Öflugur Skálmeldingurinn Björgvin Sigurðsson í ham á tónleikum árið 2014.
Öflugur Skálmeldingurinn Björgvin Sigurðsson í ham á tónleikum árið 2014. — Morgunblaðið/Eggert
Þungarokkssveitin Skálmöld gaf síðla árs í fyrra út sína fjórðu breiðskífu, Vögguvísur Yggdrasils , og fagnar útgáfunni í kvöld kl. 20 með tónleikum í Háskólabíói.

Þungarokkssveitin Skálmöld gaf síðla árs í fyrra út sína fjórðu breiðskífu, Vögguvísur Yggdrasils , og fagnar útgáfunni í kvöld kl. 20 með tónleikum í Háskólabíói.

„Hefð hefur skapast fyrir því að halda sitjandi útgáfutónleika eftir hverja útgáfu Skálmaldar og engin breyting skal á því gerð nú. Vögguvísur Yggdrasils er metnaðarfullt tónverk eins og Skálmeldinga er von og vísa, myndræn saga í mörgum köflum og vel fallin til frásagnar á stóru sviði. Fyrri sögur sveitarinnar hafa þannig verið sagðar í máli og myndum, sögumenn og leikarar hafa stigið á svið, textasmíðum varpað upp á tjald og allt sett í hátíðarbúning og þá aðeins á þessum sértilgreindu útgáfutónleikum,“ segir um tónleikana á Facebook og að þeir séu fyrir unga sem aldna í „svolítið aðgengilegra andrúmslofti en gengur og gerist með slíka tónlist“. Skálmöld hefur notið mikilla vinsælda hér á landi hin síðustu ár, hélt m.a. þrenna tónleika í Eldborg árið 2013 með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Karlakór Reykjavíkur, Hymnodiu og Skólakór Kársnesskóla.

Í kvöld flytur hljómsveitin lög af nýju plötunni auk úrvals laga af eldri plötum.