[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páskaegg UN Women gefur fólki tækifæri til að leggja sitt af mörkum, því með því að kaupa eggið þá styður fólk við uppbyggingu griðastaða í flóttamannabúðum í útjaðri Mósúl og veitir þar með konum á flótta von og kraft.

Páskaegg UN Women gefur fólki tækifæri til að leggja sitt af mörkum, því með því að kaupa eggið þá styður fólk við uppbyggingu griðastaða í flóttamannabúðum í útjaðri Mósúl og veitir þar með konum á flótta von og kraft.

Páskaegg UN Women er hannað af Rán Flygenring og er táknræn gjöf til þín eða þinna. Páskaegginu fylgir páskaskraut sem hægt er að prenta út, skreyta og hengja upp.

Í tilkynningu frá UN Woman kemur fram að skelfilegt ástand ríki í Mósúl og virðist eingöngu fara versnandi. Fólki á flótta frá Mósúl fer fjölgandi með hverjum deginum en um 300 þúsund manns eru á vergangi eftir að hafa flúið borgina og þar af helmingur konur. Síðastliðna sex mánuði hafa hörð átök átt sér stað í borginni allt frá því að íraskar öryggissveitir ásamt hersveitum Kúrda réðust inn í Mósúl með það að markmiði að ná borginni úr höndum vígasveita íslamska ríkisins sem hafa haft borgina á sínu valdi undanfarin tvö og hálft ár.

Í vesturhluta borgarinnar er fólk í felum fyrir vígasveitum ISIS. Í örvæntingu sinni gefa foreldrar börnum sínum róandi lyf eða valíum og setja límband fyrir munn barna sinna svo ISIS-liðar heyri ekki grát þeirra. Óbreyttir borgarar eru notaðir sem mannlegir skildir í átökunum og skotnir af færi. Konur og stúlkur hafa þurft að þola gróft kynbundið ofbeldi og eru berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir mansali og kynlífsþrælkun.

UN Women starfrækir griðastaði fyrir konur og börn þeirra í flóttamannabúðum í útjaðri Mósúl í Hamam Al-Aleel búðunum. Á griðastöðunum fá konurnar vernd og öryggi, sálræna aðstoð og áfallahjálp og atvinnutækifæri til að sjá fyrir sér og börnum sínum.

Þar hljóta þær jafningjastuðning, félagsskap og öðlast tilgang á ný í skelfilegu aðstæðum. Á griðastöðunum er konum gert kleift að byggja sig upp, öðlast efnahagslegt sjálfstæði og afla tekna í gegnum störf sín. Þannig styrkist sjálfsmynd þeirra, kraftur kvenna nýtist og þær öðlast tilgang á ný í breyttum aðstæðum.

Til að bregðast við neyð kvenna á flótta frá Mósul er UN Women að setja á laggirnar fleiri griðastaði í búðunum. En til þess þarf fjármagn, og til að leggja í þann sjóð er ein leið að kaupa páskaeggið góða sem Rán hannaði. Páskaegg UN Women fæst á www.unwomen.is og kostar 1.900 krónur.