Stefanía Jónasdóttir
Stefanía Jónasdóttir
Eftir Stefaníu Jónasdóttur: "Ef alþingismenn fengjust nú til þess að hætta rifrildinu og veita betur athygli því sem er að gerast í landinu okkar, þá mundi okkur farnast betur."

Jæja þingheimur, látum nú reyna á gegnsæið, sem þið raupið endalaust um. Hvað kosta hælisleitendur og hið svokallaða flóttafólk okkur skattgreiðendur á ári? Þið sem takið ákvarðanirnar um fólk og fé, eruð að nota fjármuni örþjóðar, þjóðar með brotna innviði. Hver borgar silkihúfum Rauða krossins laun, það er æðstu embættismönnunum og hversu margir eru þeir orðnir? Það mætti segja mér að þeir gæfu ekki vinnuna sína. Því sækið þið fólk sem þegar er í flóttamannabúðum, en hjálpið ekki börnum sem eru ein á ferð og þeim sem rekast undan vindi í Evrópu jafnvel skólaus í kuldanum?

Áfram með gegnsæið, las í blöðunum mjög litla grein um að 123 nauðganir hafi átt sér stað í Reykjavík á síðasta ári. Því þegja þau hjá Stígamótum, eða er bara hjólað í Vestmannaeyinga á þjóðhátíð? Varla eru þetta allt íslenskir karlmenn sem nauðga, eða er þagað vegna þess að hluti þeirra eru erlendir karlmenn? Ekkert fáum við að heyra um fjölgun líkamsárása í miðborginni um helgar. Mætti segja mér að þar leiki Albanar sér, og kæmi ekki á óvart. Hvað er verið að halda uppi öllum þessum körlum frá Albaníu, og þetta eru ekki innfæddir Makedoníumenn, sem eru að koma, heldur minnihlutahópur Albana í Makedoníu. Því getur RÚV ekki komið með nákvæmar fréttir? Þið skulið vita að þær þjóðir og lönd, sem landamæri eiga að Albaníu, eru þéttsetin Albönum, en þeir virða lítt aðrar þjóðir.

Ykkur sem takið ákvarðanir um þessi mál leiðist ekki að vera höfð að fíflum. Ég mótmæli því að þurfa að halda þessu liði uppi. Og þar sem fé þjóðar er notað á þennan hátt, þá á þjóðin rétt á að vita allt um þessi mál, allar þær breytingar á þjóðfélaginu og fjármuni sem tengjast þessum málaflokki. Það vakna spurningar, hvort þið eigið rétt á að fylla landið af alls konar fólki og inn á brotna innviði. Svandís Svavarsdóttir fór mikinn úr ræðustól Alþingis um að skila náttúru landsins til komandi kynslóða, en hún hugsar ekki fram í tímann, hvernig eigi að varðveita eignarhald á landinu. Landi sem verið er að selja í bútum undan okkur og svo óábyrgur innflutningur á fólki mun orsaka það að við missum tökin.

Auðmenn erlendir og innlendir eru að eignast auðlindir okkar og heilu dalina, svo hvað ætlar þú, Svandís, að varðveita? Ef alþingismenn fengjust nú til þess að hætta rifrildinu og veita betur athygli því sem er að gerast í landinu okkar, þá mundi okkur farnast betur. Á meðan herraþjóðin menntar hvaða kjána sem er, þá eru grunnstörfin unnin af útlendingum og íslenskan fer halloka, en dæmið á eftir að snúast við. Það er til nokkuð sem er andlegt fall þjóðar og við erum einmitt á þeirri braut. Það er ekki nóg að ala komandi kynslóðir upp í því að vera góðu dýrin í skóginum, þau eru nefnilega oftar en ekki étin af þeim sem grimmari eru. Það hefur aldrei gefist vel að spila sig flottræfil, en nóg er af þeim á meðal vor, sem gleypa við öllum og öllu í fullvissu um að þeir hafi völdin. Farið varlega.

Á virkilega að taka á móti Tyrkjum og Kúrdum, sem Norðurlönd hafa hafnað? Vitið þið yfir höfuð hvað þið eruð að gera, þið er hafið með þessi mál að gera? Hvern skal kalla til ábyrgðar? Öll þessi mál eru orðin hömlulaus og grafalvarleg. Jú, við erum öll mennsk, en langt í frá bræður og systur, það skulið þið muna.

Höfundur býr á Sauðárkróki.

Höf.: Stefaníu Jónasdóttur