[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Blúshátíð í Reykjavík verður haldin í 14. sinn frá og með deginum í dag og lýkur 13. apríl, á skírdag. Hátíðin hefst að vanda með blúsdegi á Skólavörðustíg sem hefst kl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Blúshátíð í Reykjavík verður haldin í 14. sinn frá og með deginum í dag og lýkur 13. apríl, á skírdag. Hátíðin hefst að vanda með blúsdegi á Skólavörðustíg sem hefst kl. 14 með formlegri setningu hátíðarinnar og útnefningu heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíkur. Í framhaldi verður boðið upp á lifandi blús víða á stígnum til kl. 16, kveikt verður upp í grillum og boðið upp á beikon, kjúklingavængi og pylsur. Kl. 16 hefjast svo tónleikar á Borgarbókasafni í Grófinni.

Þrennir stórtónleikar verða haldnir á hátíðinni, 11., 12. og 13. apríl á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut. Fjöldi blústónlistarmanna kemur fram á tónleikunum og þeirra á meðal er upprennandi bandarísk blússtjarna og gítarhetja, Noah Wotherspoon, sem var valinn besti gítarleikarinn á International Blues Challenge árið 2015, alþjóðlegu móti blúsmanna í Memphis í Bandaríkjunum. Með honum leika á hátíðinni þeir Róbert Þórhallsson á bassa, Birgir Baldursson á trommur, Guðmundur Pétursson á gítar og Davíð Þór Jónsson á Hammond-orgel.

Verðandi stórstjarna

„Hann er ungur og einn sá efnilegasti í bransanum í Bandaríkjunum í dag,“ segir Halldór Bragason, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, um Wotherspoon. „Það segja allir að hann verði stórstjarna, að hann sé á uppleið og hann er alveg ótrúlega flinkur og góður gítarleikari,“ segir Halldór. „Í fyrra kom söngkonan Karen Lovely á hátíðina og varð mikill Íslandsvinur. Hún fékk Róbert Þórhallsson og Birgi Baldursson til að koma með sér til Póllands á blúshátíð og spila með sér í Evrópu og þar kynntust þau Noah, heilluðust gjörsamlega af honum og hann varð mjög spenntur fyrir því að koma til Íslands.“

Wotherspoon er um þrítugt og segir Halldór að hann hafi drukkið blúsinn í sig, allar stefnur og helstu blúsgítarleikara á borð við B.B. King og Stevie Ray Vaughn. „Hann er algjörlega með þetta,“ segir Halldór um gítarhetjuna ungu. „Hann spilar allt frá Jimi Hendrix yfir í gamla blúsinn, spilar allt og er með sinn eigin stíl á því líka. Svo er hann líka krúttbolla og gaman að því,“ segir Halldór kíminn.

Halldór segir stefnu Blúshátíðar í Reykjavík að gefa ungum mönnum tækifæri á því að spreyta sig og nefnir sem dæmi Victor Wainwright sem lék á hátíðinni fyrir þremur árum. „Þá var hann ungur og upprennandi og er núna á öllum blúshátíðum,“ segir Halldór.

Vantar fleiri stelpur

Hátíðin var í fyrra tileinkuð blúskonum og komu nokkrar slíkar fram á tónleikum hátíðarinnar. Þær eru hins vegar fáar á dagskrá hátíðarinnar í ár, söngkonan Andrea Gylfadóttir sú eina sem blaðamaður finnur á dagskránni. „Þetta er náttúrlega bara eins og lífið er, við erum alltaf að reyna að fjölga konum í blúsnum, höfum alltaf verið með jafnréttisstefnu og Andrea Gylfa er aðalnúmerið í bænum með sitt band,“ segir Halldór, spurður út í kynjahallann. „Það vantar bara fleiri stelpur með hljóðfæri og við höfum verið mjög sterkir í því að flytja inn blúskonur, m.a. gítarleikarann Debbie Davis, Karen í fyrra og blúsdívurnar allar sem við höfum verið með. En það vantar fleiri hljóðfæraleikara,“ bætir hann við og bendir á að blússöngkonur hafi margoft verið aðaltónlistarmenn hátíðarinnar í þau 14 ár sem hún hefur verið haldin. „Við fylgjumst með öllum efnilegum stelpum,“ segir Halldór og að hátíðarhaldarar auglýsi eftir fleiri kvenkyns blúshljóðfæraleikurum.

Spurður frekar út í dagskrá hátíðarinnar í ár nefnir Halldór að mikill fengur sé í því að fá KK bandið til að spila á fyrsta kvöldinu, 11. apríl. Sænski gítarleikarinn Göran Svenningsson muni einnig spila á miðvikudagskvöldi en sá hefur leikið blús frá unga aldri með helstu blúsmönnum Svíþjóðar og fjölda bandarískra blúsmanna. Svenningsson verður ekki í amalegum félagsskap því með honum leika Erik Qvick á trommur og Þorgrímur Jónsson á bassa. „Og ekki má gleyma því að við verðum með blúsaðasta bandið frá Músíktilraunum, Misty frá Hornafirði,“ segir Halldór.

Dagskrá hátíðarinnar og frekari upplýsingar má finna á blues.is.