Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Herskip Bandaríkjamanna á Miðjarðarhafi skutu í fyrrinótt 59 Tomahawk-eldflaugum á flugvöll sem flugher Sýrlandsstjórnar er sagður hafa notast við í efnavopnaárásinni sem gerð var á þorpið Khan Sheikhun í síðustu viku, en 86 manns létust þar af völdum eituráhrifa sem benda til þess að sarín hafi verið notað í árásinni.

Þetta eru fyrstu beinu aðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn Sýrlandi og Bashar al-Assad Sýrlandsforseta síðan borgarastríðið hófst fyrir sex árum. Stjórnvöld í Sýrlandi fordæmdu árásina, sem og bandamenn þeirra í Rússlandi, en Rússar kröfðust þess að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kæmi saman í gær til þess að ræða „ólögmæta“ árás Bandaríkjanna á fullvalda ríki.

Bandamenn styðja við Trump

Þá námu Rússar úr gildi samkomulag milli sín og Bandaríkjamanna, þar sem skipst var á upplýsingum um hernaðaraðgerðir ríkjanna í Sýrlandi, en því var ætlað að draga úr líkum á árekstrum milli ríkjanna. Fyrirhugaðri heimsókn Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Moskvu í næstu viku var hins vegar ekki frestað. Rússneski herinn tilkynnti þá einnig að hann myndi starfa með Sýrlendingum til þess að treysta loftvarnir þeirra gegn annarri árás.

Viðbrögð helstu bandamanna Bandaríkjanna voru hins vegar á aðra lund. Bretar, Frakkar og Þjóðverjar lýstu allir yfir stuðningi sínum og vörpuðu ábyrgðinni yfir á Assad og beitingu hans á efnavopnum. Önnur ríki á borð við Kanada, Japan, Sádi-Arabíu og Ísrael lýstu einnig yfir stuðningi sínum við aðgerðir Bandaríkjanna. Þá kölluðu stjórnvöld í Tyrklandi eftir því að flugbannssvæðum yrði komið á yfir Sýrlandi.

„Guð blessi Donald Trump“

Fregnum af eldflaugaárásum Bandaríkjanna var vel tekið meðal uppreisnarmanna, og sagði talsmaður þeirra að vonandi yrði þetta fyrsta skrefið í frekari aðgerðum til þess að takmarka lofthernað stjórnarhersins. Í Khan Sheikhun, þar sem efnavopnaárásin var gerð á þriðjudag, var árásunum sérstaklega fagnað. „Guð blessi Donald Trump,“ sagði einn þorpsbúa við AFP-fréttastofuna.

Talsmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins sögðu hins vegar að árásinni væri eingöngu ætlað að letja Assad frá því að beita efnavopnum á ný og ekki væri stefnt að frekari herferð gegn honum.

Farsælast ef SÞ fyndu lausn

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti ráðstefnu um málefni Sýrlands fyrir Íslands hönd fyrr í vikunni, þar sem hann hvatti Sameinuðu þjóðirnar til þess að skerast í leikinn, en öll notkun efnavopna væri fyrirtakslaus stríðsglæpur sem bæri að fordæma. „Það hefði auðvitað verið farsælast ef öryggisráðið hefði komið sér saman um aðgerðir, en við tökum undir með Norðmönnum, Þjóðverjum og öðrum bandamönnum okkar um að árás Bandaríkjamanna í nótt, sem var takmörkuð og beindist að herflugvellinum þaðan sem efnavopnaárásin var gerð, sé skiljanleg.“