundi þess í vikunni var fjallað um einkavæðingu í heilbrigðismálum. Þar segir að á undanförnum misserum hafi kostnaðarþátttaka sjúklinga og einkavæðing í heilbrigðiskerfinu aukist stórlega. Einhliða ákvarðanir stjórnvalda hafi komið í bak landsmanna án umræðu um stefnubreytingu. Mikill meirihluti almennings hafi lýst því yfir að heilbrigðisþjónusta skuli vera í höndum stjórnvalda, enda sé einungis þannig hægt að tryggja jöfnuð.

Afdráttarlaus afstaða

Aukin kostnaðarþátttaka er liður í einkavæðingarferlinu, segir SFR. Með því móti eru sjúklingar vandir við að greiða eigi fyrir þjónustu af þessu tagi og því ólíklegra að til baka sé snúið. Fullljóst sé að aðeins með opinberum rekstri heilbrigðiskerfisins sé hægt að tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag.

„Einkavæðing heilbrigðiskerfisins veikir stoðir grunnþjónustunnar og tekur aðalfundur SFR því afdráttarlausa afstöðu gegn öllum aðgerðum í þá veru,“ segir í ályktun. sbs@mbl.is