[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is KR-ingar eru einum sigri frá sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta eftir 91:88 sigur á Keflavík í hreint mögnuðum leik í Vesturbænum í gærkvöldi.

Í Vesturbænum

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

KR-ingar eru einum sigri frá sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta eftir 91:88 sigur á Keflavík í hreint mögnuðum leik í Vesturbænum í gærkvöldi. Úrslitin réðust í blálokin eftir mikla spennu og hefði Keflavík alveg eins getað fagnað sigri í leikslok.

Keflavík byrjaði leikinn betur og var staðan í hálfleik 50:45 Keflavík í vil. Keflavík mátti helst þakka magnaðri nýtingu utan þriggja stiga línunnar. Hvað eftir annað fóru Magnús Már Traustason, Ágúst Orrason, Guðmundur Jónsson og Hörður Axel Vilhjálmsson í galopin skot, sem oftar en ekki enduðu ofan í.

Vörn KR-inga náði ekki að trufla góðar skyttur Keflavíkur nægilega mikið í fyrri hálfleik, en það batnaði til muna í seinni hálfleiknum. Keflavíkurliðið var á tímabili búið að skora átta þriggja stiga körfum meira en KR en þrátt fyrir það munaði aðeins einni þriggja stiga körfu þegar flautað var til leiksloka.

Sýndi hvers hann er megnugur

Jón Arnór Stefánsson var meginástæða þess að KR vann leikinn. Þegar spennan var sem mest sýndi hann hvers vegna hann er talinn einn allra besti leikmaður sem Ísland hefur átt. Það fór allt ofan í hjá honum þegar það mestu máli skipti, en hann endaði með 31 stig, sjö fráköst og fimm stoðsendingar. Hann hreinlega dró lið sitt áfram, yfir þunga lokametra.

Að sama skapi átti Amin Stevens, einn allra besti leikmaður deildarinnar, ekki besta leik sinn fyrir Keflavík. Hann skoraði 16 stig, sem er tæpum tíu stigum frá meðaltali hans í einvíginu fram að leiknum í gær. KR-ingar voru með fleiri en einn leikmenn í kringum hann öllum stundum og virtist hann eilítið þreyttur á köflum og sérstaklega framan af leik, en hann skoraði aðeins sex stig í fyrri hálfleik.

Hörður Axel var óhræddur

Hörður Axel Vilhjálmsson tók til sinna ráða og var mjög áberandi í leik Keflavíkur. Hann hitti betur úr þriggja stiga skotum en í síðasta leik og var óhræddur við að taka á skarið. Hörður skoraði 26 stig og gaf auk þess tíu stoðsendingar og er þetta með betri leikjum Harðar síðan hann gekk í raðir Keflvíkinga í vetur.

Það er hættulegt að treysta á að þriggja stiga skotin detti niður, eins og þau gerðu framan af leik fyrir Keflavík í gær. Um leið og nýtingin versnaði varð leikurinn töluvert erfiðari fyrir gestina og KR-ingar voru alltaf líklegir til að snúa taflinu sér í vil.

Eiga fullt erindi í KR

Fjórði leikur liðanna fer fram á þriðjudaginn kemur og þarf Keflavík að fá meira frá Amin Stevens í þeim leik, en Keflavíkingar sýndu í gær að þeir eiga í fullt erindi í KR, þrátt fyrir að Stevens eigi ekki toppleik. Það er hins vegar munurinn á að tapa spennandi leik og að vinna spennandi leik, það er framlag lykilmanna, þar höfðu KR-ingar sigur í gær og því fór sem fór.